Sérhagsmunir auðugra þjóða auka á flóttamannakrísuna

Samkvæmt skýrslu Amnesty International sem kom út árið 2016, hafa ríkari þjóðir heims algerlega brugðist ábyrgðarskyldu sinni gagnvart flóttamannavandanum en aðeins tíu lönd hafa tekið við 56% alls flóttafólks og eru þau meðal fátækustu landa heims. Mörg auðugustu ríki heims hafa tekið á móti minnstum fjölda flóttafólks. Bretland hefur til að mynda aðeins tekið á móti tæplega 8000 Sýrlendingum frá árinu 2011 en Jórdanía sem telur til tíu sinnum færri íbúa hefur tekið á móti 655 þúsund sýrlenskum flóttamönnum. Heildarfjöldi flóttafólks og hælisleitenda í Ástralíu, sem er mjög auðug þjóð, er 58 þúsund en 740 þúsund í Eþíópíu. Þessi ójafna ábyrgð ríkja er rótin að flóttamannavandanum í dag og allra þeirra fjölmörgu vandamála sem flóttafólk stendur frammi fyrir. 

 Skýrslan sem ber heitið, Tackling the global refugee crisis: From shirking to sharing responsibility, greinir frá hrikalegum aðstæðum sem meirihluti þeirrar tuttugu og einu milljónar sem nú telst til flóttafólks stendur frammi fyrir. Margt flóttafólk á Grikklandi, á eyjunni Nauru, á landamærum Sýrlands og Jórdaníu og í Írak, er í brýnni þörf á endurbúsetu og flóttafólk í Kenía og Pakistan verður fyrir auknum árásum af hálfu stjórnvalda.  

Í skýrslunni er sett fram sanngjörn og hagnýt lausn á vandanum sem byggir á hlutlægum viðmiðum um hvernig ríki heims geta deilt ábyrgðinni og árlega veitt 10% af því flóttafólki sem nú er í heiminum í dag, hæli og vernd. „Aðeins tíu lönd af 193 hýsa meira en helming alls flóttafólks. Þessi fáu lönd eru látin axla alla ábyrgð eingöngu vegna þess að þau eru í landfræðilegri nálægð við vandann. Slíkt ástand er í eðli sínu fallvalt og gerir það fólk sem flýr stríðsátök og ofsóknir í löndum eins og Sýrlandi, Suður-Súdan, Afganistan og Írak, berskjaldað fyrir óbærilegri eymd og þjáningum. Það er löngu tímabært fyrir leiðtoga heims að hefja uppbyggilegt samtal um það hvernig samfélög okkar ætla að aðstoða fólk sem neyðist til að flýja hemili sín vegna stríðs og ofsókna. Leiðtogar okkar þurfa að gefa skýringu á því hvers vegna hægt er að bjarga bönkum um allan heim, þróa nýja tækni og vinna stríð en ekki er gerlegt að finna örugg heimili fyrir 21 milljón flóttamanna sem er aðeins 0,3% af íbúum heimsins. Ef ríki vinna saman og deila ábyrgðinni þá getum við tryggt að fólk sem hefur þurft að flýja heimili sín, án nokkurra saka, geti endurheimt líf sitt í öruggum aðstæðum annars staðar. Ef við grípum ekki til aðgerða mun fólk halda áfram að drukkna á flótta, deyja úr sjúkdómum í nöturlegum flóttamannabúðum eða á varðhaldsstöðum, sjúkdómum sem að öllu jöfnu væri hægt að fyrirbyggja, eða að verða sent aftur til síns heima þar sem stríðsástand ríkir,“ segir Salil Shetty framkvæmdastjóri Amnesty International.

Flóttafólk um allan heim í sárri neyð

Í skýrslunni er lögð áhersla á þá brýnu þörf að ríkisstjórnir heims auki umtalsvert við þann fjölda flóttafólks sem tekið er á móti í hverju ríki fyrir sig.

Send til baka á stríðshrjáð svæði þar sem mannréttindabrot eru framin

 • Aukinn fjöldi flóttafólks frá Pakistan og Íran flýr til Afganistan vegna stigvaxandi átaka. Afganskt flóttafólk í Pakistan sætir síauknum árásum af hálfu stjórnvalda sem þegar hafa vísað 10 þúsund flóttamönnum til baka í stríðshrjáð land.
 • Í flóttamannabúðunum Dadaab í Kenía á flóttafólk í hættu að verða sent til baka til Sómalíu. Stjórnvöld í Kenía stefna á að fækka flóttafólki sem dvelur í búðunum um 150 þúsund í lok árs 2016. Rúmlega 20 þúsund sómalskt flóttafólk í Dadaab hefur verið snúið aftur til síns heima.
 • Rúmlega 75 þúsund sýrlenskt flóttafólk er í sjálfheldu á litlu svæði á eyðimörk við landamæri Jórdaníu þar sem aðstæður eru hörmulegar.

Haldið í ömurlegum aðstæðum

 • Í Suðaustur-Asíu lifir flóttafólk og hælisleitendur frá Mjanmar í stöðugum ótta við handtöku, fangelsun, ofsóknir og í sumum tilfellum endursendingu. Á varðhaldsstöðum í Malasíu þarf flóttafólk og hælisleitendur frá Mjanmar að þola mikið harðræði m.a. mikla mannþröng og á í hættu að fá ýmsa sjúkdóma, sæta líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi, og jafnvel að týna lífi sínu vegna skorts á læknisaðhlynningu.
 • Í skýrslunni eru Evrópusambandsríki og Ástralía ásökuð um að beita „kerfisbundnum mannréttindabrotum sem stjórntæki” til að halda flóttafólki frá löndum sínum. Í júlí 2016 komst Amnesty International að því að 1200 konur, karlmenn og börn sæta ómannúlegri meðferð og vanrækslu á varðhaldsstöð á eyjunni Nauru.

 • Evrópusambandið sækist eftir vafasömum samningum við Líbíu, Súdan og fleiri lönd, til að takmarka flóttamannstrauminn til álfunnar. Flóttafólk sætir margvíslegum mannréttindabrotum á varðhaldsstöðum þar sem því er haldið ólöglega, án aðgangs að lögfræðingi, eftir að líbanska landamæragæslan hefur hindrað för flóttafólksins eða það hefur verið handtekið af öryggissveitum. Stjórnvöld í Súdan beita öryggissveitum sínum til að hafa stjórn á flóttamannastraumnum, sömu sveitum og gerst hafa sekar um stórfelld mannréttindabrot í Darfur.

 

Þvinguð til að leggja á sig hættulegt ferðalag

 • Frá janúar 2014 til júní 2015 skráði Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna 1100 dauðsföll á sjó í Suðaustur-Asíu. Flestir þeirra sem létu lífið var flóttafólk frá Mjanmar. Líklegt er að tala látinna sé í raun mun hærri.
 • Árið 2015 komu rúmlega milljón flóttamanna og farandverkafólks til Evrópu sjóleiðis en óttast er að tæplega 4000 hafi drukknað á leiðinni. Rúmlega 3500 flóttamenn hafa látið lífið á fyrstu níu mánuðum ársins 2016.
 • Árið 2016 greindu konur, sem flúðu frá Afríku sunnan Sahara í gegnum Líbíu, frá því að nauðganir væru svo tíðar að þær tækju getnaðarvarnapillu áður en þær héldu í ferðalagið, til að forðast þungun. Þá tjáði flóttafólk Amnesty International að smyglarar héldu þeim föngum í þeim tilgangi að þvinga fé frá fjölskyldum þeirra. Þeim var haldið við ömurlegar aðstæður þar sem mat og vatn var ekki að fá og barsmíðar algengar.
 • Flóttafólk og hælisleitendur sem flýja stigvaxandi ofbeldi í Mið-Ameríku (El Salvador, Hondúras og Gvatemala) hafa sætt kynferðisofbeldi, fjárkúgunum og mannráni og margir hafa verið drepnir á leið sinni í gegnum Mexíkó í átt að landamærum Bandaríkjanna.

„Flóttamannavandinn takmarkast ekki við Miðjarðarhafið. Um heim allan er líf flóttafólks í hættu, það hírist í troðfullum bátum, býr við hrikalegar aðstæður, á í hættu að sæta misneytingu og þarf oft að leggja á sig hættulegt ferðalag þar sem það er upp á náð og miskunn smyglara og vopnaðra hópa,“ segir Salil Shetty. 

Lönd sem liggja að stríðshrjáðum svæðum eru látin axla ábyrgðina á meirihluta alls flóttafólks í heiminum

Í skýrslunni kemur fram að vegna mismikillar ábyrgðar ríkja hefur flóttamannakrísan aukist til muna og aukið á vanda flóttafólks. Skorað er á öll lönd heims að taka þátt í að leysa vandann á sanngjarnan hátt sem byggir á hlutlægum viðmiðum um getu landanna til að taka á móti flóttafólki.

Í skýrslunni kemur fram að auðvelt er að styðjast við ákveðin viðmið sem byggja á heilbrigðri skynsemi til að meta getu landa til að taka á móti flóttafólki. Viðmið eins og íbúafjöldi, atvinnuleysi og efnahagur eru dæmi um hlutlægar forsendur sem hægt er að byggja á til að meta hvaða lönd eru að bregðast hlutverki sínu.

Skýrslan undirstrikar þann hróplega mun sem er á fjölda flóttafólks frá Sýrlandi sem nágrannaríkin hafa tekið á móti til samanburðar við önnur lönd með svipaðan íbúafjölda.

 • Bretland hefur til að mynda tekið á móti færri en 8000 Sýrlendingum frá árinu 2011 en Jórdanía sem telur tíu sinni færri íbúa en í Bretlandi hefur tekið á móti 655 þúsund flóttamönnum frá Sýrlandi. Þá er verg landsframleiðsla Jórdaníu aðeins 1,2% af vergri landsframleiðslu  Bretlands.
 • Líbanon, sem telur 4,5 milljónir í íbúafjölda, er 10 þúsund ferkílómetrar að stærð og verg landsframleiðsla á mann nemur 10 þúsund Bandaríkjadala, hýsir 1,1 milljón flóttafólks frá Sýrlandi. Nýja Sjáland sem telur sama íbúafjölda en er 268 þúsund ferkílómetrar að stærð og verg landsframleiðsla á mann nemur 42 þúsund Bandaríkjadala hefur einungis tekið á móti 250 flóttamönnum frá Sýrlandi. 
 • Írland sem telur 4,6 milljónir íbúa og er landfræðilega tíu sinnum stærra en Líbanon hefur eingöngu boðið 758 flóttamenn velkomna frá Sýrlandi.

Skýrslan sýnir hvernig auðugustu þjóðir heims gætu átt sanngjarnari hlutdeild í að bjóða flóttafólk velkomið. Ef stuðst er við viðmið eins og íbúafjölda, þjóðarauð og atvinnuleysi, ætti Nýja Sjáland að taka á móti 3466 flóttamönnum. 

 

„Vandamálið er ekki fólgið í heildarfjölda flóttafólks í heiminum í dag heldur þeirri staðreynd að auðugustu ríki heims hýsa fæst flóttafólk og gera minnst. Ef hvert og eitt hinna auðugu ríkja myndi taka á móti flóttafólki í samræmi við stærð landsins, þjóðarauð og atvinnuleysi, þá væri auðvelt að finna mun fleira flóttafólki heimili í dag. Það eina sem skortir er pólitískur vilji,“ segir Salil Shetty.

 

Fleiri ríkisstjórnir verða að taka forystu

Í skýrslunni er vísað í Kanada sem dæmi um hvernig unnt er að veita stórum hópi flóttafólks endurbúsetu á skömmum tíma með því að taka forystu og skapa skýra sýn.

Kanada hefur veitt tæplega 30 þúsund flóttamönnum frá Sýrlandi endurbúsetu frá nóvember 2015. Kanadísk stjórnvöld stóðu straum af kostnaði nærri helmings flóttafólksins en 11 þúsund þeirra kom til landsins fyrir tilstilli einkaframtaks. Síðla ágúst var unnið í 18 þúsund sýrlenskum hælisumsóknum til viðbótar, aðallega frá Sýrlendingum í Líbanon, Jórdaníu og Tyrklandi.

Aðeins 30 lönd styðjast við einhvers konar úrræði um endurbúsetu flóttafólks og fjöldi þess flóttafólks sem hlýtur endurbúsetu árlega er langt undir skilgreindri þörf Sameinuðu þjóðanna.

Amnesty International kallar eftir nýrri leið til að veita viðkvæmum hópum flóttafólks endurbúsetu svo að nágrannaríki landa þaðan sem fólk flýr átök og ofsóknir verði ekki borin yfirliði.

„Þjóðarleiðtogar hafa algerlega brugðist þeirri skyldu sinni að koma sér saman um áætlun til að vernda 21 milljón flóttamanna í heiminum. Í ljósi þess að þjóðarleiðtogar hafa brugðist verður almenningur að koma til og auka þrýsting sinn á ríkisstjórnir heims, til að sýna manngæsku gagnvart fólki sem er ekkert öðruvísi en ég og þú, fyrir utan það að hafa neyðst til að flýja heimili sín.”