Flótta- og farandfólk flýr kynferðisofbeldi, misnotkun og misneytingu í Líbíu

Skelfilegar frásagnir af kynferðisofbeldi, morðum, pyndingum og trúarofsóknum sem Amnesty International hefur safnað saman afhjúpar þann sláandi fjölda ólíkra brota sem þrífast við smyglleiðirnar til og í gegnum Líbíu.

Samtökin ræddu við að minnsta kosti 90 einstaklinga úr hópi flótta-og farandfólks sem dvelja í móttökumiðstöðum í Puglia og Sikiley eftir að hafa komist yfir Miðjarðarhafið frá Líbíu til sunnanverðrar Ítalíu síðastliðna mánuði og sem hafa orðið fyrir misnotkun af hálfu smyglara, manseljenda, skipulagðra glæpagengja og vopnaðra hópa.

„Flótta- og farandfólk hefur lýst því í átakanlegum smáatriðum hvers konar hrylling það var neytt til að þola í Líbíu. Allt frá því að vera rænt, haldið neðanjarðar svo mánuðum skiptir og misnotað kynferðislega af meðlimum vopnaðra hópa, í að verða fyrir misneytingu, barsmíðum eða skotum frá smyglurum, glæpagengjum eða manseljendum.“ segir Magdalena Mughrabi, tímabundinn aðstoðarframkvæmdastjóri starfsemi Amnesty International í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku.

„Upplifanir þeirra draga upp óhugnalega mynd af þeim aðstæðum sem svo margir sem koma til Evrópu eru í örvæntingu sinni að reyna að flýja.“

Hundruðir þúsunda flótta- og farandfólks, aðallega frá Afríkuríkjum sunnan Sahara, ferðast til Líbíu á flótta frá stríði, ofsóknum og sárafátækt, oft í þeirri von að geta sest að í Evrópu. Alþjóðleg samtök um fólksflutninga (IOM) áætla að í dag séu fleiri en 264.000 flótta- og farandfólk í Líbíu. Samkvæmt Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) eru um 37.500 þeirra skráðir flóttamenn og hælisleitendur, þar af helmingurinn Sýrlendingar.

„Enginn á að þurfa að eiga á hættu að vera rænt, pyndaður eða nauðgað í Líbíu við það eitt að leita sér verndar. Alþjóðasamfélagið ætti að gera sitt besta til þess að tryggja að flóttamenn þurfi ekki að flýja yfir til Líbíu í fyrsta lagi. Evrópusambandið, eins og öll stjórnvöld í heiminum, ætti að stórauka úthlutun endurbúsetu og vegabréfsáritana af mannúðarástæðum til þeirra flóttamanna sem eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu og standa frammi fyrir miklum erfiðleikum og fáum tækifærum í þeim grannríkjum sem þau flúðu fyrst til.“ segir Magdalena Mughrabi.

Þrátt fyrir að mynduð hafi verið ríkisstjórn sem nýtur stuðnings Sameinuðu þjóðanna halda átök áfram á ákveðnum svæðum í Líbíu, þar á meðal í Benghazi, Derna og Sirte.

„Brýnt er að yfirvöld í Líbíu komi aftur á réttarríki og verndi réttindi flótta- og farandfólks. Núverandi ríkisstjórn, sem nýtur stuðnings alþjóðasamfélagsins, hefur skuldbundið sig til þess að virða og verja mannréttindi – henni ber skylda til að sjá til þess að þeir sem bera ábyrgð á þessum andstyggilegu glæpum séu látnir svara til saka.“

Í þeirri lögleysu og ofbeldi sem heldur áfram að hrjá landið hefur arðbærum viðskiptum í kringum smygl á fólki verið komið á fót á þeim leiðum sem liggja frá suðurhluta Líbíu og til Miðjarðarhafsstrandarinnar í norðri, þaðan sem bátarnir til Evrópu leggja úr vör. Að minnsta kosti 20 einstaklingar af þeim sem Amnesty International ræddi við lýstu misnotkun sem þeir höfðu orðið fyrir af hálfu líbískra strandgæslumanna og  í gæsluvarðhaldsmiðstöðum fyrir innflytjendur í Líbíu.

Amnesty International ræddi við flótta- og farandfólk sem lýsti því hvernig hver áfangi ferðarinnar fól í sér hættu á misnotkun, allt frá komunni til Líbíu og þar til norðurströndinni var náð. Aðrir höfðu búið í Líbíu svo árum skiptir en vildu flýja áreiti eða misnotkun sem þeir urðu fyrir af hálfu gengja, lögreglu eða vopnaðra hópa í landinu.

Amnesty International skráði misnotkun af hálfu smyglara, vopnaðra hópa og manseljenda í Líbíu í skýrslu sinni frá árinu 2015: Líbía er full af grimmd. Nýjustu vitnisburðirnir sýna að nú, ári síðar, verður flótta- og farandfólk enn fyrir skelfilegri misnotkun.

Hryllingur á leiðinni

Meirihluti þeirra sem Amnesty International ræddi við kváðust vera fórnarlömb mansals. Fólk var í haldi smyglara allt frá því það kom til Líbíu eða þá að það var selt áfram til glæpagengja. Þónokkrir lýstu því hvernig þeir urðu fyrir barsmíðum, nauðgunum, pyndingum eða misnotkun af hendi þeirra sem höfðu þá í haldi. Sumir urðu vitni að því þegar smyglarar skutu fólk til bana, aðrir sáu það skilið eftir til að bíða dauða síns vegna afleiðinga illrar meðferðar eða veikinda.

„Þegar þú [kemur til] Líbíu, það er þá sem erfiðleikarnir byrja. Það er þá sem þeir byrja að berja þig,“ segir Ahmed, 18 ára Sómali, sem lýsir torveldri ferð sinni í gegnum eyðimörkina frá Súdan til Líbíu í nóvember árið 2015. Hann segir að smyglararnir hafi haldið frá þeim vatni í refsingarskyni og jafnvel skotið á þá þegar þeir sárbændu um vatn fyrir hóp sýrlenskra manna sem ferðuðust með þeim og voru aðframkomnir af þorsta.

„Fyrsti Sýrlendingurinn dó, hann var ungur, kannski 21 árs. Eftir þetta gáfu þeir okkur vatn, en hinn sýrlenski maðurinn dó... hann var aðeins 19 ára,“ segir hann og bætir við að smyglararnir hafi lagt hald á eigur hinna látnu og ekki gefið hinum í hópnum tíma til þess að grafa þá.

Paolos, 24 ára gamall Erítreumaður sem ferðaðist í gegnum Súdan og Chad og kom til Líbíu í apríl 2016, skýrði frá því hvernig smyglararnir yfirgáfu mann með fötlun á leiðinni  í gegnum eyðimörkina, þegar þeir fóru yfir líbísku landamærin á leiðinni til suðlægu borgarinnar Sabha.

„Við sáum hvernig þeir köstuðu einum manni [af pallbíl] út í eyðimörkina. Hann var ennþá lifandi. Hann var fatlaður,“ segir hann.

Kynferðisofbeldi á smyglleiðum

Amnesty International ræddi við fimmtán konur sem sögðust flestar hafa lifað í stöðugum ótta um að verða fyrir kynferðisofbeldi á leiðinni að líbísku strandlengjunni. Margar sögðu að nauðganir væru svo algengar að þær tækju getnaðarvarnarpillur áður en þær héldu af stað til þess að koma í veg fyrir þunganir. Heilbrigðisstarfsmenn á móttökustöð fyrir flótta- og farandfólk, sem samtökin heimsóttu í Bari á Ítalíu, staðfestu að aðrar konur hafi greint frá því að hafa gengið í gegnum sömu lífsreynslu. Í heildina safnaði Amnesty International saman sextán frásögnum af kynferðisofbeldi, bæði frá þolendum og sjónarvottum.

Samkvæmt þeim vitnisburðum sem safnað var urðu konurnar fyrir kynferðisofbeldi af hendi smyglaranna sjálfra, manseljenda eða meðlimum vopnaðra hópa. Ofbeldið átti sér stað á smyglleiðunum og þegar konunum var haldið á heimilum eða í yfirgefnum vörugeymslum nálægt ströndinni á meðan þær biðu þess að geta farið um borð í bátana sem áttu að flytja þær til Evrópu.

22 ára erítresk kona sagði Amnesty International frá því að hún hefði orðið vitni að því þegar aðrar konur urðu fyrir kynferðislegri misnotkun. Þar á meðal var ein kona sem var hópnauðgað vegna þess að einn smyglaranna ásakaði hana ranglega um að hafa ekki borgað honum.

„Fjölskylda hennar gat ekki borgað aftur. Þeir tóku hana í burtu og henni var nauðgað af fimm líbískum mönnum. Þeir tóku hana seint um nótt, enginn setti sig upp á móti því, allir voru of hræddir.“ segir hún.

Ramya, sem er einnig 22 ára og frá Erítreu, segir að sér hafi verið nauðgað oftar en einu sinni af manseljendum sem héldu henni fanginni í búðum nálægt Ajdabya í norðausturhluta Líbíu, eftir að hún kom til landsins í mars árið 2015.

„Verðirnir drukku og reyktu hashish [kannabis] og svo komu þeir inn og völdu hvaða konur þeir vildu og tóku þær með sér út. Konurnar reyndu að neita en þegar byssu er beint að höfði þínu þá hefur þú í raun engra kosta völ ef þú vilt halda lífi. Mér var nauðgað tvisvar af þremur mönnum... ég vildi ekki týna lífinu.“ segir hún.

Antoinette, 28 ára gömul kona frá Kamerún, hafði þetta að segja um þá manseljendur sem höfðu hana í haldi í apríl árið 2016: „Þeim er sama hvort þú ert kona eða barn... þeir notuðu prik [til þess að berja okkur] og þeir skutu upp í loftið. Kannski nauðguðu þeir mér ekki vegna þess að ég átti barn en þeir nauðguðu óléttum konum og einhleypum konum. Ég sá það gerast.“

Mannrán, misneyting og kúgun

Margir greindu frá því að smyglarar hafi haldið þeim föngnum til þess að geta kúgað lausnargjald af fjölskyldum þeirra. Þeim var haldið í ömurlegum og oft niðurníddum aðstæðum þar sem mat og vatni var haldið frá þeim og þeir urðu fyrir stanslausum barsmíðum, áreiti og svívirðingum.

Semre, 22 ára Erítreumaður, segist hafa séð fjórar manneskjur, þar á meðal 14 ára dreng og 22 ára gamla konu, deyja af völdum sjúkdóma og sultar á meðan honum var haldið fyrir lausnargjald.

„Enginn fór með þau á spítala svo við þurftum að grafa þau sjálf,“ segir hann. Faðir hans náði að lokum að borga gíslatökumönnunum í skiptum fyrir frelsi Semre en í staðinn fyrir að sleppa honum úr haldi seldu þeir hann áfram til annars glæpahóps.

Aðrir greina frá því hvernig þeir urðu fyrir endurteknum barsmíðum af hendi þeirra sem höfðu þá í haldi og að þeir sem ekki gátu borgað hafi verið neyddir til að vinna launalaust til þess að borga upp skuldina.

Abdulla, 23 ára Erítreumaður, segir að þeir sem stóðu að mansalinu hafi pyndað og barið fólk til þess að neyða það til þess að borga, sérstaklega á meðan þeir neyddu það til þess að tala við fjölskyldur sínar - til þess að þrýsta á þær til að borga.

Saleh, 20 ára Erítreumaður, kom til Líbíu í október árið 2015 og var undir eins færður í flugskýli í Bani Walid sem var undir stjórn manseljenda. Á þeim tíu dögum sem hann var í haldi þar varð hann vitni að því þegar maður sem ekki gat borgað dó eftir að hann hafði verið látinn þola raflost í vatni. „Þeir sögðu að ef einhverjir fleiri gætu ekki borgað, hlytu þeir sömu örlög,“ segir hann.

Saleh slapp en endaði í lokin í öðrum búðum sem voru einnig undir stjórn manseljenda í Sabratah nálægt sjónum.

Hann segir: „Við vissum ekki hvað var að gerast... þeir sögðust ætla að halda okkur þarna þar til fjölskyldur okkar gætu greitt... fólkið sem stjórnaði neyddi okkur til þess að vinna endurgjaldslaust, í húsum, við að þrífa, hvaða starf sem er. Þeir gáfu okkur ekki almennilegan mat. Jafnvel vatnið sem þeir gáfu okkur var salt. Það voru engin almennileg baðherbergi. Margir okkar þróuðu með sér húðvandamál. Mennirnir reyktu hashish og börðu okkur svo með byssunum sínum eða hverju því sem þeir fundu. Þeir notuðu málmbúta, steina. Þeir voru hjartalausir.“

Kynferðisleg misnotkun og trúarofsóknir af hendi vopnaðra hópa

Mikil aukning hefur verið á uppgangi valdamikilla vopnaðra hópa á síðustu árum, þar á meðal eru nokkrir sem heitið hafa hollustu við vopnaða hópinn sem kallar sig íslamska ríkið (IS) sem miðar að því að koma á sinni eigin túlkun á íslömskum lögum. Það hefur sett erlenda ríkisborgara – sérstaklega kristna – í aukna hættu á því að verða fyrir misnotkun og mögulegum stríðsglæpum. Amnesty International ræddi við fólk sem sagðist hafa verið numið á brott og haldið  af IS svo mánuðum skipti.

Amal, 21 árs erítresk kona, lýsti því hvernig sjötíu og eins manns hópi sem hún ferðaðist með var rænt af vopnuðum hópi, sem þau töldu vera IS, nærri Benghazi þegar þau voru á leiðinni til Trípolí í júlí árið 2015.

„Þeir spurðu smyglarann að því af hverju hann væri að hjálpa kristnum. Hann þóttist ekki hafa vitað að við værum kristin svo að þeir slepptu honum. Þeir aðskildu fyrst kristna frá múslimum og svo menn frá konum. Þeir tóku [hina kristnu] til Trípolí og héldu okkur neðanjarðar – við sáum ekki til sólar í 9 mánuði. Við vorum 11 konur frá Erítreu,“ segir hún.

„Stundum borðuðum við ekki í þrjá daga. Í önnur skipti létu þeir okkur fá eina máltíð á dag, hálfa brauðsneið.“

Hún lýsir því einnig hvernig þrýst var á þær að snúast til íslam og hvernig þær voru barðar með slöngum og prikum þegar þær neituðu.

„Stundum hræddu þeir okkur með byssunum sínum eða hótuðu því að slátra okkur með hnífunum sínum“ segir hún.

Að lokum þegar konurnar létu undan og samþykktu að skipta um trú segir hún að þær hafi sætt kynferðisofbeldi. Mennirnir litu sem svo á að þær væru „eiginkonur“ sínar og fóru með þær eins og kynlífsþræla. Hún segir að sér hafi verið nauðgað af mismunandi mönnum allt þar til hún var falin einum manni sem svo einnig nauðgaði henni.

Í öðru tilfelli var Adam, 28 ára maður frá Erítreu sem bjó í Benghazi ásamt eiginkonu sinni, numinn á brott árið 2015  af IS fyrir það eitt að vera kristinn.

„Þeir héldu mér í fangelsi í einn og hálfan mánuð. Svo fann einn þeirra til með mér eftir að ég sagði honum að ég ætti fjölskyldu og hjálpaði mér að leggja Kóraninn á minnið svo að þeir myndu sleppa mér... þeir myrtu fjölda manns“ segir hann. Honum tókst að lokum að flýja eftir sjö mánuði í haldi.

IS hefur lýst sig ábyrgt fyrir því að hafa tekið fjörutíu og níu Kopta af lífi án dóms og laga í þremur aðskildum tilfellum í febrúar og mars árið 2015.

„Lögleysan og útbreiðsla andstæðra vopnaðra hópa eykur þær hættur sem flótta- og farandfólki í Líbíu þarf að takast á við. Núverandi ríkisstjórn landsins verður að stöðva þá misnotkun sem að þeirra eigin herafli og tengd herlið standa á bak við. Þá verður hún að tryggja að enginn, þar á meðal meðlimir vopnaðra hópa, geti haldið áfram alvarlegum misþyrmingum, þar á meðal mögulegum stríðsglæpum, án þess að þurfa að svara til saka.“ segir Magdalena Mughrabi.

„Alþjóðasamfélagið verður líka að styðja við Alþjóða sakamáladómstólinn (ICC), sem hefur enn lögsögu yfir Líbíu, til þess að hann geti rannsakað stríðsglæpi og glæpi gagnvart mannkyninu. Allir sem að átökunum koma ættu að sýna samvinnu við rannsókn ICC.“

Fyrir utan hina stöðugu ógn sem stafar af vopnuðum hópum, standa erlendir ríkisborgarar einnig frammi fyrir útbreiddum rasisma og útlendingahatri þar sem opinber viðhorf eru enn fjandsamleg. Margt flótta- og farandfólk sem talað var við greindi frá því að hafa orðið fyrir líkamsárásum, hótunum með hnífum og byssum eða sætt vopnuðu ráni eða barsmíðum á götum úti af hendi glæpagengja.

Björgun lífa á hafi úti

Þann 28. júní studdi leiðtogaráð Evrópusambandsríkjanna ákvörðun um að framlengja Operation Sophia, flotaaðgerð í miðju Miðjarðarhafinu, um ár í viðbót og viðhalda meginhlutverki hennar sem felst í því að takast á við smyglara. Að auki myndi aðgerðin fela í sér að þjálfa upp og deila upplýsingum með líbísku strandgæslunni og fylgjast með því að vopnasölubanninu sem Líbía er undir sé framfylgt.

„Evrópusambandið ætti að leggja minni áherslu á að halda flótta- og farandfólki í burtu og meiri á að finna öruggar og löglegar leiðir fyrir þá sem fastir eru í Líbíu svo þeir geti komist á öruggan stað. Að bjarga lífum ætti að vera í forgangi, það þýðir að dreifa nægum aðföngum á rétta staði til að koma í veg fyrir frekari harmleik“ segir Magdalena Mughrabi.

„Evrópusambandið þarf að beita sér gegn misnotkun smyglara í stað þess að loka fólk inni í landi þar sem að líf þeirra og réttindi eru í jafn augljósri hættu.“

Bakgrunnur

Samkvæmt alþjóðlegu samtökunum um fólksflutninga (IOM) eru erlendir ríkisborgarar sem hafa aðsetur í Líbíu flestir frá Níger, Egyptalandi, Chad, Gana og Súdan. Meirihluti þeirra sem hafa viðkomu í landinu og ferðast svo yfir til Ítalíu á bátum eru frá Erítreu, Nígeríu, Gambíu, Sómalíu og Fílabeinsströndinni. Aðalviðkomustaður fólks sem kemur til Líbíu frá Vestur-Afríku er hin suðvestlæga borg Sabha. Þeir sem koma í gegnum Súdan eða Sómalíu, Erítreu eða Eþíópíu fara í gegnum Kufra og ferðast svo til Ajdabiya í norðausturhluta landsins. Flestir bátar sem stefna til Evrópu fara frá norðvesturhluta Líbíu. Fyrir brottför er erlendum ríkisborgurum haldið í húsum eða bóndabæjum þar til að fleirum hefur verið safnað í ferðina.

Sum brot gegn flótta- og farandfólki sem Amnesty International hefur skráð jafngilda mansali. Mansal er mannréttindabrot auk þess sem það er glæpsamlegt athæfi í refsiréttarkerfum flestra ríkja. Mansal felur meðal annars í sér það að standa að flutningi á fólki með hótunum, valdbeitingu, eða þvingunum eins og mannráni, svikum eða blekkingum. Það er skylda samkvæmt alþjóðlegum mannréttindalögum að koma í veg fyrir og lögsækja gerendur til að ná fram réttlæti yfir gerendum. Til samanburðar felur smygl ekki í sér þvinganir; það er háð samþykki. Smygl getur falið í sér refsiverð brot en er ekki mannréttindabrot eitt og sér.