Smánarblettur á samvisku okkar allra

Mannkynssagan mun bera vitni um að ömurleg meðhöndlun Evrópulanda á flóttamannavandanum verður smánarblettur á samvisku okkar allra. Ríkisstjórnir Evrópu bregðast flóttafólki og Evrópusambandið gengur í berhögg við þær grundvallarreglur sem það var reist á. Reglur um: frelsi, jafnrétti, mannréttindi og réttarríkið. Í stað þess að nýta þau verkfæri sem Evrópa býr yfir til að deila ábyrgðinni á flóttamannastraumnum leita Evrópulönd allra leiða til að gera samninga sem gera flóttamenn innlyksa í öðrum löndum.

Ríkisstjórnir og stofnanir Evrópu kappkosta að færa ábyrgðina á þeim gríðarlega fjölda flóttafólks sem nú er í heiminum yfir á þriðja land með tilkomu sérstakra samninga um fólksflutninga. Samningur Evrópusambandsins við Tyrkland, sem er meingallaður, virðist vera forskriftin að öðrum sambærilegum samningum sem Evrópuþjóðir eru í óðaönn að raungera eða eru þegar orðnir að veruleika.

Samkvæmt samningnum við Tyrkland skal öllum hælisleitendum, sem koma til grísku eyjanna í gegnum Tyrkland, snúið aftur til Tyrklands út frá þeirri fráleitu ályktun að mannréttindi flóttafólks verði virt þar í landi. Evrópa samþykkti aftur á móti, fræðilega séð, að taka á móti einum sýrlenskum hælisleitenda frá Tyrklandi fyrir hvern Sýrlending sem er sendur til baka.

Lagalegar áskoranir standa í augnablikinu í vegi fyrir því að unnt sé að senda hælisleitendur aftur til Tyrklands. Enginn veit þó með vissu hversu lengi það mun vara. Á meðan halda hundruðir flóttamanna og hælisleitenda áfram að streyma til Grikklands enda þótt þeim hafi fækkað eftir að samningurinn gekk í gildi. Flóttafólkið býr við hrikalegar aðstæður í skammarlegum þrengslum og vonin þverr með degi hverjum. Ekki hefur ástandið batnað í kjölfar mikilla snjóþyngsla víða um Evrópu nýverið m.a. á grísku eyjunni Lesbos þar sem rúmlega 4000 flóttamenn hýrast í tjöldum í Moria-flóttamannabúðunum. Fjöldinn allur hefur ofkælst þar sem margir eiga ekki vetrarföt. Amnesty International berst nú fyrir því að flóttafólkið verði flutt frá grísku eyjunum yfir á meginlandið. „Flóttafólk á grísku eyjunum þarf að þola jökulkulda, skort á heitu vatni, þrengsli, ofbeldi og hatursglæpi,“ segir Iverna McGowan, framkvæmdastjóri Evrópudeildar Amnesty International. „Við höfum lengi kallað eftir því að móttökuskilyrði hælisleitenda og flóttafólks verði bætt til muna. Það er hins vegar ómannúðlegt að þvinga flóttamenn til að halda fyrir á grísku eyjunum eingöngu til að geta sent þá aftur til Tyrklands í samræmi við túlkun Tyrkja á samningum.“

Reynslan af samningi Evrópusambandsins við Tyrkland hefði átt að þjóna sem þörf áminning gegn sambærilegum samningum við önnur í ríki en sú virðist ekki vera raunin. Utanríkisstefna Evrópusambandsins virðist nú sniðin að því að nýta áhrifamátt (leverage) Evrópuríkja með tilstilli fjárframlaga og diplómatískra klækjabragða til að fá önnur ríki til að laga stefnu sína að markmiðum Evrópusambandsins er lúta að hertum reglum um móttöku flóttamanna og hælisleitenda.

Evrópusambandið hefur þegar gert samkomulag, sambærilegt Tyrklands-samkomulaginu, við nokkur Afríkuríki. Um er að ræða samninga við Súdan, Eþíópíu, Senegal og Malí. Evrópusambandið horfir einnig til Nígeríu og Níger en samningaviðræður við síðarnefnda ríkið eru langt á veg komnar. Margt flóttafólk sem leggur leið sína sjóleiðis um Miðjarðarhafið hefur viðkomu í Níger. Þá hefur Evrópusambandið gert samkomulag við Líbanon, Jórdaníu og Afganistan um endursendingar á flóttafólki. Svokallað Kartúm-ferli byggir á samkomulagi Evrópusambandins við Súdan um að halda flóttafólki frá Evrópu. Í júní 2016 hýsti Súdan 365.460 flóttamenn, aðallega frá Erítreu og Suður-Súdan. Súdan hefur fullgilt bæði alþjóðlegan samning Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu flóttamanna og viðaukann við þann samning. Súdönsk lög verja almenn grundvallarréttindi flóttafólks en lög um hælisleitendur frá árinu 2014 takmarka hins vegar ferðafrelsi flóttafólks og hælisleitenda. Takmörkunum þessum er misjafnlega beitt gegn fólki eftir uppruna. Upphaflega höfðu flóttamenn frá Suður-Súdan ferðafrelsi og aðgang að grunnþjónustu en þeim samningi var rift í mars 2016. Flóttamenn frá Erítreu neyðast til að búa í flóttamannabúðum og flestir flóttamenn frá Tjad búa í þorpum við landamæri Tjad. Flóttamenn sem fara á svig við þessar takmarkanir eiga í hættu á að sæta fangavist eða að vera vísað aftur heim, þar sem líf þeirra kann að vera í hættu. Fjöldi íbúa Súdan hefur einnig flosnað upp frá heimilum sínum en samkvæmt Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna nam tala uppflosnaðra einstaklinga í Súdan rúmlega þremur milljónum í júní 2016. Margir þessara einstaklinga flýja frá Kartúm til landamæra Líbíu í norðvestri eða í gegnum Egyptaland til Líbíu.

Súdan er land þar sem bæði fólk á flótta leitar hælis, fólk fer í gegnum til að leita hælis annars staðar og er upprunaland fólks á flótta. Evrópusambandið hefur því mikinn hag af því að semja við stjórnvöld í Súdan um að hafa hemil á fólksflutningum til álfunnar. Árið 2016 tilkynnti Evrópusambandið að þau myndu veita Súdan 155 milljónir Evra til að takast á við meginorsakir fólksflutninga og fólks á flótta. Samstarf Evrópusambandins við Súdan um fólksflutninga hlýtur að valda ugg um stöðu mannréttinda. Sú stefna að stöðva för fólks, sem talið er vera óskráð farandfólk, til Líbíu útheimtir aðild öryggissveita eða landamæravarða. Súdönsk stjórnvöld hafa falið herveitinni, Rapid Support Forces (RSF) verkefnið að stórum hluta en sveitir RSF falla undir Þjóðaröryggisstofnun landsins. Undir hvaða fyrirskipan hersveitin starfar er ekki vitað en landamæravarsla hersveitarinnar nær til landamæra Súdan að Egyptalandi, Líbíu og Tjad. Þá hefur landamærunum að Suður-Súdan verið lokað.

Hersveitir Rapid Support Forces voru stofnaðar árið 2013 til að berjast við hlið stjórnarhersins til að bæla niður uppreisn í Kordofan. Flestir liðsmenn RSF eru frá Darfúr en herforingi hersveitarinnar heitir Brigadier Muhammad Hamdan Dalgo, betur þekktur sem Hemeti. Hann er fyrrum foringi Landamæravarðanna (Border Guards), deildar innan stjórnarhersins sem var áberandi í hernaðaraðgerðum í Darfúr, aðgerðum sem einkenndust af stórfelldum mannréttindabrotum. Landamæraverðirnir gengdu m.a. því hlutverki að sameina vopnaða hópa hliðholla stjórnvöldum en þessir hópar, ásamt stjórnarhernum frömdu alvarleg mannréttindabrot og brot gegn alþjóðlegum mannúðarlögum sem m.a. fólu í sér kerfisbundin morð utan dóms og laga, þvinguð mannshvörf og kynferðisglæpi í Darfúr frá og með árinu 2003. Hópur sérfræðinga á vegum Sameinuðu þjóðanna greinir enn frá alvarlegum mannréttindabrotum Landamæravarðana í Darfúr. Árið 2009 gaf Alþjóðlegi sakamáladómsstólinn út handtökuskipan á hendur forsetanum Omar Hassan al-Bashir vegna glæpa gegn mannkyni, þjóðarmorðs og stríðsglæpa í tengslum við aðgerðir Landamæravarðanna í Darfúr. Sú staðreynd að RSF er undir stjórn einstaklings sem var foringi hersveita sem áttu þátt í að fremja alvarleg og kerfisbundin mannréttindabrot og brot gegn alþjóðlegum mannúðarlögum, er eitt og sér alvarlegt áhyggjuefni. Enginn hefur enn verið látinn sæta ábyrgð á þeim mannréttindabrotum sem framin voru í Darfúr.

Allt frá stofnun RSF hefur hersveitin verið bendluð við alvarleg mannréttindabrot í Darfúr, Kordofan og Kartúm. Liðsmenn RSF hafa gert árásir á fjölda þorpa, brennt og farið ránshendi um heimili, pyndað, nauðgað og drepið borgarana.

Allt frá því að hersveitir RSF fengu það hlutverk að sjá um landamæravörslu hafa hundruðir einstaklinga verið handsamaðir. Í júlí 2016 greindi herforinginn Brigadier Muhammad Haman frá því að hersveitir hans hefðu handtekið 300 manns nálægt landamærum Líbíu, einstaklinga sem þeir teldu vera ólöglegt farandsfólk. Síðar í sama mánuði handtóku hersveitirnar 600 manns til viðbótar. Ekki er vitað um afdrif þessa fólks né heldur hvers konar meðferð það hlýtur í höndum hersveitar RSF.

Hið svokallaða Kartúm-samkomulag felur í sér að Evrópusambandið útvegar súdönskum stjórnvöldum bæði fjárhagslegan og tæknilegan stuðning í þeim tilgangi að hafa stjórn á flóttamannastraumi til álfunnar.

Enda þótt Evrópusambandið hafi fullyrt að fjárhagsstuðningur sambandsins renni ekki til RSF er ekkert gagnsætt eftirlitskerfi til staðar til að rekja hvar peningurinn endar í Súdan. Fram kemur í Kartúm-samkomulaginu að Evrópusambandið veiti stuðning „til þjálfunar á landamæravörslu bæði til lögreglu og annarra aðila“. RSF hefur umsjón með landamæravörslunni í Súdan, hersveit sem á sögu um alvarleg mannréttindabrot en hefur enga ábyrgð þurft að sæta vegna. Annað hvort fá liðsmenn RSF þjálfun í landamæravörslu sem skattgreiðendur Evrópusambandsins greiða fyrir eða að RSF er ekki hluti af þjálfunaráætluninni sem þýðir að Evrópusambandið hefur engar leiðir til að tryggja að landamæraeftirlitið fylgi sanngjörnum viðmiðum. Evrópusambandið getur ekki litið framhjá hættunni á mannréttindabrotum vegna landamæravörslu RSF í Súdan enda þótt tryggt væri að fjármögnun starfsseminnar rynni ekki beint til RSF.

Allt fram til dagsins í dag hefur Evrópusambandið ekki gefið neina haldbæra skýringu á því hvernig bandalag sitt við hersveit, sem er bendluð við gróf mannréttindabrot í Súdan, geti samsvarað þeim skyldum sambandsins sem það er bundið samkvæmt Evrópusamningum.