• Flóttamenn í Grikklandi

Staðreyndir og tölfræði

Árið 2013 fór fjöldi þeirra einstaklinga, sem neyðst hafa til þess að yfirgefa heimili sín vegna átaka og hættuástands, yfir 50 milljónir í fyrsta skipti frá því í seinni heimstyrjöldinni. Af þessum fjölda hefur Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) skilgreint um 20 milljónir sem flóttamenn.

Fjölgun flóttafólks stafar af fjölda yfirstandandi vopnaðra átaka og pólitískum óstöðugleika á nokkrum svæðum í heiminum.  Átökin í Sýrlandi hafa orðið til þess að 4 milljónir flóttafólks hafast nú við í einungis 5 löndum (Tyrklandi, Líbanon, Jórdaníu, Írak og Egyptalandi). Hættuástandið í Búrúndí hefur neytt meira en 214.000 manns yfir í grannríkin Rúanda, Tansaníu, Kongó (Kinshasa), Úganda og Sambíu. UNHCR telur að búast megi við að um 169.000 manns til viðbótar muni yfirgefa Búrúndí til að leita sér hælis árið 2016.

Þrátt fyrir að aukninguna á fjölda flóttamanna megi að stórum hluta rekja til átakanna í Sýrlandi er flóttamannavandinn alþjóðlegt fyrirbrigði og stórir hópar flóttafólks fyrirfinnast í flestum hlutum heimsins. Átökin í Sýrlandi voru driffjöðurin að baki þess að alþjóðasamfélagið fór að veita stöðunni athygli og hafa gefið mannréttinda- og flóttamannasamtökum tækifæri til þess að beina athygli að og leita lausna til handa öðrum langvarandi hópum flóttafólks. Þeir hópar telja meðal annars: meira en 5 milljónir palestínskra flóttamanna í Mið-Austurlöndum; meira en 2,5 milljónir afganskra flóttamanna, en meirihluti þeirra dvelur í Pakistan og Íran; og meira en 1 milljón sómalískra flóttamanna, þar á meðal 413.000 í grannríkinu Kenía. Margir þeirra hafa verið landflótta í yfir áratug, ef ekki áratugi.

Box I: Staðreyndir og tölur um alþjóðlega flóttamannavandann

86% af þeim 19,5 milljónum flóttafólks sem eru í heiminum hafast við á svæðum sem tilheyra þróunarríkjum.

Tyrkland, Pakistan og Líbanon hýsa meira en 1 milljón flóttafólks hver. Íran hýsir rétt tæpa milljón (982.000) flóttafólks.

Eþíópía (659.500) og Kenía (598.600) eru þau lönd sem tekið hafa við flestu flóttafólki innan Afríku.

Um það bil 1 milljón flóttafólks og hælisleitenda komu til Evrópu árið 2015. Meira en 80% þeirra komu frá þeim löndum sem flest fólk er á flótta frá, eins og  Sýrlandi, Afganistan, Erítreu og Írak.

Meira en milljón flóttafólks þurfa nauðsynlega á endurbúsetu að halda en þrátt fyrir það hafa aðeins verið gefin vilyrði fyrir því að veita um 100.000 manns endurbúsetu á heimsvísu á ári. Þá hafa einungis 30 lönd boðið fram einhverskonar endurbúsetu og aðeins örfá lönd standa að endurbúsetu flóttafólks svo um munar.

Þau lönd sem standa aðallega að endurbúsetu og sá fjöldi sem hvert þeirra veitir: Bandaríkin 52.583; Kanada; 10.236; Ástralía 5.211; Noregur 2.220; Þýskaland 2.097; Svíþjóð 1.808 og Bretland 1.768 (heimild: UNHCR).

Af hverju er flóttamannavandi – Af hverju núna?

Flóttamannavandinn er forystuvandi. Þær tilfærslur sem flóttafólk og hælisleitendur hafa gengið í gegnum síðustu ár eru miklar en ekki er ómögulegt að hafa umsjón með þeim ef til þess liggur pólitískur vilji.

Auðug ríki og alþjóðasamfélagið í heild hafa brugðist þegar kemur að því að deila sanngjarnri ábyrgð á því að hafa umsjón með tilfærslu og þörfum flóttafólks á heimsvísu. Eins og er fellur ábyrgðin hlutfallslega meira á þróunarríki, oft eingöngu vegna þess að þau liggja í grennd við það land sem þjáist af átökum. Það sem meira er, auðugri lönd eru ekki að gera nándar nærri nóg þegar kemur að því að deila þeirri fjárhagslegu byrði sem hlýst af hinum hnattræna flóttamannavanda. Áköll um mannúðaraðstoð eru statt og stöðugt – og oft verulega – undirfjármögnuð.

Vandinn mun ekki hverfa fyrr en leiðtogar heims ákveða að takast beint á við hann með því að viðurkenna þá ábyrgð sem þeir bera og mikilvægi þess að vinna saman og deila ábyrgðinni á  marktækan hátt. Alþjóðasamfélagið verður að gera miklu meira en það hefur gert hingað til. Það sem til þarf eru róttækar breytingar á núverandi flóttamannastefnu og framkvæmd á heimsvísu.

Hvað er Amnesty International að leggja til?

Hnattræni flóttamannavandinn kallar á hnattræn viðbrögð: Nýja, hnattræna nálgun sem myndi tryggja að þegar stór hópur fólks verður landflótta sé til staðar stýrð og framvirk viðbragðsáætlun sem búið er að tryggja fjármögnun fyrir.

Í fyrsta lagi þarfnast slík nálgun aðkomu allra ríkja, þar sem öll ríki deila þeirri alþjóðlegu ábyrgð sem felst í því að taka á móti og aðstoða flóttafólk og byggir á grundvelli alþjóðalaga (sjá box III). Í öðru lagi þarf slík áætlun að vera markviss og hugsuð til lengri tíma. Stjórnvöld verða að taka upp varanlegt fyrirkomulag sem segir til um hvernig skal deila ábyrgð sem byggt er á skýrum og gagnsæjum viðmiðunum. Amnesty International telur að nýtt hnattrænt fyrirkomulag sameiginlegrar ábyrgðar ætti að innihalda eftirtalin fimm atriði:

1.    Nýtt fyrirkomulag um að veita öllu því flóttafólki endurbúsetu sem mætir þeim viðmiðunum sem UNHCR setur um hópa sem teljast vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu, þar sem að öll lönd þyrftu að taka við hluta þess flóttafólks sem telst vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu á heimsvísu og hlutfallið færi þá eftir hlutlægu mati á getu hvers og eins lands til þess að taka á móti flóttafólki.

2.    Nýtt hnattrænt fyrirkomulag um flutning flóttafólks frá löndum þar sem að fjöldi þeirra hefur náð ákveðnum mörkum, sem gæfi til kynna að hámarksgetu móttöku flóttafólks sé náð, sem  væru skilgreind út frá hlutlausum viðmiðunum sem segðu til um hver geta lands til að taka við flóttafólki væri. Þetta fyrirkomulag væri til viðbótar við og frábrugðið því sem gildir um endurbúsetu hópa flóttafólks sem eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu.

3.    Tryggja fulla, sveigjanlega og áreiðanlega fjármögnun til verndar flóttafólks og verulegan fjárhagslegan stuðning við þau lönd sem hýsa mikinn fjölda flóttafólks.

4.    Öflugra fyrirkomulag til þess að skera úr um stöðu fólks á flótta og fjölga þeim tilfellum þar staða flóttamanns er veitt fyrirfram (e. prima facie), sérstaklega þegar um hópa flóttafólks ræðir.

5.    Stefnur og framkvæmdir sem tryggja árangursríka vernd flóttafólks og hælisleitenda sem sér líka til þess að þeir geti mætt grundvallarþörfum sínum á hátt sem samræmist bæði mannréttindum og mannlegri reisn þeirra.

Nýja fyrirkomulagið ætti að vera áreiðanlegt og sanngjarnt. Það ætti að vera vel skilgreint og innleitt á skilvirkan hátt með eftirliti, meðal annars með stuðningi og umsjón innan verklagsreglna stofnanna.

Box III: Er grundvöllur fyrir sameiginlegri ábyrgð í alþjóðalögum?

Já. Alþjóðlega flóttamannakerfið byggir á samvinnu milli ríkja. Meginregla sameiginlegrar ábyrgðar, þ.e.a.s að áhrifarík vernd flóttafólks krefjist alþjóðlegrar samvinnu, er byggð á alþjóðlegum skyldum um að flóttafólk skuli njóta verndar og leitað sé að öruggum og varanlegum lausnum fyrir það.

Í fyrstu endurspeglaðist þessi meginregla í formála Flóttamannasáttmálans frá árinu 1951 og var síðan felld inn í yfirlýsingu allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna um svæðisbundið athvarf árið 1967 og í samningnum um sérstök málefni er varða flóttamenn í Afríku sem samþykktur var af Einingarsamtökum Afríkuríkja (OAU) árið 1969 og hefur verið fullgiltur af 45 ríkjum eins og staðan er í dag. Innihald meginreglunnar var síðan þróað áfram í ályktun ExCom Nr. 100 (LV) frá árinu 2004 (Framkvæmdanefnd UNHCR, ályktun um alþjóðlega samvinnu og sameiginlega ábyrgð í aðstæðum þar sem mikil aukning aðstreymis flóttafólks verður, No. 100 (LV)  - 8. október 2004).