Afríka

Afríka sunnan Sahara er ekki undan­skilin brotum á tján­ingar- og funda­frelsi frekar en önnur land­svæði í heim­inum. Átök og harð­stjórn hafa ríkt víða á svæðinu en þrátt fyrir það hefur almenn­ingur sum staðar risið upp og krafist þess að mann­rétt­indi séu varin og virt.

Síðast­liðin ár hafa mótmæl­endur í Afríku sunnan Sahara barist fyrir rétt­indum sínum gegn átökum og kúgun þrátt fyrir hættu á skotárásum eða barsmíðum. Herjað hefur verið á frið­sama mótmæl­endur, mann­rétt­inda­frömuði, fjöl­miðla­fólk og póli­tíska andstæð­inga og gengið á rétt almenn­ings til frið­samra mótmæla m.a. með ólög­mætu banni, óhóf­legri vald­beit­ingu, árásum og geðþótta­hand­tökum í 20 löndum á svæðinu árið 2019.

Víða á svæðinu takmörkuðu stjórn­völd veru­lega tján­ing­ar­frelsið m.a. með því að herða eftirlit með fjöl­miðla­fólki, blogg­urum og stjórn­ar­and­stæð­ingum, sérstak­lega í aðdrag­anda kosn­inga. Óhóf­legri vald­beit­ingu og annars konar ofbeldi var víða beitt af yfir­völdum til að sundra frið­sömum mótmæl­endum sem leiddi til þess að margir létu lífið eða særðust.

Fjallað verður um Afríku í heild sinni en nánari umfjöllun um fjögur lönd í Afríku má finna hér: Nígeríu, Sómalíu, Súdan og Tans­aníu.

Umbætur í kjöflar mótmæla

Sums staðar leiddu mótmælin af sér mikil­vægar samfé­lags­legar úrbætur en með miklu tilkostnaði.

Í Súdan í apríl 2019 tókst þúsundum frið­samra mótmæl­enda að binda enda á áratuga kúgun forseta landsins Omar al-Bashir og í kjöl­farið hafa ný yfir­völd lofað umbótum í þágu mann­rétt­inda. Konur hafa þegar fundið fyrir auknu frelsi. Fólk þurfti hins vegar að gjalda þessar umbætur dýru verði. Að minnsta kosti 177 einstak­lingar voru myrtir og hundruð særðust þegar örygg­is­sveitir beittu skor­færum, tára­gasi, barsmíðum og geðþótta­hand­tökum til að brjóta upp fjölda­mót­mæli í höfuð­borg­inni Kahartoum og víða annars staðar í Súdan.

Nokkrar umbætur áttu sér einnig stað í Eþíópíu árið 2019 þar sem stjórn­völd felldu úr gildi löggjöf sem takmarkaði funda- og félaga­frelsi í landinu og lögðu fram ný lög fyrir þingið í stað harð­neskju­legra laga gegn hryðju­verkum. Engu að síður hélt fjöl­miðla­fólk áfram að sæta geðþótta­hand­tökum, ólög­legu varð­haldi og ósann­gjörnum rétt­ar­höldum.

Mótmæli brotin á bak aftur

Víða á svæðinu beittu stjórn­völd mikilli hörku árið 2019 í tilraun sinni til að þagga niður í mótmæl­endum.

  • Örygg­is­sveitir í Simbabve gripu til ofbeld­is­fullra aðgerða gegn mótmæl­endum sem mótmæltu olíu­verð­hækk­unum í janúar 2019 sem leiddi til þess að 15 einstak­lingar létu lífið og tugir særðust.
  • Í Gíneu beittu örygg­is­sveitir ofbeldi gegn mótmæl­endum með því að grípa til óhóf­legrar vald­beit­ingar á árinu 2019 líkt og áður. Að minnsta kosti 17 einstak­lingar létu lífið í mótmælum gegn breyt­ingum á stjórn­ar­skrá landsins sem hefðu veitt forseta landsins, Alpha Condé, umboð til að sitja á valda­stóli þriðja kjör­tíma­bilið í röð. Þá bönnuðu stjórn­völd rúmlega 20 mótmæli á grund­velli óljósra og víðtækra laga.
  • Í Angóla brutu örygg­is­sveitir mótmæli á bak aftur á ofbeld­is­fullan hátt í lok árs 2019 þar sem fólk krafðist sjálf­stæðis Cabinda-héraðs en fjöldi fólks var hand­tekinn á mótmæl­unum.
  • Í Tjad voru 13 mótmæl­endur hand­teknir og barðir í apríl 2019 við friðsöm mótmæli, þar sem skorti á bútangasi var mótmælt

  • Í Lýðstjórn­ar­lýð­veldinu Kongó beitti lögreglan óhóf­legu valdi til að tvístra að minnsta kosti 35 frið­sömum mótmælum, særði rúmlega 90 manns og handtók að geðþótta tugi einstak­linga.
  • Í Suður-Súdan var mótmæl­endum í Juba meinað að taka þátt í frið­sömum mótmælum eftir að stjórn­völd dreifðu hermönnum um svæðið, fóru fram með húsleit og hótuðu mótmæl­endum.
  • Í Malaví fóru fram mótmæli vegna kosn­inga­svika í kjölfar kosn­inga í maí 2019. Aðgerða­sinn­arnir sem skipu­lögðu og leiddu mótmælin urðu fyrir árásum og ógnunum frá ungl­iðum stjórn­ar­flokksins og voru sóttir til saka af yfir­völdum. Kosn­ing­arnar voru síðar gerðar ógildar af dómstólum og fóru aðrar kosn­ingar fram í júní 2020.

Annars staðar á svæðinu beittu ríkis­stjórnir ýmsum aðferðum innan stjórn­sýsl­unnar til að banna og setja á ólög­mætar takmark­anir á friðsöm mótmæli.

Í Nígeríu bönnuðu lögreglu­yf­ir­völd friðsöm mótmæli í nokkrum ríkjum og takmarkaði aðgengi að vinsælum svæðum fyrir kröfu­göngur í höfuð­borg­inni Abuja.

Árásir gegn mannréttindafrömuðum og stjórnarandstæðingum

Víðtæk kúgun gegn hvers kyns andófi sýndi sig einnig í árásum á mann­rétt­inda­frömuði, aðgerða­sinna og borg­araleg samtök á árinu 2019.

Í Miðbaugs-Gíneu þrífast árásir, ógnanir og geðþótta­hand­tökur gegn mann­rétt­inda­fröm­uðum og aðgerða­sinnum. Alfredo Okenve, vara­for­seti einna sára­fárra frjálsra félaga­sam­taka í landinu, var hand­tekinn og starfs­leyfi samtak­anna aftur­kallað í kjölfar réttar­úrskurðar.

Í Simbabve voru að minnsta kosti 22 mann­rétt­inda­fröm­uðir, aðgerða­sinnar, leið­togar borg­ara­legra samtaka og stjórn­ar­and­stæð­ingar ákærðir vegna gruns um að skipu­leggja mótmæli gegn olíu­verð­hækk­unum í landinu en margir þeirra flúðu land í kjöl­farið.

Í Búrúndí héldu yfir­völd uppteknum hætti og réðust gegn mann­rétt­inda­fröm­uðum, aðgerða­sinnum og borg­ara­legum samtökum. Stjórn­völd landsins leystu upp borg­ara­legu samtökin PARCEM og dómstóll stað­festi 32 ára fang­els­isdóm gegn mann­rétt­inda­fröm­uð­inum Germain Rukuki.

Í Márít­aníu sætti aðgerðasinninn Ahmedou Ould Wediaa geðþótta­hand­töku þegar lögregla réðst skyndi­lega inn á heimili hans í kjölfar gagn­rýni hans á stjórn­völd vegna viðbragða þeirra við mótmælum í tengslum við kosn­ingar í landinu.

Í Nígeríu sættu blaða­menn­irnir og aðgerða­sinn­arnir Omoyele Sowore, Olawale Bakare og Agba Jalingo geðþótta­hand­tökum og varð­haldi en ákær­urnar á hendur þeim voru af póli­tískum toga.

Undirokandi löggjöf

Sums staðar á svæðinu kynntu stjórn­völd til sögunnar nýja löggjöf á árinu 2019 sem takmarkar mjög störf mann­rétt­inda­frömuða, blaða­manna og stjórn­ar­and­stæð­inga.

Ríkis­stjórn Fíla­beins­strand­ar­innar samþykkti nýja hegn­ing­ar­lög­gjöf í júní 2019 sem grefur enn frekar undan tján­ing­ar­frelsinu í landinu. Samkvæmt lögunum er m.a. glæp­sam­legt að móðga þjóð­höfð­ingja landsins og „birta gögn sem kunna að grafa undan alls­herj­ar­reglu“.

Í sama mánuði breyttu stjórn­völd í Búrkína Fasó einnig hegn­ing­ar­lög­gjöf­inni á þann veg að hægt sé að beita henni til takmörk­unar á aðgengi að upplýs­ingum og hertara eftir­lits með mann­rétt­inda­fröm­uðum, aðgerða­sinnum, fjöl­miðla­fólki og blogg­urum.

Gínea samþykkti nýja hryðju­verka­lög­gjöf í júlí 2019 sem felur í sér víðtæk ákvæði sem hægt er að beita til refs­ingar fyrir að nýta sér sjálf­sögð rétt­indi til tján­ingar.

Í desember 2019 kynnti níger­íska þingið tvö frum­vörp til laga sem takmarka mjög tján­ing­ar­frelsið á netinu en annað frum­varpið felur í sér ákvæði um dauðarefs­inguna fyrir hatursorð­ræðu. Umrædd frum­vörp veita stjórn­völdum geðþótta­vald til að loka aðgengi að netinu, takmarka aðgengi að samfé­lags­miðlum og gera refsi­vert allt að þremur árum að gagn­rýna stjórn­völd. Frum­vörpin hafa verið harð­lega gagn­rýnd víða.

Amnesty Internati­onal kallaði eftir því að frum­vörpin yrðu dregin til baka þar sem þau stangast á við alþjóðalög. Í júlí 2020 höfðu frum­vörpin ekki enn farið í gegn á þingi.

 

Fjölmiðlafrelsi

Í rúmlega 25 löndum á svæðinu var fjöl­miðla­frelsi skert og fjöl­miðla­fólk átti á hættu að sæta refs­ingum á árinu 2019.

Ástandið í Sómalíu var sérstak­lega slæmt. Fjöl­miðla­fólk sætti reglu­lega barsmíðum og geðþótta­hand­tökum af hálfu örygg­is­sveita. Vopn­aður hópur, Al-Shabaab, myrti tvo blaða­menn og beindi spjótum sínum að öðru fjöl­miðla­fólki með ofbeldi, ógnunum og hótunum. Þá var einnig lokað á Face­book-síður fjöl­miðla­fólks, fjöl­miðla­fyr­ir­tæki fengu mútu­greiðslur til að stunda sjálfs­rit­skoðun og að minnsta kosti átta blaða­menn voru gerðir land­flótta af ótta um líf sitt.

Í 17 löndum á svæðinu sætti fjöl­miðla­fólk geðþótta­hand­tökum og varð­haldi árið 2019.

Amnesty Internati­onal skrá­setti 19 mál í Nígeríu þar sem fjöl­miðla­fólk sætti árásum, geðþótta­hand­tökum og varð­haldi og jafnvel upplognum sökum.

Í Suður-Súdan er vitað um 16 mál þar sem fjöl­miðla­fólk sætti varð­haldi. Það varð einnig fyrir árásum. Til að mynda var ráðist á tvær blaða­konur sem sóttu opin­beran fund þar sem forseti landsins Salva Kiir flutti ávarp.

Í Síerra Leóne beittu yfir­völd lögum um alls­herj­ar­reglu til að þagga niður í fjöl­miðla­fólki og aðgerða­sinnum. Þá var fjöl­mörgum fjöl­miðlum lokað eða tíma­bundið sviptir starfs­leyfi.

Fjöl­miðlum var lokað víða á svæðinu árið 2019.

Stjórn­völd í Lýðstjórn­ar­lýð­veldinu Kongó lokuðu nokkrum fjöl­miðlum í tilraun sinni til að koma í veg fyrir birt­ingu á fréttum um óform­legar niður­stöður kosn­inga þar í landi og koma í veg fyrir víðtæk mótmæli vegna ásakana um stór­brotin kosn­inga­svik.

Fjöl­miðla­nefnd Úganda fyrir­skipaði brottrekstur á starfs­fólki á 13 óháðum útvarps- og sjón­varps­stöðvum í landinu í fram­haldi af umfjöllun um geðþótta­hand­töku á tónlist­ar­mann­inum og stjórn­ar­and­stæð­ingnum Bobi Wine. Fjöl­miðlar voru einnig lagðir af í Gana, Tógó, Tans­aníu og Sambíu.

Stjórn­völd hafa í auknum mæli takmarkað aðgang að netinu til að loka fyrir raddir óvil­hallar stjórn­völdum.

Lokanir á netinu voru fyrir­skip­aðar í Simbabve í tengslum við mótmæli á olíu­verð­hækk­unum og fyrir og eftir kosn­ingar í Benín, Lýðstjórn­ar­lýð­veldinu Kongó og Marít­aníu.

Tengt efni