Rússland

Allt frá tímum Sovét­ríkj­anna hafa rúss­neskir borg­arar ekki getað nýtt sér að fullu frelsi til tján­ingar eða funda- og félaga­frelsi og hefur það reynst gagn­rýn­endum stjórn­valda sérstak­lega skeinu­hætt.

Með falli Sovét­ríkj­anna og Perestrojku Gorbat­sjovs var gerð tilraun til að auka frelsi fjöl­miðla en ný fjöl­miðlalög tóku gildi árið 1990. Þau gengu m.a. annars út að leggja bann við ritskoðun og tryggja átti réttinn til tján­ing­ar­frelsis og upplýs­inga. Þetta gekk þó aðeins upp að hluta því ný stofnun GUOT hóf starf­semi sama ár og lögin tóku gildi og hóf hún starfs­semi sína með því að gefa út lista yfir efni sem var bannað að gefa út.

Allt frá því að Vladimir Pútin tók aftur við forseta­stólnum árið 2012 hefur enn frekari aðför verið gerð að tján­ing­ar­frelsinu. Óháð félaga­samtök, gagn­rýnir fjöl­miðlar og mótmæl­endur hafa borið hitann og þungann af árásum á grund­vallar­frelsi einstak­linga, sem stjórn­völd hafa rétt­lætt undir því yfir­skini að ákveðnir hópar samfé­lagsins grafi undan hagsæld og stöð­ug­leika ríkisins. Breyt­ingar sem gerðar voru á lögum í landinu árið 2002 um öfga­sinnað fram­ferði víkkaði til muna skil­grein­inguna á því og gerði opin­bera rétt­læt­ingu á hryðju­verkum og rógburð gegn stjórn­völdum refsi­verð. Sömu lög gera stjórn­völdum kleift að þagga niður þær fréttir sem eru í þeirra óþökk.

Fjöldi fjölmiðlafólks myrt

Fjöl­miðla­fólk sem viðrað hefur gagn­rýni á rúss­nesk stjórn­völd hafa um áratuga­skeið sætt árásum, fanga­vist og jafnvel morðum. Lang­mestur hluti þessara morð­mála er enn óleystur.

Á tíma­bilinu 1992 til 2008 er talið að 47 blaða­menn hafi verið myrtir í Rússlandi eingöngu fyrir störf sín.

Fræg­asta dæmið um ofsóknir gegn blaða­fólki er morðið á blaða­kon­unni Önnu Polit­kovskaju sem starfaði hjá blaðinu Novaya Gazeta og var m.a. harður gagn­rýndi stefnu Pútíns í Tétsníu og þau mann­rétt­inda­brot sem þar voru framin. Hún var skot­in til bana fyr­ir utan heim­ili sitt í Moskvu í október árið 2006 en allar líkur eru á að hún hafi verið myrt vegna skrifa sinna. Hún hafði einnig fjallað ötul­lega um ofbeldi innan hersins, spill­ingu stjórn­valda og lögreglu­of­beldi. Árið 2018 kvað Mann­rétt­inda­dóm­stóll Evrópu upp þann úrskurð að rúss­nesk stjórn­völd hefðu ekki rann­sakað morðið á Önnu Polit­kov­skyu nægi­lega vel og ekki reynt að komast í botn í því hver fyrir­skipaði skotárásina. Þá hafa nokkrir aðrir blaða­menn Novaya Gazeta einnig verið myrtir á undan­förnum árum og aðrir særst eða sætt ógnunum.

Mann­rétt­inda­fröm­uð­urinn Natalia Estem­irova, sem skrifaði fyrir frétta­vefinn Caucasus Knot, var þvinguð upp í sendibíl í Tétsníu og myrt þann 15. júlí 2009. Hún var tvívegis skotin í höfuðið.

Í júní 2012 var að sögn blaða­mað­urinn Sergei Sokolov sem starfar hjá Novaya Gazeta fluttur í leyni á skóg­ar­svæði og hótað af Aleks­andr Bastrykin, formanni aðal­rann­sókn­ar­nefndar Rúss­lands, sem gegnir því hlut­verki að rann­saka „alvar­lega” glæpi í landinu. Bastrykin, játaði síðar að hafa „átt spjall“ við blaða­manninn og baðst opin­ber­lega afsök­unar sem varð til þess að málið var látið niður falla.

Blaða­konan Svetlana Prokopyeva var ákærð fyrir „rétt­læt­ingu á hryðju­verkum“ vegna ummæla sinna í þætti á útvarps­stöð í Pskov í norð­vest­ur­hluta Rúss­lands í nóvember 2018. Hún kann að eiga allt að sjö ára fang­els­isdóm yfir höfði sér. Svetlana gagn­rýndi stjórn­völd í útvarps­þætti og tjáði skoðun sína á því hvers vegna ungt fólk í landinu væri orðið róttækara.

Þann 12. nóvember 2019 dæmdi herdóm­stóll mann­rétt­inda­fröm­uðinn Emir-Usein Kuku, sem tilheyrir tyrk­neskum þjóð­ern­ishóp á Krímskaga, og fimm aðra í sjö til nítján ára fang­elsi fyrir upplognar sakir. Emir-Usein Kuku er nafn­tog­að­asti mann­rétt­inda­fröm­uð­urinn sem tilheyrir umræddum þjóð­ern­is­hópi en hann hefur sætt fjölda árása og fjöl­skylda hans hefur einnig sætt hótunum. Hann var hand­tekinn í febrúar 2016 og ákærður fyrir „að skipu­leggja aðgerðir á vegum hryðju­verka­hóps“ vegna meintra tengsla sinn við Hizb ut Tahrir, íslamska hreyf­ingu sem er bönnuð í Rússlandi en leyfileg í Úkraínu. Emir-Usein Kuku hefur alla tíð neitað aðild sinni að hreyf­ing­unni. Þegar rann­sókn yfir­valda í Rússlandi lauk í desember 2017 var Emir og hinir sakborn­ing­arnir fluttir frá hernumdum Krímskaga til borg­ar­innar Rostov-on-Don í Rússlandi, þvert á alþjóðleg mann­rétt­indalög.

Brotið hefur verið á rétti þeirra félaga til sann­gjarnra rétt­ar­halda þar sem þeir hafa þurft að koma fyrir herrétt. Þeir eru allir samviskufangar.

Sækja harðar að fjölmiðla- og upplýsingafrelsi

Síðustu árin hafa rúss­nesk stjórn­völd sótt enn harðar að fjöl­miðla- og upplýs­inga­frelsi í landinu en lang­flestum fjöl­miðlum landsins er stýrt af ríkis­valdinu og eru miðl­arnir nýttir í rógs­her­ferð gegn mann­rétt­inda­fröm­uðum, stjórn­ar­and­stæð­ingum og öðrum gagn­rýn­is­röddum. Sjálf­stæðir fjöl­miðlar hafa ekki mikla útbreiðslu og hart er sótt að þeim af stjórn­völdum. Vítt og breitt um landið sæta póli­tískir aðgerða­sinnar, rann­sókn­ar­blaða­fólk og leið­togar mótmæla, árásum, stjórn­sýslu- og refsi­með­ferðum, auk þess að mæta ofbeldi af hálfu stuðn­ings­manna stjórn­valda og óþekktum aðilum sem taldir eru heyra til örygg­is­sveita ríkisins eða annarra í vitorði við þær.

Sjálfs­rit­skoðun er mjög útbreidd á helstu fjöl­miðlum landsins og jafnvel þó að ritstjórn­ar­stefna þeirra sé að nafninu til frjáls þá birta fjöl­miðlar yfir­leitt aldrei fréttir eða sjón­armið sem eru óvil­höll stjórn­völdum.

Þá hefur fjöldi nýrra laga verið hraðað í gegnum þingið til að tryggja stjórn­völdum eftirlit með upplýs­ingum á netinu og völd til að takmarka þær, auk þess að stýra tján­ingu á netinu.

Rúss­nesk stjórn­völd hafa bannað nafn­hylma á netinu og (vefgátt á netinu sem gerir notanda kleift að vitja vefseturs án þess að fylgst sé með honum), ásamt öðrum takmark­andi aðgerðum.

Þá samþykkti forseti landsins, Skipu­lags­áætlun fyrir upplýs­inga­sam­fé­lagið  fyrir tíma­bilið 2017 til 2030 sem tilgreinir „forgang hefð­bund­inna, íhald­samra, rúss­neskra trúar- og siðferð­is­legra gilda“ í allri notkun upplýs­inga- og samskipta­tækni.

Aðgengi að netinu heft

Lög um „upplýs­ingar, upplýs­inga­tækni og verndun upplýs­inga”, voru samþykkt í desember 2013, án mikillar umræðu á þinginu og tóku gildi 1. febrúar 2014. Þau veita skrif­stofu saksóknara völd til að hefta aðgang að vefsíðum á netinu fyrir tilstilli beinna tilmæla frá Roskomna­dzor, ríkis­rek­inni stofnun sem sinnir eftir­liti með fjöl­miðlum landsins þegar stofn­unin hefur úrskurðað að tilteknar vefsíður hvetji til fjölda­ó­eirða, öfga­fullra aðgerða eða óleyfi­legra, opin­berra funda.

Í maí 2014 voru frekari lög kynnt til sögunnar í Rússlandi sem gera samfé­lags­miðla einnig að skot­marki. Lögin krefjast skrán­ingar allra vefsíðna, sem fá fleiri en 3000 heim­sóknir á dag, hjá Roskomna­dzor og eru bundnar sömu reglu­gerðum og hefð­bundnir fjöl­miðlar. Vinsælir blogg­arar í landinu verða að birta nafn, auk ærumeið­inga sem kunna að hljótast af athuga­semdum sem birtast frá lesendum síðunnar. Harðar refs­ingar liggja við brotum á þessum reglum eða sekt allt að tveimur millj­ónum íslenskra króna og 30 daga stöðvun á öllum bloggskrifum.

Löggjöf um erlenda erindreka

Árið 2012 var löggjöf um „erlenda erind­reka“ flýtt í gegnum rúss­neska þingið. Frjáls fé­laga­sam­tök, þeirra á meðal mann­rétt­inda­samtök, eru skráð sem „erlendir erind­rekar” og eru undir auknu eftir­liti vegna laganna. Fjöl­mörg sam­tök hafa lagt upp laup­ana vegna þessa. Talið er að a.m.k 79 félög séu á lista sem erlendir erind­rekar en í huga margra Rússa þýðir „erlendur erind­reki“ njósnari eða jafnvel svikari. Baráttu­samtök fyrir rétt­indum hinsegin fólks, önnur mann­rétt­inda­samtök, umhverf­is­vernd­ar­samtök og stofn­anir sem rann­saka kynja­jafn­rétti og kosn­inga­hegðun eru á þessum lista. Félögum sem eru skráð á þennan hátt ber að merkja allt efni sem þau senda frá sér þannig að skýrt komi fram að þau séu skráð sem erlendur erind­reki.

Í nóvember 2017 voru ný lög samþykkt með hraði sem gáfu yfir­völdum vald til að setja fjöl­miðla sem skráðir voru erlendis og þáðu erlenda styrki á lista yfir „erlenda erind­reka“ en það kastar mikilli rýrð á starfs­semi þeirra og setur þeim mjög stranga skil­mála um frétta­veitu. Blaða­menn og aðrir sem starfa innan fjöl­miðla sem brenni­merktir hafa verið sem „erlendir erind­rekar“ og fylgja ekki lögunum eiga á hættu að sæta himin­háum sektum eða fanga­vistun allt að tveimur árum.

Í lok árs 2019 var enn önnur löggjöfin kynnt í Rúss­land sem útvíkkar frekar skil­grein­inguna á „erlendum erind­rekum“ þannig að hún nái einnig yfir einstak­linga sem dreifa upplýs­ingum til ótiltekins fjölda fólks og hljóta erlenda styrki. Þessi skil­greining, eðli sínu samkvæmt, nær til bloggara og sjálf­stætt starf­andi blaða­fólks sem er skylt að skrá sig hjá dóms­mála­ráðu­neyti landsins og merkja allar upplýs­ingar sem þau birta undir „erlenda erind­reka“. Blaða­fólk sem á í samstarfi við erlendar frétta­veitur hefur orðið fyrir hvað verstum áhrifum af þessum lögum.

Þetta síðasta útspil rúss­neskra stjórn­valda er enn ein tilraunin til að reka síðasta naglann í málfrelsi í landinu og þagga niður í öllum gagn­rýn­is­röddum.