Tjáningarfrelsið

Rödd þín skiptir máli. Þú átt rétt á að tjá hug þinn, sann­fær­ingu og skoð­anir þínar, hvort sem þær eru af póli­tískum, trúar­legum, heim­speki­legum, list­rænum eða menn­ing­ar­legum toga og mátt gera það með ýmsum hætti t.d. í ræðu, riti, tónlist, leik, á netinu eða öðrum opin­berum vett­vangi.

Þú átt rétt á að taka við og deila hvers kyns upplýs­ingum, og krefjast umbóta í heim­inum. Þú átt einnig rétt á að samsinna eða vera á öndverðum meiði við þá sem eru við stjórn­völinn og að tjá þessar skoð­anir á frið­saman hátt óháð tján­ing­ar­formi.

Grunn­urinn að opnu og sann­gjörnu samfé­lagi byggir á því að fólk geti nýtt sér þessi rétt­indi, ótta­laust og án þvingana eða ólög­mætra afskipta ríkis­valdsins. Í slíku samfé­lagi njóta almennir borg­arar rétt­lætis og mann­rétt­inda. Tján­ing­ar­frelsið er einn af horn­steinum lýðræðis og verndun þess er nauð­synleg til að draga þá sem eru valda­miklir til ábyrgðar.

Tján­ing­ar­frelsið rennir einnig stoðum undir önnur mann­rétt­indi eins og hugsana-, samvisku- og trúfrelsi og gerir það að verkum að þessi rétt­indi fá þrifist. Það er einnig nátengt félaga- og funda­frelsi, rétt­inum til að mynda og ganga í samtök, klúbba, verka­lýðs- og stjórn­mála­félög, og rétt­inum til að taka þátt í frið­sömum mótmælum eða opin­berum fundum og samkomum. Tján­ing­ar­frelsið felur einnig í sér réttinn til að tjá persón­leika sinn m.a. með klæða­burði og/eða hegðan og látbragði.

Kjarni vandans

Í síauknum mæli brjóta ríkis­stjórnir heims á grund­vall­ar­rétti fólks til tján­ing­ar­frelsis og annarra skyldra rétt­inda, eins og rétt­inum til félaga- og funda­frelsis. Þetta er oft gert í nafni þjóðarör­yggis, almanna­heilla, menn­ing­ar­arfs og barátt­unnar gegn hryðju­verkum en í raun er ætlunin að bæla niður frið­samt andóf og þagga niður í gagn­rýni.

Víða um heim liggja hörð viðurlög við því að tjá hug sinn, eins og margra ára fanga­vist eða himin­háar fjár­sektir og stundum er fólk jafnvel tekið af lífi fyrir að gagn­rýna stjórn­völd á opin­berum vett­vangi. Amnesty Internati­onal lítur svo á að hver einstak­lingur sem færður er í fang­elsi fyrir það eitt að tjá hug sinn með frið­sömum hætti sé samviskufangi sem ber að leysa úr haldi skil­yrð­is­laust og án tafar.

Fjölmiðlafrelsi

Frjáls fjöl­miðlun um málefni sem vekja áhuga okkar og hafa áhrif á líf okkar er grund­völlur allra samfé­laga sem virða mann­rétt­indi. Í Aser­baísjan, Tyrklandi og Venesúela, til að nefna nokkur lönd, sætir fjöl­miðla­fólk undirokun og árásum.

Í júní 2019 var löggjöf um enn hertari ritskoðun samþykkt í Tans­aníu eftir flýti­með­ferð á þinginu. Fjöl­miðla­fólki er nú þegar settar mjög þröngar skorður í starfi sínu vegna fjöl­miðla­laga í landinu sem gerir þær kröfur að „flytja eða birta fréttir sem hafa þjóð­fé­lags­legt vægi í samræmi við tilskip­anir stjórn­valda“.

Í júlí 2019 hófust rétt­ar­höld á Filipps­eyjum í meið­yrða­máli gegn Maria Ressa, aðal­rit­stjóra á netfréttamiðli og var sakfelld í júní 2020. Ressa, alþekkt fyrir gagn­rýni sína á forseta landsins Rodrigo Duterte, var hand­tekin í febrúar 2019 fyrir upplognar sakir í kjöl­farið á birt­ingu á ítar­legri rann­sókn á þúsundum aftaka án dóms og laga sem lögreglan og vopn­aðir einstak­lingar inntu af hendi að áeggjan Duterte forseta í aðgerðum gegn vímu­efnum. Nánar um ákall í máli Mariu Ressu hér.

Á tímum átaka er fjöl­miðlfólki frétta­mönnum og blaða­fólki settar enn frekari takmark­anir við störf sín. Skýrt dæmi er þegar blaða­menn í Myanmar unnu að frétta­skýr­ingu um morð örygg­is­sveita á Róhingjum og hlutu fanga­vist fyrir vikið. Þeir voru ekki leystir úr haldi fyrr en alþjóða­sam­fé­lagið þrýsti á lausn þeirra.

Málfrelsi

Málfrelsi gildir um hugmyndir af öllum toga, einnig þær sem eru mjög óþægi­legar eða móðg­andi.

Enda þótt alþjóðalög verndi og verji málfrelsi eru tilfelli þar sem slíkt frelsi kann að vera takmarkað með lögmætum hætti samkvæmt sömu alþjóða­lögum. Hefta má málfrelsi þegar því er beitt til að brjóta gegn rétt­indum annarra, ýta undir hatur eða hvetja til mismun­unar eða ofbeldis, eins og fram kemur í 2. mgr. 20 gr. alþjóða­samn­ings um borg­araleg og stjórn­málaleg rétt­indi. Engu að síður verða allar þær takmark­anir sem málfrelsinu eru settar að vera bundnar í lög, varða almanna­hags­muni eða rétt­indi annarra og vera augljós­lega nauð­syn­legar í þessum tilgangi.

Mjög víða misnota vald­hafar hins vegar oft vald sitt og túlka skil­grein­inguna á „hvatn­ingu til haturs“ mjög vítt til að þagga niður í frið­sömum mótmæl­endum eða þeim sem sýna andóf í ræðu, riti, myndum eða með öðru tján­ing­ar­formi.

Funda- og félagafrelsi

Rétt­urinn til funda- og félaga­frelsis er m.a. varð­veittur í 20. gr. Mann­rétt­inda­yf­ir­lýs­ingar Sameinuðu þjóð­anna en þar segir:

1. Allir hafa rétt til að koma saman með frið­sömum hætti og mynda félög með öðrum.

2. Engan má skylda til að vera í félagi.

Ríkis­stjórnir víðs vegar um heiminn brjóta reglu­lega á þessum rétt­indum í tilraun sinni til að bæla niður gagn­rýni. Í Egyptalandi voru næstum þúsund einstak­lingar hand­teknir í mótmælum 20. og 21. sept­ember 2019.

Allt frá árinu 2016 hafa tugir þúsunda mótmælt þrúg­andi löggjöf í Póllandi og verið mætt með hörku. Hundruð hafa sætt gæslu­varð­haldi og eiga yfir höfði sér langa dóms­með­ferð.

Kröfur Amnesty International

Amnesty Internati­onal styður fólk sem ver málstað sinn með frið­sömum hætti eða talar frið­sam­lega fyrir máli annarra, hvort sem um ræðir fjöl­miðla­fólk sem greinir frá ofbeldi örygg­is­sveita, félaga í verka­lýðs­hreyf­ingu sem fletta ofan af slæmum vinnu­að­stæðum eða leið­toga í frum­byggja­sam­félag sem ver landrétt­indi sín gegn stór­fyr­ir­tækjum. Með sama hætti styðjum við rétt þeirra sem tala máli stór­fyr­ir­tækja, örygg­is­sveita og atvinnu­rek­enda til að tjá skoð­anir sínar með frið­sömum hætti.

Amnesty Internati­onal kallar eftir því að:

  • Tján­ing­ar­frelsi sé eflt og verndað.
  • Tján­ing­ar­frelsið sé eingöngu takmarkað í samræmi við lög og takmörk­unin þarf að vera lögmæt og nauð­synleg í lýðræð­is­sam­fé­lagi.
  • Samviskufangar um heim allan skulu leystir úr haldi skil­yrð­is­laust og án tafar.
  • Strika skal út öll refsi­á­kvæði í lögum sem beinast gegn einstak­lingum sem mótmæla frið­sam­lega og tjá hug sinn.
  • Einstak­lingar njóti réttar síns á aðgengi að upplýs­ingum sem varða almanna­hags­muni en aðgengi ríkis­stjórna og fyrir­tækja að upplýs­ingum um einstak­linga og samtök verði takmarkað til verndar frið­helgi einka­lífs.
  • Stjórn­völd beiti ekki harka­legum aðgerðum gegn frið­sömum mótmæl­endum.

Tengt efni