Rödd þín skiptir máli. Þú átt rétt á að tjá hug þinn, sannfæringu og skoðanir þínar, hvort sem þær eru af pólitískum, trúarlegum, heimspekilegum, listrænum eða menningarlegum toga og mátt gera það með ýmsum hætti t.d. í ræðu, riti, tónlist, leik, á netinu eða öðrum opinberum vettvangi.
Þú átt rétt á að taka við og deila hvers kyns upplýsingum, og krefjast umbóta í heiminum. Þú átt einnig rétt á að samsinna eða vera á öndverðum meiði við þá sem eru við stjórnvölinn og að tjá þessar skoðanir á friðsaman hátt óháð tjáningarformi.
Grunnurinn að opnu og sanngjörnu samfélagi byggir á því að fólk geti nýtt sér þessi réttindi, óttalaust og án þvingana eða ólögmætra afskipta ríkisvaldsins. Í slíku samfélagi njóta almennir borgarar réttlætis og mannréttinda. Tjáningarfrelsið er einn af hornsteinum lýðræðis og verndun þess er nauðsynleg til að draga þá sem eru valdamiklir til ábyrgðar.
Tjáningarfrelsið rennir einnig stoðum undir önnur mannréttindi eins og hugsana-, samvisku- og trúfrelsi og gerir það að verkum að þessi réttindi fá þrifist. Það er einnig nátengt félaga- og fundafrelsi, réttinum til að mynda og ganga í samtök, klúbba, verkalýðs- og stjórnmálafélög, og réttinum til að taka þátt í friðsömum mótmælum eða opinberum fundum og samkomum. Tjáningarfrelsið felur einnig í sér réttinn til að tjá persónleika sinn m.a. með klæðaburði og/eða hegðan og látbragði.
Kjarni vandans
Í síauknum mæli brjóta ríkisstjórnir heims á grundvallarrétti fólks til tjáningarfrelsis og annarra skyldra réttinda, eins og réttinum til félaga- og fundafrelsis. Þetta er oft gert í nafni þjóðaröryggis, almannaheilla, menningararfs og baráttunnar gegn hryðjuverkum en í raun er ætlunin að bæla niður friðsamt andóf og þagga niður í gagnrýni.
Víða um heim liggja hörð viðurlög við því að tjá hug sinn, eins og margra ára fangavist eða himinháar fjársektir og stundum er fólk jafnvel tekið af lífi fyrir að gagnrýna stjórnvöld á opinberum vettvangi. Amnesty International lítur svo á að hver einstaklingur sem færður er í fangelsi fyrir það eitt að tjá hug sinn með friðsömum hætti sé samviskufangi sem ber að leysa úr haldi skilyrðislaust og án tafar.
Frjáls fjölmiðlun um málefni sem vekja áhuga okkar og hafa áhrif á líf okkar er grundvöllur allra samfélaga sem virða mannréttindi. Í Aserbaísjan, Tyrklandi og Venesúela, til að nefna nokkur lönd, sætir fjölmiðlafólk undirokun og árásum.
Í júní 2019 var löggjöf um enn hertari ritskoðun samþykkt í Tansaníu eftir flýtimeðferð á þinginu. Fjölmiðlafólki er nú þegar settar mjög þröngar skorður í starfi sínu vegna fjölmiðlalaga í landinu sem gerir þær kröfur að „flytja eða birta fréttir sem hafa þjóðfélagslegt vægi í samræmi við tilskipanir stjórnvalda“.
Í júlí 2019 hófust réttarhöld á Filippseyjum í meiðyrðamáli gegn Maria Ressa, aðalritstjóra á netfréttamiðli og var sakfelld í júní 2020. Ressa, alþekkt fyrir gagnrýni sína á forseta landsins Rodrigo Duterte, var handtekin í febrúar 2019 fyrir upplognar sakir í kjölfarið á birtingu á ítarlegri rannsókn á þúsundum aftaka án dóms og laga sem lögreglan og vopnaðir einstaklingar inntu af hendi að áeggjan Duterte forseta í aðgerðum gegn vímuefnum. Nánar um ákall í máli Mariu Ressu hér.
Á tímum átaka er fjölmiðlfólki fréttamönnum og blaðafólki settar enn frekari takmarkanir við störf sín. Skýrt dæmi er þegar blaðamenn í Myanmar unnu að fréttaskýringu um morð öryggissveita á Róhingjum og hlutu fangavist fyrir vikið. Þeir voru ekki leystir úr haldi fyrr en alþjóðasamfélagið þrýsti á lausn þeirra.
Málfrelsi gildir um hugmyndir af öllum toga, einnig þær sem eru mjög óþægilegar eða móðgandi.
Enda þótt alþjóðalög verndi og verji málfrelsi eru tilfelli þar sem slíkt frelsi kann að vera takmarkað með lögmætum hætti samkvæmt sömu alþjóðalögum. Hefta má málfrelsi þegar því er beitt til að brjóta gegn réttindum annarra, ýta undir hatur eða hvetja til mismununar eða ofbeldis, eins og fram kemur í 2. mgr. 20 gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Engu að síður verða allar þær takmarkanir sem málfrelsinu eru settar að vera bundnar í lög, varða almannahagsmuni eða réttindi annarra og vera augljóslega nauðsynlegar í þessum tilgangi.
Mjög víða misnota valdhafar hins vegar oft vald sitt og túlka skilgreininguna á „hvatningu til haturs“ mjög vítt til að þagga niður í friðsömum mótmælendum eða þeim sem sýna andóf í ræðu, riti, myndum eða með öðru tjáningarformi.
Rétturinn til funda- og félagafrelsis er m.a. varðveittur í 20. gr. Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna en þar segir:
1. Allir hafa rétt til að koma saman með friðsömum hætti og mynda félög með öðrum.
2. Engan má skylda til að vera í félagi.
Ríkisstjórnir víðs vegar um heiminn brjóta reglulega á þessum réttindum í tilraun sinni til að bæla niður gagnrýni. Í Egyptalandi voru næstum þúsund einstaklingar handteknir í mótmælum 20. og 21. september 2019.
Allt frá árinu 2016 hafa tugir þúsunda mótmælt þrúgandi löggjöf í Póllandi og verið mætt með hörku. Hundruð hafa sætt gæsluvarðhaldi og eiga yfir höfði sér langa dómsmeðferð.
Kröfur Amnesty International
Amnesty International styður fólk sem ver málstað sinn með friðsömum hætti eða talar friðsamlega fyrir máli annarra, hvort sem um ræðir fjölmiðlafólk sem greinir frá ofbeldi öryggissveita, félaga í verkalýðshreyfingu sem fletta ofan af slæmum vinnuaðstæðum eða leiðtoga í frumbyggjasamfélag sem ver landréttindi sín gegn stórfyrirtækjum. Með sama hætti styðjum við rétt þeirra sem tala máli stórfyrirtækja, öryggissveita og atvinnurekenda til að tjá skoðanir sínar með friðsömum hætti.
Amnesty International kallar eftir því að:
Tengt efni
Allt starf Amnesty International er fjármagnað og drifið áfram af einstaklingum eins og þér. Hvert framlag — hver aðgerð vegur þungt.
Fyrir ungt fólk sem vill hafa áhrif minnum við á ungliðahreyfingu Amnesty International en hópar eru starfandi um land allt.
Styrktu & skrifaðu undir áköll með símanum
Einfalt og áhrifaríkt aðgerðanet
Vertu með í netákallinu, þar sem meðlimir fá tilkynningar í tölvupósti um alvarleg mannréttindarbrot sem krefjast tafarlausra viðbragða.
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu