Barn dæmt til dauða í Suður-Súdan

Dæmdur til dauða 15 ára

Magai Matiop Ngong var 15 ára gagn­fræða­skóla­nemi sem hafði gaman af því að hlaupa og syngja gospellög. Hann var stað­ráðinn í því að hjálpa öðru fólki þegar hann yrði eldri. Líf hans gjör­breyttist hins vegar skyndi­lega þegar hann var dæmdur fyrir morð árið 2017.

Á meðan rétt­ar­höldin stóðu yfir sagði hann við dómarann að hann væri aðeins fimmtán ára og að morðið sem hann var ákærður fyrir hefði verið slys. Þrátt fyrir það dæmdi dómarinn hann til heng­ingar.

„Tilfinn­ingin var alls ekki góð,“ segir Magai. Það er ekki ánægju­legt að fá að vita að maður sé að fara að deyja.“

Magai var ekki með lögfræðing sér til aðstoðar þegar hann var hand­tekinn eða við fyrstu rétt­ar­höldin. Dómari sagði að hann gæti áfrýjað málinu og farið fram á ógild­ingu dauðarefs­ing­ar­innar. Hann fékk fyrst lögfræðing þegar hann var fluttur í annað fang­elsi.

Á síðasta ári voru sjö hengdir í Suður-Súdan, einn af þeim var á barns­aldri eins  og Magai.

Tveimur árum eftir að dómurinn var kveðinn upp er Magai á dauða­deild í Juba Central-fang­elsinu þar sem hann bíður þess að áfrýj­unin verði tekin fyrir. Hann hefur þó ekki misst vonina um að losna og halda áfram skóla­göngu sinni.

Skrifaðu undir bréfið og krefðu stjórn­völd í Suður-Súdan um að ógilda dauða­dóminn yfir Magai.

 

 

Þau þurfa þína hjálp!

Þín undirskrift getur bjargað mannslífi

Kína

Fangelsuð vegna fréttaumfjöllunar um kórónuveiruna

Zhang Zhan skýrði frá útbreiðslu kórónuveirunnar í Wuhan-borg. Hún greindi frá því á samfélagsmiðlum að yfirvöld hefðu tekið til fanga óháða blaðamenn og áreitt fjölskyldur smitaðra einstaklinga. Hún var síðar tekin til fanga og dæmd í fjögurra ára fangelsi.

Palestína

Hótað lífláti fyrir að afhjúpa ofbeldi ísraelska hersins

Janna Jihad er 15 ára gömul og býr á Vesturbakkanum, sem er hernuminn af Ísrael. Hún var aðeins sjö ára þegar hún hóf að taka upp á símann sinn mannréttindabrot ísraelska hersins. Janna hefur verið áreitt og henni hótað lífláti.

Nígería

Læstur í neðanjarðarklefa fyrir mótmæli

Imoleayo Michael studdi mótmæli á samfélagsmiðlum gegn sérsveitinni SARS sem er alræmd fyrir ofbeldi. Í kjölfarið var hann læstur í neðanjarðarklefa í 41 dag. Hann stendur frammi fyrir fölskum ákærum og margra ára fangelsisvist.

Úkraína

Ráðist á baráttufólk fyrir réttindum kvenna og hinsegin fólks

Frjálsu félagasamtökin Sphere hafa barist fyrir réttindum kvenna og hinsegin fólks frá árinu 2006. Á undanförnum árum hafa ofbeldisfullir andstöðuhópar gegn hinsegin fólki skipulagt tugi árása á starfs- og stuðningsfólk Sphere en enginn sætir ábyrgð.

Erítrea

Sætti þvinguðu mannshvarfi 15 ára

Ciham Ali var aðeins 15 ára þegar stjórnvöld námu hana á brott í hefndaraðgerð gegn föður hennar. Níu ár eru nú liðin frá því að hún sætti þvinguðu mannshvarfi. Enginn veit hvar hún er í haldi.

Mexíkó

Skotin á mótmælum gegn ofbeldi á konum

Wendy Galarza berst fyrir réttlátara samfélagi fyrir konur í heimalandi sínu. Þær sæta oft árásum, eru niðurlægðar og myrtar. Hún týndi næstum lífi sínu við að fordæma ofbeldið.

Taíland

Stendur frammi fyrir lífstíðardómi vegna friðsamlegra mótmæla

Panusaya, kölluð Rung, kallar eftir jafnrétti og tjáningarfrelsi. Í mars 2021 var hún fangelsuð í 60 daga á grundvelli laga sem banna gagnrýni á konungsríkið. Nú stendur hún frammi fyrir fjölda ákæra og á yfir höfði sér lífstíðarfangelsi.

Hvíta-Rússland

Unglingur barinn, gefið raflost og fangelsaður

Mikita Zalatarou, sem er flogaveikur, var 16 ára þegar hann var handtekinn og ásakaður um að kasta bensínsprengju í átt að óeirðalögreglu. Hann var í kjölfarið fangelsaður, pyndaður og dæmdur í fimm ára fangelsi.