Þegar Wuhan-borg í Kína var lokað í kjölfar örrar útbreiðslu kórónuveirunnar var Zhang Zhan ein örfárra sjálfstæðra netfréttamanna sem skýrðu frá krísuástandinu.
Lögfræðingurinn fyrrverandi var staðráðin í að varpa ljósi á sannleikann og ferðaðist í þeim tilgangi til borgarinnar í febrúar 2020. Zhang Zhan greindi frá því á samfélagsmiðlum að yfirvöld hefðu tekið til fanga óháða blaðamenn og áreitt fjölskyldur smitaðra einstaklinga. Sjálfstæðir netfréttamenn voru eina uppspretta óritskoðaðra beinna upplýsinga um kórónuveirufaraldurinn í Kína þegar hann kom fyrst til sögunnar í Wuhan-borg.
Sjálfstæðir blaðamenn og fjölmiðlafólk sæta linnulausum árásum og áreiti fyrir að afhjúpa upplýsingar sem stjórnvöld myndu vilja þagga niður.
Zhang Zhan hvarf sporlaust í Wuhan-borg í maí 2020. Yfirvöld staðfestu síðar að hún væri í haldi lögreglu í Shanghai í 620 km fjarlægð frá borginni. Í júní 2020 hóf Zhang Zhan hungurverkfall til að mótmæla varðhaldinu. Í desember sama ár var hún orðin mjög veikburða og mætti í hjólastól í fyrirtöku í dómsal. Dómari dæmdi hana í fjögurra ára fangelsi fyrir að „stofna til ágreinings og valda vandræðum“.
Zhang Zhan var flutt í kvennafangelsi í Shanghai í mars 2021. Yfirvöld meina henni enn fjölskylduheimsóknir.
„Við eigum að varpa ljósi á sannleikann, sama hvað það kostar,“ segir Zhang Zhan. „Sannleikurinn hefur ávallt verið dýrkeyptasta verðmæti veraldar. Hann er líf okkar.“
Krefðu kínversk stjórnvöld um að leysa Zhang Zhan tafarlaust úr haldi.