Luis Manuel Otero Alcántara er sjálflærður listamaður á Kúbu. Hann hefur unun af því að mála og dansa. Heimili hans í San Isidro, sem er eitt fátækasta hverfi Havana, er athvarf fyrir fólk í nærsamfélaginu til að hittast og tengjast.
Tilskipun 349 er löggjöf sem ætlað er að þagga niður í gagnrýnu listafólki á Kúbu. Óánægja Luis Manuels með löggjöfina varð til þess að hann gerðist leiðtogi San Isidro-hreyfingarinnar en hún samanstendur af fjölbreyttum hópi lista- og fjölmiðlafólks, auk aðgerðasinna sem berjast fyrir tjáningarfrelsinu. Meðlimir hópsins hafa sætt ógnunum, eftirliti og varðhaldsvist.
Öryggissveitarmenn á vegum ríkisins færðu Luis Manuel af heimili sínu 2. maí 2021 þar sem hann hafði verið í hungurverkfalli til að mótmæla eignarnámi yfirvalda á listaverkum sínum. Hann var færður á spítala í Havana þar sem menn á vegum öryggissveita ríkisins vöktuðu hann og heimsóknir nánustu fjölskyldu voru mjög takmarkaðar. Luis Manuel fékk ekki að nota síma og var bannað að eiga samskipti við umheiminn. Þegar honum var sleppt, mánuði síðar, héldu öryggissveitir enn áfram að fylgjast með hverri hreyfingu hans.
Luis Manuel birti myndband á netinu hinn 11. júlí 2021 þar sem hann kvaðst ætla að taka þátt í einni stærstu kröfugöngu sem fram hefur farið á Kúbu í áratugi þar sem fólk mótmælti stöðu efnahagsmála í landinu, lyfjaskorti og viðbrögðum stjórnvalda við kórónuveirufaraldrinum. Luis Manuel var handtekinn áður en mótmælin fóru fram og færður í hámarksöryggisfangelsið Guanajay þar sem hann situr enn á bak við lás og slá. Hann var dæmdur í fimm ára fangelsi í lokuðum réttarhöldum í júní 2022. Heilsu hans hrakar stöðugt og honum er ekki veitt tilhlýðileg læknisaðstoð í fangelsinu.
Krefstu þess að stjórnvöld á Kúbu leysi Luis Manuel tafarlaust úr haldi.