Vinkonur sæta illri meðferð

Mannrán, barsmíðar, kynferðisofbeldi og fangelsisvist fyrir að mótmæla

Cecillia Chim­biri, Joanah Mamombe og Netsai Marova eru þrjár konur frá Simbabve sem eiga margt sameig­in­legt. Þeim finnst gaman að spila, horfa á sjón­varp og þær brenna fyrir stjórn­málum. Því miður deila þær einnig sömu minn­ingu um hrotta­lega árás.

Í kjölfar þess að þær leiddu mótmæli gegn stjórn­völdum hinn 13. maí 2020 voru Cecillia, Joanah og Netsai hand­teknar að geðþótta í Harare. Þær voru færðar á lögreglu­stöð þar sem þær voru þving­aðar inn í ómerktan bíl. Keyrt var með þær út fyrir borgina með poka yfir höfuðið. Þær óttuðust um líf sitt. Þeim var hent ofan í gryfju, þær voru barðar, beittar kynferð­isof­beldi og neyddar til að borða mannasaur. Þær fundust tveimur dögum síðar langt fyrir utan Harare. Föt þeirra voru rifin og þær voru með sár og marbletti um allan líkamann. Farið var með Cecilliu, Joanah og Netsai á sjúkrahús. Þær lágu þar enn inni þegar þær voru ákærðar fyrir brot sem tengdust mótmælum.

Fanga­vörðum og lögreglu­þjónum var komið fyrir á sjúkra­húsinu til að koma í veg fyrir að þær ræddu við fjöl­miðla­fólk. Í kjölfar þess að konurnar sögðust þekkja suma árás­ar­mennina voru þær hand­teknar á ný hinn 10. júní 2020 og ákærðar fyrir svið­setn­ingu mann­ráns. Þær voru í haldi til 26. júní 2020 þegar þær fengu lausn gegn trygg­ingu. Rétt­ar­höld yfir Cecilliu, Joanah og Netsai hófust í janúar 2022 og standa enn yfir. Enginn hefur verið dreginn til ábyrgðar fyrir þennan hrotta­lega verknað.

Krefstu rétt­lætis fyrir Cecilliu, Joanah og Netsai.

Þau þurfa þína hjálp!

Þín undirskrift getur bjargað mannslífi