Tsjad: Á yfir höfði sér lífstíðarfangelsi fyrir myndbönd á Facebook

SMS-mál nr. 2 september 2017

Hann er aðgerðasinni á netinu og sjö barna faðir. Í september 2016 setti Tadjadine Mahamat Babouri, sem er þekktur undir nafninu Mahadine, inn myndbönd á Facebook þar sem hann sakaði stjórnvöld í Tsjad og fólk þeim tengt um spillingu og slæma meðferð á almannafé. Hann kvartaði einnig undan efnahagskreppunni í landinu sem er háð olíu og líður fyrir lækkandi olíuverð í heiminum. 

Það þarf hugrekki til að gera slík myndbönd og setja á netið í landi þar sem opinber tjáning á þennan hátt getur haft alvarlegar afleiðingar.

Nokkrum dögum síðar var hann gripinn á götunni um hábjartan dag af hópi manna sem eru taldir vera í leyniþjónustunni. Hann segist hafa verið barinn, gefið raflost, setið hlekkjaður vikum saman og verið færður á milli fangelsa. Eiginkona hans og börn fengu ekki að vita hvar hann væri og þurftu sjálf að leita að honum. Mahadine á nú yfir höfði sér lífstíðarfangelsi og ákærur m.a. fyrir að ógna þjóðaröryggi. Hann er alvarlega veikur eftir að hafa smitast af berklum í fangelsi. Hann þarfnast lífsnauðsynlega læknismeðferðar. Hann á ekki að verða fyrir frelsisskerðingu fyrir það að hafa kjark til að tjá skoðun sína. 

SMS-félagar krefjast þess að stjórnvöld í Tsjad leysi Mahadine úr haldi án tafar!

Þú getur skráð þig í SMS-aðgerðanetið hér: http://www.amnesty.is/taktu-thatt/sms-adgerdarnetid/