Bandaríkin: Óbirt sönnunargögn í dauðarefsingarmáli

Þann 8. mars 1986 fannst lík Cynthiu Tincher í bíl hennar í Toledo, Ohio. Sama dag var tilkynnt um hvarf meðleigjanda hennar, Debru Ogle. Lík hennar fannst 12. mars í skógi í Toledo og létust þær báðar af völdum skotsára. Tveir menn voru kærðir fyrir morðin, William Montgomery og Glover Heard. Heard samdi um 15 ára til lífstíðar fangelsisvist og slapp þannig við dauðadóm. Hann játaði að hafa verið viðriðinn morðin og bar vitni gegn Montgomery.

Réttað var yfir Montgomery í september 1986. Verjendur í málinu kynntu engin vitni sjálfir en yfirheyrðu eingöngu vitni saksóknara. Kviðdómurinn sakfelldi William Montgomery fyrir morðin á báðum konunum og hann hlaut dauðadóm.

Sex árum síðar kom upp á yfirborðið lögregluskýrsla sem ekki hafði birst áður. Samkvæmt henni sást Debra Ogle á lífi 12. mars, fjórum dögum eftir að Montgomery hafði átt að hafa myrt hana. Árið 2007 taldi héraðsdómari að innihald skýrslunnar myndi útiloka tímalínuna sem gerð hafði verið og græfi undan trúverðugleika Heards. Hann úrskurðaði að málið yrði tekið upp aftur. Ríkið áfrýjaði og árið 2011 hafnaði áfrýjunardómstóll úrskurðinum.

William Montgomery er búinn að vera á dauðadeild í yfir 30 ár og aflífun hans á að fara fram þann 11. apríl næstkomandi.

SMS-félagar benda á að sex dómarar hafa haldið því fram að hann eigi rétt á nýjum réttarhöldum vegna lögregluskýrslunnar sem síðar kom fram. Þeir benda líka á ítrekuð mistök í málum þar sem dauðarefsingu er beitt, þar á meðal í Ohio.

Skráðu þig í sms-aðgerðarkerfið hér .