Bangladess: Myrtur með sveðju fyrir að verja réttindi LGBTIQ fólks

SMS aðgerð nr. 3 október 2017

Xulhaz Mannan var staddur í íbúð sinni ásamt vini þegar ókunnugir karlmenn sem þóttust vera sendlar ruddust inn vopnaðir sveðjum. Báðir mennirnir voru höggnir til dauða frammi fyrir 75 ára gamalli móður Xulhaz.

Xulhaz hafði stofnað eina tímaritið í Bangladess sem fjallar um málefni LGBTIQ fólks. Það var mikið hættuspil í ljósi þess að samkynhneigð er bönnuð í landinu. Árásarmennirnir eru taldir heyra til Ansar al-Islam sem er sami öfgahópurinn og ber ábyrgð á svipuðum árásum á bloggara sem fjalla um femínisma, trúleysi, vísindi og önnur veraldleg málefni.

Rúmlega ár er liðið frá árásinni og þrátt fyrir fjölda sönnunargagna, þeirra á meðal upptökur úr eftirlitsbúnaði og vitnisburð sjónarvotta, hefur enginn verið ákærður fyrir morðin. Í þokkabót við  seinagang lögreglunnar hafa stjórnvöld flutt ábyrgðina yfir á fórnarlömbin. Stuttu eftir morðið á Xulhaz og vini hans lýsti ráðherra landsins því yfir að hreyfingar sem stuðluðu að „óeðlilegu kynlífi“ væru bannaðar í Bangladess.

Þessi tregða og viljaleysi við að finna og ákæra morðingja Xulhaz sendir hrikaleg skilaboð til LGTBIQ aðgerðasinna og annarra í Bangladess sem reyna að ögra óbreyttu ástandi. Eins og bróðir Xulhaz sagði „þá sýnir aðgerðaleysi lögreglunnar að stjórnvöldum stendur nákvæmlega á sama … og þau trúa því að þetta mál [náin sambönd samkynhneigðra] hafi liðið undir lok með Xulhaz“.

Krefðu stjórnvöld í Bangladess um að láta hina seku sæta ábyrgð.

 

Þú getur skráð þig í SMS-aðgerðanetið hér: http://www.amnesty.is/taktu-thatt/sms-adgerdarnetid/