Madagaskar: Dæmdur fyrir að vernda regnskóg í hættu

SMS-mál september 2017

Clovis Razafimalala hefur dálæti á regnskógum Madagaskar. Hann er tveggja barna faðir og umhverfisverndarsinni sem leggur sig allan fram við að vernda rúbínrauðu rósviðartrén sem eru þar í hættu. Hópur spilltra smyglara svífst einskis til að þagga niður í Clovis og hans líkum. Smyglararnir geta hagnast um milljarða dollara af ólöglegri sölu á þessum undurfögru trjám.

Þrátt fyrir lög sem banna sölu er svarti rósviðarmarkaðurinn arðsamur og það eflir áhrif smyglaranna. Clovis og aðrir aðgerðasinnar veita þeim viðnám af miklu hugrekki en á sama tíma líta stjórnvöld undan.

Baráttan er þeim dýrkeypt. Í september 2016 var Clovis fangelsaður og sakaður um að hafa verið í fararbroddi í ofbeldisfullum mótmælum. Vitni sögðu að hann hefði verið á veitingastað á sama tíma en þau voru aldrei yfirheyrð í rannsókninni.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Clovis hefur verið skotmark yfirvalda. Árið 2009 var eldsprengju kastað á hús hans. Honum hafa ítrekað verið boðnar mútur, sem hann hefur ávallt hafnað, til að hann hætti að verja hina hverfandi skóga Madagaskar.

Í júlí 2017 var Clovis sakfelldur vegna rangra sakargifta og hefur fengið fimm ára skilorðsbundinn dóm. Vogi hann sér að halda áfram aðgerðastarfi sínu á hann á hættu að verða settur í fangelsi.

SMS-félagar krefja stjórnvöld í Madagaskar um að ógilda dóm Clovis.

Þú getur skráð þig í SMS-aðgerðanetið hér: http://www.amnesty.is/taktu-thatt/sms-adgerdarnetid/