• © Giorgos Moutafis/Amnesty International

Grikkland: Konur og börn í flóttamannabúðum í Elliniko í mikilli hættu

SMS-aðgerð maí

Yfir þúsund flótta- og farandfólk, þar á meðal börn, býr við skelfilegar og óöruggar aðstæður í þremur flóttamannabúðum. Búðirnar eru á tveimur stöðum, annars vegar á gömlu ólympíusvæði og hins vegar í komusal á ónotuðum flugvelli á Elliniko-svæðinu í Aþenu, höfuðborg Grikklands. Íbúar flóttamannabúðanna, sem flestir eru frá Afganistan, hafa búið í tjöldum í meira en ár þar sem hreinlæti er verulega ábótavant, sturtu- og klósettaðstaða ófullnægjandi og takmarkað næði. Íbúar kvarta undan rottugangi og kakkalökkum. Mannúðarstarfsfólk sem vinnur í búðunum segir þessar aðstæður ýta undir andleg veikindi eins og þunglyndi, kvíða og sjálfsvígstilraunir.

„Allir eru að missa vitið í Elliniko,“ sagði flóttakona í samtali við Amnesty International í mars. 

Óöryggi er mikið áhyggjuefni í flóttamannabúðunum, sérstaklega fyrir konur og börn sem segjast verða fyrir stöðugu munnlegu áreiti og eiga í hættu á að sæta kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi. Skortur er á eftirliti á því hverjir hafa aðgang að flóttamannabúðunum og lögreglan bregst ekki við öryggisatvikum sem eiga sér stað innan þeirra. Týndir lásar á hurðum margra sturtuklefa og salerna fyrir konur og að sofa í tjöldum án öryggisgæslu, gerir búðirnar sérstaklega hættulegar fyrir konur og stúlkur. Amnesty International hefur eftir mörgum konum að þær lifi í stöðugum ótta við að verða fyrir árásum í tjöldum sínum, á salernum og í sturtuklefum. 

Fjölmiðlar hafa greint frá því að stjórnvöld hyggist loka flóttamannabúðunum en íbúar segjast ekki hafa fengið upplýsingar um tímasetningu hugsanlegra lokana né að samráð hafi verið haft við þá um önnur úrræði.

Grísk stjórnvöld verða tafarlaust að útvega annað viðeigandi húsnæði í samráði við íbúana og tryggja þátttöku kvenna og stúlkna að úrlausn mála. Enginn ætti að verða heimilislaus eða eiga á hættu að sæta annars konar mannréttindabrotum vegna lokunar flóttamannabúðanna. 

SMS-félagar krefjast þess að grísk stjórnvöld útvegi íbúum flóttamannabúðanna í nágrenni Elliniko viðeigandi húsnæði í samráði við íbúanna og tryggi að konur og stúlkur séu með í ráðum. Þeir krefjast þess einnig að stjórnvöld grípi til viðeigandi öryggisráðstafana til þess að tryggja öryggi og heilsu íbúa, með sérstöku tilliti til kvenna og stúlkna, þar til annað viðeigandi húsnæði verður útvegað. Auk þess er þess krafist að enginn verði heimilislaus eða eigi á hættu að sæta mannréttindabrotum vegna lokunar flóttamannabúðanna.

Þú getur skráð þig í SMS-aðgerðanetið hér: http://www.amnesty.is/taktu-thatt/sms-adgerdarnetid/