Haítí: Baráttukona gegn heimilis- og kynferðisofbeldi fær líflátshótanir

Sanièce Petit Phat starfar fyrir kvennasamtökin MOFALAK á Canaan-svæðinu í úthverfi Port-au-Prince á Haítí, landssvæði sem var breytt í byggð eftir jarðskjálftann 2010 sem lagði stóran hluta höfuðborgarinnar í rúst. Samtökin eru þekkt fyrir að berjast á móti ofbeldi gegn konum og stúlkum.

Í júlí 2016 tilkynnti Sanièce Petit Phat að hún hefði fengið líflátshótanir gegn sér og fjölskyldu sinni frá nágranna sínum. Hann hefur verið sakaður um heimilisofbeldi gegn eiginkonu sinni og óttaðist að samtökin gætu tilkynnt hann til yfirvalda.

Í október réðst þessi nágranni á frænda hennar sem býr með henni og þurfti að fara með hann á sjúkrahús til að hlúa að sárum hans. Hann sagði að árásarmaðurinn hefði sagt að hann myndi halda áfram þar til Sanièce Petit Phat og fjölskylda yfirgæfu svæðið. Eftir árásina lagði Sanièce Petit Phat fram kvörtun og var árásarmaðurinn handtekinn þann 17. október en stuttu síðar leystur úr haldi. Ekki er vitað um ástæður fyrir lausn hans en Sanièce Petit Phat óttast um líf sitt og fjölskyldu sinnar. Hún er í felum á daginn og flytur sig milli húsnæða á nóttunni.

SMS-félagar krefjast þess að Sanièce Petit Phat og aðrir meðlimir MOFALAK fái vernd strax í samræmi við beiðni þeirra. Einnig er þess krafist að gerð verði rannsókn á árásinni og líflátshótununum og að öryggi verði bætt á Canaan-svæðinu , þá sérstaklega fyrir konur og stúlkur og aðra viðkvæma hópa.

 

Þú getur skráð þig í SMS-aðgerðanetið hér: http://www.amnesty.is/taktu-thatt/sms-adgerdarnetid