Egyptaland: Handtekin fyrir að leita að týndum eiginmanni sínum

SMS-aðgerð nr. 3 september

Líf Hanan Badr el-Din breyttist í júlí 2013 þegar eiginmaður hennar hvarf. Hún sá hann síðast í sjónvarpinu þar sem hann lá særður á spítala eftir að hafa mætt á mótmæli. Þegar hún kom á spítalann gat hún ekki fundið hann. Hún leitaði á lögreglustöðvum, í fangelsum, sjúkrahúsum og líkhúsum. Enginn gat sagt henni hvað hefði komið fyrir hann.

Eiginmaður hennar er einn af hundruðum fólks sem hverfur af völdum öryggissveita Egyptalands. Áætlað er að dag hvern séu þrír til fjórir, flestir pólitískir aðgerðasinnar, nemendur, mótmælendur og jafnvel skólabörn niður í 14 ára aldur, teknir af egypsku lögreglunni eða hernum og sjáist aldrei aftur. Egypsk stjórnvöld halda því samt sem áður fram að mannshvörf eigi sér ekki stað í landinu.

Hanan lét ekki deigan síga. Hún var staðráðin í því að finna eiginmann sinn og það leiddi hana til ástvina annarra sem höfðu horfið. Árið 2014 var hún einn af stofnendum hóps sem hafði það að leiðarljósi að komast að því hvað byggi á bak við mannshvörfin og nú er hún í fararbroddi í leitinni að hinum horfnu í Egyptalandi. Síðasta tilraun hennar til að fá upplýsingar um eiginmann sinn varð til þess að hún var handtekin og ranglega ákærð fyrir að vera félagi í bönnuðum hópi. Það gæti þýtt að minnsta kosti fimm ár í fangelsi.

SMS-félagar krefja stjórnvöld í Egyptalandi um að fella niður allar ákærur og leysa Hanan úr haldi án tafar og skilyrðislaust. 

Þú getur skráð þig í SMS-aðgerðanetið hér: http://www.amnesty.is/taktu-thatt/sms-adgerdarnetid/