KAMERÚN: STJÓRNVÖLD Í KAMERÚN PYNDA SAKLAUSA ÍBÚA

Í átökum sínum við hryðjuverkahópinn Boko Haram hafa yfirvöld í Kamerún komið á fót leynilegum pyndingarklefum í norðurhluta landsins. Íbúar í norðurhluta Kamerún eiga á hættu að vera handahófskennt handteknir, fluttir í klefana og pyndaðir í marga mánuði fyrir það eitt að vera á röngum stað á röngum tíma. 

Stjórnvöld í Kamerún eiga í átökum við vígasveitir Boko Haram og gera hvað sem er til að vinna bug á ofbeldisverkum og ofsóknum þeirra, meðal annars að handsama sína eigin þegna án sönnunargagna um tengsl þeirra við vígasveitirnar. Fólk sem grunað er um stuðning við Boko Haram, er handsamað á götum úti og pyndað þangað til það játar.

Mörg fórnarlambanna eru karlmenn úr Kanuri-ættbálknum úr norðurhluta landsins en einnig eru konur, ungmenni og fólk með geðraskanir í hópi þeirra handsömuðu. Fólkið er oftast fært á ólöglegar varðhaldsstöðvar eða í sérútbúna pyndingarklefa þar sem það sætir pyndingum, er niðurlægt, því ógnað og refsað. Fólk er lamið með prikum, rafköplum og sveðjum, þvingað í álagsstöður fyrir líkamann dögum saman, hengt upp á höndum og fótum og beitt vatnspyndingum. Sumir lifa þessar hryllilegu misþyrmingar ekki af!

SMS – félagar hvetja stjórnvöld í Kamerún til að stöðva pyndingarnar strax, fá óháða aðila til að rannsaka handtökurnar og veita þeim sem hafa verið handteknir aðgang að lögfræðingum, heilbrigðisþjónustu og fjölskyldum sínum.

Skráðu þig í sms-aðgerðarnetið hér