Kasakstan: Mannréttindasinni vistaður á stofnun fyrir geðfatlaða

Þann 15. mars var Ardak Ashym, bloggari og aðgerðarsinni frá Shymkent í Suður-Kasakstan, borin út af heimili sínu og send í geðrannsókn. Henni var tilkynnt að hún væri ákærð fyrir að hvetja til meðal annars félagslegs og trúarlegs ósættis samkvæmt 174. grein refsilaga í Kasakstan. Ákærurnar hafa þó breyst og er hún nú ákærð fyrir að hafa móðgað embættismann á samfélagsmiðlum í samræmi við 378. grein refsilaganna. Ekki er skýrt hvern hún á að hafa móðgað.

Þann 27. mars var Ardak úrskurðuð og henni gert að dvelja á heimili fyrir geðfatlaða á meðan málsmeðferð stendur vegna þess að hún hefur þjáðst af geðklofa síðan árið 2015. Einnig kom fram að hún sæti rannsókn fyrir birtingu á allskonar efni sem vinnur gegn stjórnvöldum á Facebook síðu sinni. Ardak vissi ekki af úrskurðinum fyrr en 31. mars þegar henni var stefnt og gert að mæta á lögreglustöð í yfirheyrslu. Hún var í framhaldi vistuð á stofnun fyrir geðfatlaða.

Fjölskylda Ardak fékk ekki að sjá hana í þrjá daga eftir að hún var vistuð á stofnun og tvívegis hefur vistun hennar verið framlengd um mánuð, nú síðast þann 26. apríl af héraðsdómstólnum í Shymkent-héraði. Réttarhöldin eiga að fara fram snemma í júní í Shymkent-héraði. Ef Ardak er fundin sek getur hún átt yfir höfði sér 75 daga í fangelsi og sekt upp á sem samsvarar 2200 dollurum. Fjölskylda Ardak heldur því fram að hún sé heilbrigð og eigi ekki við geðræn vandamál að stríða.

Þar sem Ardak Ashym er í haldi einungis vegna tjáningar á skoðunum sínum á friðsælan hátt skilgreinir Amnesty hana sem samviskufanga.

SMS-félagar hvetja stjórnvöld til að leysa Ardak strax úr haldi og láta allar kærur niður falla. Einnig að hún fái að hitta fjölskyldu sína og lögmann og að hún hljóti óháða geðrannsókn ef hún þess óskar.

Skráðu þig í SMS-aðgerðarnetið hér!