Mexíkó: 14 ára piltur beittur grófu lögregluofbeldi

Að ganga örugg heim úr skóla er ekki sjálfsagt fyrir börn í Mexíkó, José Adrián var ekki þeirrar gæfu aðnjótandi. Fyrir tveimur árum var hann beittur ofbeldi sem veldur honum vanlíðan enn þann dag í dag, ástæðan er sú að árásarmennirnir, lögreglumenn á svæðinu, ganga enn lausir.

José Adrián er 16 ára gamall drengur af Maja ættum búsettur í bænum X-Can í Yucatan fylki í Mexíkó. Hann er með slæma heyrn sem veldur oft erfiðleikum í samskiptum. Þann 25. febrúar 2016, þá 14 ára gamall, var hann handtekinn af handahófi og honum misþyrmt af lögreglunni.

José var á leið heim úr skóla stuttu eftir að hópur drengja í nágrenninu hafði átt í áflogum og kastað steinum í átt að lögreglubíl. Í stað þess að José hafi hlotið vernd og notið öryggis þegar lögregluna bar að garði var hann handtekinn og barinn, stigið var á höfuð hans og hlaut hann meiðsl á hálsi. Hann var afklæddur, tekinn úr skónum og settur í fangaklefa í nálægum bæ að nafni Chemax þar sem hann var handjárnaður upp við vegg og látinn dúsa í nokkrar klukkustundir.

Foreldrar hans, sem heyrðu af ódæðinu frá nágrönnum sem urðu vitni að ofbeldinu, þurftu bæði að greiða sekt og fyrir skemmdir á lögreglubílnum til þess að fá hann lausan.

Í kjölfar ofbeldisins hefur José þurft að flytjast búferlum með föður sínum til borgarinnar Cancún í Quintana Roo fylki. Hann hefur átt í erfiðleikum með að ná sér eftir þessa reynslu.

Fjölskyldan hefur ákveðið að taka þessum atburði ekki þegjandi og hljóðalaust heldur krefjast réttlætis. Þau hafa ítrekað óskað eftir að aðilar innan lögreglunnar lýsi yfir ábyrgð á ofbeldinu og að José fái skaðabætur en hingað til hefur ekki verið á þau hlustað.

José Adrián er einn af fjölmörgum þolendum harðræðis af hálfu lögregluyfirvalda í heiminum. Við getum lagt fjölskyldu hans lið með því að skrifa undir ákall Amnesty.

Sms félagar krefjast þess að yfirvöld á svæðinu gangist við verknaðinum og greiði þeim viðeigandi skaðabætur, að málið verði rannsakað og laganna verðir sem þarna voru þarna að verki verði sóttir til saka.

Skráðu þig í sms-aðgerðarnetið hér