Myanmar: Tveir blaðamenn í haldi fyrir rannsóknarblaðamennsku

Tveir blaðamenn sem hafa verið í haldi í sjö mánuði hafa nú verið formlega ákærðir í tengslum við rannsóknarblaðamennsku. Þeir standa frammi fyrir allt að 14 ára fangelsisvist. Leysa þarf þá úr haldi án tafar!

Þann 9. júlí síðastliðinn voru Wa Lone og Kyaw Soe Oo, tveir blaðamenn Reuters, ákærðir fyrir að ógna ríkinu. Þeir hafa verið í haldi frá því 12. desember 2017 stuttu eftir að lögreglumenn afhentu þeim boð í kvöldverð. Á þessum tíma voru tvímenningarnir að rannsaka grimmilegar ofsóknir hersins gegn Rohingja-minnihlutahópnum í norðurhluta Rakhine-fylkis sem varð til þess að 700.000 manns flúðu til Bangladess.

Blaðamönnunum tveimur var haldið í einangrun fyrstu tvær vikurnar án aðgangs að lögfræðingi eða fjölskyldu. Í apríl sagði lögreglumaður, sem var vitni saksóknara, frá því að honum og samstarfsfélögum hefði verið skipað að leggja gildru fyrir blaðamennina en þrátt fyrir það neitaði dómari að vísa málinu frá.

Fjölmiðlafrelsi í Myanmar hefur farið minnkandi síðustu tvö ár og þrengt hefur verið að störfum fjölmiðlafólks. Þeir einstaklingar sem fjalla um viðkvæm málefni, þá sérstaklega í tengslum við misbeitingu hersins, málefni Rohingja og skort á trúfrelsi verða fyrir hótunum og áreitni. Í sumum tilfellum eru þeir handteknir, ákærðir og fangelsaðir.

SMS-félagar krefjast þess að Wa Lone og Kyaw Soe Oo verði leystir úr haldi án tafar og tryggt verði að fjölmiðlafólk geti starfað í friði! Einnig er kallað eftir því að gerðar verði lagabreytingar til að tryggja tjáningarfrelsi í landinu í samræmi vð alþjóðleg lög. 

Skráðu þig í SMS-aðgerðanetið hér