Níger: Mannréttindasinnar handteknir og enn í haldi

Moussa Tchangari framkvæmdastjóri mannréttindasamtakanna Alternative Citizen Spaces (AEC) sem vinna að efnahagslegum og félagslegum réttindum í Níger var handtekinn þann 25. mars síðastliðinn. Nokkrum tímum síðar voru Ali Idrissa, fulltrúi regnhlífarsamtaka um gagnsæi í fjármálum (ROTAB) og Nouhou Arzika, forseti samtaka sem snúa að ábyrgðarfullum ríkisborgurum (MPCR) líka handteknir. Lögfræðingurinn og aðgerðarsinninn Lirwana Abdourahamane var handtekinn sama dag þegar hann yfirgaf sjónvarpsstöðina Labari, þar sem hann hafði tekið þátt í umræðum um mótmæli sem höfðu verið skipulögð af borgaralegum samtökum.

Mannréttindasinnarnir voru allir handteknir í tengslum við friðsæl mótmæli. Ali Idrissa, Nouhou Arzika og Moussa Tchangari skipulögðu mótmæli til að hvetja til afnáms fjárlaga 2018. Þeir voru ákærðir fyrir að skipuleggja og taka þátt í mótmælum sem höfðu verið bönnuð, aðild að ofbeldi, árás og eyðileggingu þrátt fyrir að enginn þeirra hafi mætt á mótmælin. Þeir voru fluttir í mismunandi fangelsi og eru allir í miklum fjarlægðum frá fjölskyldum sínum.

Sett hafði verið bann á mótmælin af borgarstjóra Niamey, höfuðborg Níger, þann 23. mars vegna „augljósra öryggisástæðna“ og í ljósi öryggismála í Níger en einnig vegna nýlegra hryðjuverkaárása. Mótmæli þeirra sem studdu lögin, sem haldin voru snemma í mars voru hins vegar ekki bönnuð. Snemma morguns 25. mars söfnuðust mótmælendur saman þrátt fyrir þetta bann. Þar mættu þeir herliði sem hafði umkringt svæðið þar sem mótmælin áttu að fara fram. Notað var táragas til að tvístra hópnum og mikil læti brutust út. Í kjölfarið voru 19 mótmælendur handteknir.

SMS-félagar krefjast þess að stjórnvöld leysi strax úr haldi ofangreinda mannréttindasinna sem eru í haldi eingöngu vegna friðsæls mannréttindastarfs þeirra og einnig aðra mótmælendur sem eru í haldi eingöngu fyrir að nýta tjáningarfrelsi sitt. Þeir biðja stjórnvöld líka að tryggja að þetta fólk fái aðgang að lögfræðingum, fjölskylduheimsóknum, læknisaðstoð og verði ekki beitt slæmri meðferð af neinu tagi. Þeir hvetja stjórnvöld einnig til að tryggja að aðgerðasinnar og mannréttindasinnar í Níger geti haldið áfram starfi sínu án þess að finna fyrir ótta. 

Skráðu þig í SMS-aðgerðarnetið hér .