Jemen: Tveir menn sæta þvinguðu mannshvarfi

SMS-aðgerð-janúar

Heshmat Alah Ali Mohammad Sabet Sarvestani og tengdasonur hans Nadim al-Sakkaf eru í haldi án ákæru og hafa sætt þvinguðu mannshvarfi frá því 11. janúar síðastliðinn. Þeim hefur verið haldið í einangrun á óþekktum stað án þess að hafa aðgang að fjölskyldu sinni eða lögfræðingi sem veldur áhyggjum um að þeir eigi hættu á að sæta pyndingum eða annarri illri meðferð.    

Þann 11. janúar síðastliðinn keyrði tengdasonur Heshmat hann á alþjóðlega flugvöllinn í borginni Aden í suðurhluta Jemen. Heshmat átti flug með flugfélaginu Yemenia til Dúbaí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum þar sem að hann ætlaði að endurnýja íranskt vegabréf sitt og sækja sér læknisþjónustu. Heshmat er 75 ára og þjáist af ýmsum kvillum, þar á meðal háþrýstingi og brjósklosi. Um klukkan tvö þann 11. janúar þegar þeir voru við innritunarborðið kom til þeirra borgaralega klæddur flugvallarstarfsmaður sem leiddi Nadim inn á skrifstofu til yfirheyrslu. Hesmat var kallaður inn á sömu skrifstofu stuttu síðar. Hvorugur mannanna hefur sést síðan. Stjórnvöld í Jemen neita að gefa upp staðsetningu þeirra.

SMS-félagar þrýsta á stjórnvöld í Jemen að upplýsa þegar í stað um örlög og staðsetningu Heshmat Alah Ali Mohammad Sabet Sarvestani og Nadim al-Sakkaf. Þeir krefja stjórnvöld einnig um að sleppa þeim tafarlaust og án skilyrða úr haldi nema að þeir verði ákærðir fyrir glæp sem viðurkenndur er í alþjóðlegum lögum. Ennfremur þrýsta þeir á stjórnvöld í Jemen að tryggja þeim aðgang að lögfræðingi, fjölskyldu sinni og að þeir sæti ekki pyndingum og annarri illri meðferð.

Þvinguð mannshvörf eru meðal alvarlegustu mannréttindabrota heims en skýrt er kveðið á um bann við slíkum brotum í alþjóðalögum. Það kallast „þvingað mannshvarf“ þegar stjórnvöld svipta fólk frelsi sínu, halda því í leynilegu varðhaldi og neita að upplýsa um örlög þeirra eða dvalarstað, eða svipta það lífi.

Þú getur skráð þig í SMS-aðgerðanetið hér: http://www.amnesty.is/taktu-thatt/sms-adgerdarnetid/