Íran: yfirvofandi aftaka ungs manns sem var undir aldri við handtöku

SMS-aðgerð-febrúar

Taka á Hamid Ahmadi af lífi 19. febrúar næstkomandi fyrir líkamsárás sem leiddi til dauða ungs manns í slagsmálum fimm drengja í borginni Siahkal árið 2008 þegar hann var aðeins 17 ára. Þann 28. janúar var Hamid fluttur í einangrun í Lakan-fangelsið í norðurhluta Írans til að undirbúa aftöku hans. 

Þetta er í þriðja skipti sem aftaka hans hefur verið tímasett og hann látinn sæta þeirri sálarangist sem fylgir undirbúningi fyrir aftöku. Síðast átti það sér stað í maí 2015 en þá var aftöku hans frestað á síðustu stundu vegna þrýstings frá almenningi. Í kjölfarið var Hamid veitt endurupptaka í júní 2015 sem byggði á nýjum ákvæðum íslamskra refsilaga frá 2013 um refsingar ungra afbrotamanna. Hann var engu að síður dæmdur til dauða í annað sinn í desember 2015.  

Hamid, sem er 26 ára, var fyrst dæmdur til dauða í ágúst 2009 eftir að refsiréttur í Gilan-héraði úrskurðaði hann sekan um morð. Hæstiréttur breytti úrskurðinum upphaflega vegna efasemda um vitnisburð nokkurra aðalvitna í nóvember 2009 en staðfesti dóminn síðan í nóvember 2010.

Réttarhöld Hamid voru óréttlát þar sem að rétturinn studdist við játningar sem fengnar voru fram á lögreglustöð án þess að Hamid hefði aðgang að lögfræðingi eða fjölskyldu sinni. Hann var barn á þeim tíma og því ólíklegt að hann hafi gert sér grein fyrir afleiðingum játningar sinnar hjá lögreglunni. Hamid heldur því jafnframt fram að játning hafi verið knúin fram með pyndingum og annarri illri meðferð. Ekki er vitað til þess að nein rannsókn hafi farið fram á ásökunum hans. 

Beiting dauðarefsingar á einstaklingum undir 18 ára aldri er brot á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Auk þess er það brot á alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi að leggja það í hendur dómara hvort beita eigi dauðarefsingu í málum ungra afbrotamanna.

SMS-félagar þrýsta á yfirvöld í Íran að stöðva aftöku Hamid Ahmadi og breyta dómi hans. Auk þess kalla þeir eftir að ásakanir hans um pyndingar og illa meðferð verði rannsakaðar.

Þú getur skráð þig í SMS-aðgerðanetið hér: http://www.amnesty.is/taktu-thatt/sms-adgerdarnetid/