• © SALEH AL-OBEIDI/AFP/Getty Images

Bresk og bandarísk stjórnvöld stöðvi vopnaflutning til Jemen

SMS-aðgerð-mars

Börn í Jemen alast upp í landi sem hefur verið lagt í rúst vegna langra stríðsátaka. Borgarastyrjöldin sem hófst árið 2011 en náði hámæli í fyrra hefur aukið enn frekar á hörmungarnar.

Bresk og bandarísk stjórnvöld eiga stóran þátt í því að réttur barna til öryggis og menntunar í Jemen er þverbrotinn með því að sjá hernaðarbandalagi undir stjórn Sádí-Arabíu fyrir vopnum.

Yfirstandandi átök eru að mestu á milli ríkisstjórnar landsins, undir forystu forsetans Abd Abbu Mansour Hadi, og vopnaðs minnihlutahóps Húta frá norðurhluta landsins. Þegar Hútar tóku yfir stjórn höfuðborgarinnar Sana í september árið 2014 flúði forseti Jemen til Sádí-Arabíu og óskaði eftir stuðningi þarlendra stjórnvalda. Hútar njóta stuðnings Írana í þeim blóðugu átökum sem geisa í landinu.

Sádí-Arabía myndaði bandalag með nokkrum nágrannaríkjum til að grípa inn í átökin í Jemen fyrir hönd ríkisstjórnar Hadis sem hafði verið komið frá völdum og hóf hernaðarbandalagið linnulausar sprengjuárásir í mars 2015.

Eyðilegging, ótti og þjáningar eru hluti af daglegu lífi borgara í Jemen. Börn eru hvergi óhult en þau telja einn þriðja látinna í landinu frá því að hernaðarbandalag Sádí-Arabíu hóf árásir í Jemen. Samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðanna hafa a.m.k. 12.000 íbúar Jemen látið lífið frá því að hernaðarbandalagi Sádí-Arabíu var komið á laggirnar, flestir þeirra eru börn.

 „Þessi tveggja ára átök hafa neytt þrjá milljónir manna til að flýja heimili sína, lagt í rúst líf þúsunda almennra borgara og stendur Jemen nú frammi fyrir mannúðarkrísu sem hefur skilið meira en 18 milljónir manna í sárri þörf á aðstoð. Þrátt fyrir að milljónir dollara hafi verið veitar í alþjóðlega aðstoð til Jemen, hafa þau ríki sem hafa haldið áfram að útvega vopn fyrir milljarða aukið á þjáningu íbúa landsins,“ segir Lynn Maalouf staðgengill framkvæmdastjóra rannsóknarteymis Amnesty International á svæðisskrifstofunni í Beirut.  

Oft er talað um stríðsátökin í Jemen sem „hið gleymda stríð“. Við megum ekki gleyma og við getum ekki lokað augunum fyrir þeim hörmungum sem íbúar Jemen standa frammi fyrir.

SMS-félagar krefjast þess að bresk og bandarísk stjórnvöld fylgi alþjóðalögum og stöðvi án tafar vopnaflutning til stríðandi fylkinga í Jemen. Auk þess krefjast þeir að bresk og bandarísk stjórnvöld styðji við óháða alþjóðlega leið til að rannsaka staðhæfingar um brot á alþjóðalögum stríðandi fylkinga og tryggi að hinir ábyrgu verði sóttir til saka. 

Þú getur skráð þig í SMS-aðgerðanetið hér: http://www.amnesty.is/taktu-thatt/sms-adgerdarnetid/