• Mynd af eiginmanni og syni Fadwa Mahmoud sem sættu þvinguðu mannshvarfi.

Sýrland: Heimurinn verður að bregast við í kjölfar gasárásinnar

SMS-aðgerð apríl

Sífellt fleiri sönnunargögn berast nú sem benda til þess að taugagas hafi verið notað í eiturvopnaárás sem varð til þess að 70 manns létust og hundruð óbreyttra borgara slösuðust í Khan Sheikhoun í Idleb-héraði í norðanverðu Sýrlandi. 

Mörg fórnarlömb árásarinnar, sem átti sér stað um klukkan hálf sjö um morguninn að staðartíma, þriðjudaginn 4. apríl, virðast hafa orðið fyrir eitrun þegar þau sváfu í rúmum sínum. Eiturefnasérfræðingar sem vinna með Amnesty International hafa staðfest að mjög líklegt sé að fórnarlömbin hafi sætt taugagasárás, eða efni eins og saríni. Sérfræðingar telja ekki að klórgas hafi verið notað eins og í fyrri efnavopnaárásum í landinu.

Enda þótt rússnesk og sýrlensk yfirvöld haldi því fram að þau beri ekki ábyrgð á árásinni þá verður rannsókn að eiga sér stað þar sem borin eru kennsl á þá sem ábyrgð bera á ódæðinu og þeir sóttir til saka. Frá árinu 2013 hefur stjórnarher Sýrlands og vopnaðir hópar beitt nokkrum efnavopnaárásum gegn óbreyttum borgurum en engin hefur sætt ábyrgð.

Stríðsátökin í Sýrlandi hafa valdið dauða hundruð þúsunda og knúið milljónir til að flýja heimili sín.

Enn hefur enginn sætt ábyrgð vegna voðaverkanna og óbreyttir borgarar halda áfram að þjást á degi hverjum.

Það er löngu tímabært að þolendur og fjölskyldur þeirra njóti réttlætis og skaðabóta. Það er löngu tímabært að refsa fyrir stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni.

SMS-félagar krefjast þess að Sameinuðu þjóðirnar hrindi tafarlaust í framkvæmd fyrirkomulagi til aðstoðar við rannsókn á stríðsglæpum og sakfellingu þeirra sem grunaðir eru um stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni. Ef réttlætið nær ekki fram að ganga er hætta á að árásir eins sú sem framin var þann 4. apríl síðastliðinn verði endurteknar. 

Þú getur skráð þig í SMS-aðgerðanetið hér: http://www.amnesty.is/taktu-thatt/sms-adgerdarnetid/