Tyrkland: Fellið niður ákærur gegn honum og verndið hann

SMS-aðgerð apríl

Næstu réttarhöld gegn tískuhönnuðinum og LBGTI aðgerðarsinnanum Barbaros Sansal fara fram þann 1. júní næstkomandi.Barbaros er sóttur til saka á grundvelli 216. greinar hegningarlaga fyrir að „hvetja almenning til haturs eða ófriðar” með myndbandsskilaboðum og tísti sem hann deildi á samfélagsmiðlum þann 31. desember 2016. 

Þann 1. mars síðastliðinn kvað dómstóll í Tyrklandi upp úrskurð um lausn Barbaros úr haldi með þeim skilyrðum að hann sætti farbanni en Barbaros hafði setið í varðhaldi frá 3. janúar síðastliðnum. Þegar Barbaros var leystur úr haldi þakkaði hann félögum Amnesty International fyrir og sagði: „Við þurfum meira frelsi, ekki minna. Ég er jákvæður þrátt fyrir þá hryllilegu reynslu sem ég varð fyrir þegar mér var vísað úr landi frá norðurhluta Kýpur þar sem að ráðist var á mig og ég slasaðist á malbikinu á flugvellinum. Ég hef áður orðið vitni að undirokun, þegar herinn rændi völdum árið 1980. Ég trúi því að þetta tímabil muni einnig líða hjá. Við eigum bjartari daga fyrir höndum.“  

Þann 3. mars sendi Barbaros beiðni til ríkisstjóraembættisins í Istanbúl um vernd en honum hafa borist hótanir og hefur ástæðu til að óttast frekari líkamsárásir. Barbaros er því hræddur við að yfirgefa heimili sitt. Hingað til hefur ósk hans um vernd ekki verið svarað.

Bæði myndbandsskilaboðin og tístið sem Barbaros viðurkennir að hafa deilt á samfélagsmiðlum falla undir rétt einstaklinga til tjáningarfrelsis og ættu því ekki að leiða til saksóknar. Við fyrsta málflutning, þann 16. mars síðastliðinn, bar Barbaros við sakleysi og mótmælti ferðabanninu sem kemur í veg fyrir að hann geti sinnt vinnu sinni. Dómarinn kvað upp þann úrskurð að ferðabannið væri í gildi. Þann 17. mars mótmælti lögfræðingur Barbaros svo niðurstöðu dómsins en ekki liggur enn fyrir niðurstaða þeirra mótmæla.

SMS-félagar krefjast þess að tyrknesk stjórnvöld felli niður ákærur á hendur Barbaros Sansal án tafar og skilyrðislaust og aflétti ferðabanni hans. Þeir krefjast þess einnig að ríkisstjóraembættið í Istanbúl tryggi öryggi Barbaros og veiti vernd í samræmi við óskir hans. Auk þess er þess krafist að dómsmálaráðuneyti Tyrklands hefji rannsókn á líkamsárásinni sem Barbaros varð fyrir og þeim hótunum sem honum hefur borist.

Þú getur skráð þig í SMS-aðgerðanetið hér: http://www.amnesty.is/taktu-thatt/sms-adgerdarnetid/