Súdan: Mannréttindafrömuður stendur frammi fyrir dauðarefsingu

Doktor Mudawi Ibrahim Adam stendur frammi fyrir sex kærum á hendur sér, þar af tveimur sem geta leitt til dauðarefsingar eða lífstíðarfangelsis. Dr. Mudawi var handtekinn þann 7. desember árið 2016 og hefur verið í haldi síðan vegna baráttu sinnar fyrir mannréttindum í Súdan.

Þann 11. maí síðastliðinn kærði ríkissaksóknari Dr. Mudawi Ibrahim Adam fyrir sex brot á lögum þar í landi. Hann er ákærður fyrir að grafa undan stjórnarskrá Súdan og hvetja til stríðs gegn ríkinu en bæði brotin geta leitt til dauðarefsingar eða lífstíðarfangelsis. Auk þessa er  hann ákærður fyrir njósnir, að ala á hatri gegn ríkinu, vera meðlimur glæpa- og hryðjuverkasamtaka og fyrir miðlun rangra upplýsinga. Seinni fjórar ákærurnar varða fangelsisvist í allt frá fjórum mánuðum til tíu ára. Ekki hefur verið ákveðið hvenær réttarhöldin fara fram en Dr. Mudawi er í haldi í fangelsi í Khartoum, þar sem hann hefur verið frá því í febrúar 2017.

Hafiz Edris Eldoma sem var á flótta frá Darfur-héraði í Súdan var handtekinn þann 24. nóvember 2016 á heimili Dr. Mudawi og ákærður fyrir sömu brot. Hann hefur einnig verið í haldi í Khartoum, þar sem hann hefur þurft að þola pyndingar og illa meðferð.

Dr. Mudawi var handtekinn þann 7. desember í fyrra í Háskólanum í Khartoum, þar sem hann gegnir stöðu prófessors í verkfræði. Hann hefur þjáðst af langvarandi öndunar- og hjartakvillum auk þess sem hann hefur verið pyndaður og þurft að þola illa meðferð.

Amnesty International hefur áður greint frá upplifun fólks í haldi í Khartoum-fangelsinu en þar er  fólki  yfirleitt haldið ásamt þrjátíu öðrum föngum í fimm metra löngum klefum. Engin loftræsting er í klefunum né ljós á nóttunni. Fangar eru yfirleitt í klefunum allan sólarhringinn, fá tvær máltíðir og geta einungis farið á salernið tvisvar sinnum yfir daginn.

Jafnvel þó að fangelsið í Khartoum sé viðurkennt opinberlega gengur aðstaðan í berhögg við lög og samrýmist hvorki súdönskum lögum né alþjóðalögum um viðunandi aðstæður í gæsluvarðhaldi. 

SMS-félagar krefjast þess að stjórnvöld í Súdan leysi Dr Mudawi Ibrahim Adam og Hafiz Edris Eldoma úr haldi án tafar. Þeir hvetja einnig stjórnvöld til að veita Dr Mudawu og Eldoma aðgang að lögmanni, fjölskyldum sínum og læknismeðferð. Einnig að pyndingar og ill meðferð sem þeir urðu fyrir í fangelsinu verði rannsakaðar og tryggt verði að þeir sæti ekki frekari pyndingum í fangelsi.