MEXÍKÓ: VERÓNICA RAZO HEFUR SÆTT PYNDINGUM OG SETIÐ Í FANGELSI Í SEX ÁR

Sms-aðgerð júní 2017

Í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi með fórnarlömbum pyndinga síðastliðinn mánudag vekur Íslandsdeild Amnesty International athygli á máli Verónicu Razo sem sætt hefur kerfisbundnum pyndingum og illri meðferð í Mexíkó af hálfu lögreglu og hers.

Verónica Razo hefur setið í fangelsi í sex ár án þess að hafa hlotið dóm. Þann 8. júní árið 2011, þegar Verónica yfirgaf heimili sitt til að sækja börnin sín úr skóla, nam hópur vopnaðra og óeinkennisklæddra manna hana á brott og færði í vöruhús á vegum alríkislögreglunnar í Mexíkó. Þar var hún barin, henni nauðgað, gefið raflost og nærri kæfð. Í framhaldinu var Verónicu haldið í 24 tíma og hún þvinguð til að skrifa undir játningu á glæpum sem engar sannanir liggja fyrir um að Verónica hafi framið.

Pyndingar og ill meðferð á konum af völdum lögreglu og hers í Mexíkó er landlæg og kerfisbundin. Í öllum tilvikum er brotið á konunum við handtöku og á klukkutímunum sem á eftir fylgja í þeim tilgangi að þvinga þær til að játa á sig alvarlega glæpi. Í mörgum tilfellum er sú illa meðferð sem þær sæta tilkomin af kynbundnum ástæðum. Af þeim 100 konum sem Amnesty International ræddi við á síðasta ári greindu 72 frá kynferðisofbeldi af einhverju tagi og 33 sögðust hafa sætt nauðgun. Allar konurnar sitja í fangelsi, ákærðar fyrir alvarlega glæpi sem byggir á játningu fengna fram með pyndingum. Ríkissaksóknari Mexíkó hefur brugðist því hlutverki sínu að rannsaka til hlítar mál þessara kvenna.

SMS-félagar taka undir ákall Amnesty International til ríkissaksóknara Mexíkó um að draga allar ákærur á hendur Verónicu til baka, leysa hana tafarlaust úr haldi og flýta fyrir rannsókn á lögreglumönnunum sem voru ábyrgir fyrir frelsissviptingu hennar og pyndingum.