Íran: Andlegur kennari á aftur á hættu að sæta dauðarefsingu

SMS-aðgerð júlí 2017

Hinn íranski, andlegi kennari, Mohammad Ali Taheri bíður eftir lokaniðurstöðu í máli sínu síðar í þessum mánuði en yfirvöld saka hann um að boða „spillingu á jörðinni”. Honum hefur verið haldið í einangrun í yfir sex ár í fangelsi í Teheran. Verði hann dæmdur sekur gæti hann átt yfir höfði sér dauðarefsingu.

Samviskufanginn Mohammad Ali Taheri hefur verið ákærður fyrir að boða spillingu á jörðinni (efsad-e fel arz) með andlegum hópi sínum Erfan-e Halgheh og kennslu sem hópurinn hefur staðið fyrir. Réttarhöldin yfir Mohammad Ali Taheri hófust þann 6. mars en þar beindi dómarinn skriflegum spurningum sínum til ákærða og bað hann að svara þeim skriflega í næstu fyrirtöku í málinu. Lögfræðingur hans býst við lokaniðurstöðu í lok júlí. Spurningarnar varða skrif Mohammad Ali Taheri um andlegan hóp sinn og störf hans. Fangelsismálayfirvöld hafa ekki viljað láta honum í té skrif sín sem hann telur vera nauðsynleg svo hann geti svarað spurningum dómarans.

Þetta er í þriðja skiptið sem Mohammad Ali Taheri stendur í réttarhöldum vegna ásakana um að boða spillingu á jörðinni. Fyrsta skiptið var árið 2011 þegar dómstóll í Teheran dæmdi hann í fimm ára fangelsi fyrir að lítilsvirða íslamskan helgidóm. Í því máli féllst dómstóllinn ekki á að Mohammad Ali Taheri væri boðberi spillingar enda frekari rannsókn nauðsynleg svo taka mætti það til skoðunar. Næstu fjögur árin var honum haldið í einangrun í fangelsi í Teheran og þar er hann enn jafnvel þó honum hafi átt að vera sleppt úr haldi í febrúar 2016, þegar hann hafði setið af sér dóminn. Ári áður, 2015, hafði hann aftur verið ákærður fyrir að boða spillingu og þess krafist að hann hlyti dauðadóm yrði hann dæmdur sekur. Dómstóll sýknaði hann af kröfum ákæruvaldsins. Mohammad Ali Taheri hefur þó enn ekki verið sleppt úr haldi, þrátt fyrir afplánun og síðar sýknu, því yfirvöld hafa aftur ákært hann fyrir að boða spillingu. Byggja þau ákæru sína á sömu ástæðum og urðu til þess að hann var dæmdur sekur árið 2011.

SMS-félagar krefjast þess að írönsk stjórnvöld sleppi Mohammad Al Taheri úr haldi, án tafar og skilyrðislaust, þar sem hann er samviskufangi og honum haldið í einangrun fyrir friðsamlegar athafnir sínar. Í því felst brot á tjáningar- og félagafrelsi hans.

Þess er einnig krafist að sjálfstæðir og óhlutdrægir aðilar rannsaki mál Mohammad Ali Taheri en meðferð á honum gengur í berhögg við bannið gegn pyndingum og illri meðferð. Þeir sem bera ábyrgð á málinu skulu sóttir til sakar.