• Federica Mogherini

Tyrkland: Fulltrúar ESB þrýsti á stjórnvöld í Tyrklandi vegna mannréttindabrota!

SMS-aðgerð júlí 2017

Dómstóll í Tyrklandi hefur úrskurðað Idil Eser, framkvæmdastjóra Tyrklandsdeildar Amnesty International og fimm aðra mannréttindafrömuði í gæsluvarðhald. Nú er lag að láta tyrknesk stjórnvöld hlusta á kröfur okkar!

Þann 25. júlí næstkomandi mun Federica Mogherini, æðsti fulltrúi ESB í utanríkismálum, eiga fund með Mevlüt Çavuşoğlu, utanríkisráðherra Tyrklands í Brussel. Á þessum fundi ber Federicu Mogherini að tala máli þess hugrakka fólks sem er ofsótt og situr nú í fangelsi fyrir það eitt að berjast fyrir réttlæti.

Þessar konur og karlmenn voru ákærð fyrir að „fremja glæp í nafni hryðjuverkasamtaka“, sem er afkáraleg og tilhæfulaus ásökun. Allir mannréttindafrömuðirnir hafa sýnt einstakt þor með því að tala máli mannréttinda í Tyrklandi og hafa ekkert sér til saka unnið.

Fangelsun Idil Eser og hinna mannréttindafrömuðanna á sér stað aðeins nokkrum vikum eftir að Taner Kiliç, formaður Tyrklandsdeildar Amnesty International, var úrskurðaður í gæsluvarðhald. Hann var ákærður fyrir aðild að hryðjuverkasamtökum Fethullah Gülen, þrátt fyrir algeran skort á sönnunum. Fjórir aðrir mannréttindafrömuðir sem upphaflega voru í haldi ásamt Idil Eser hafa verið leystir úr haldi gegn tryggingu en bíða rannsóknar.

SMS félagar skora á Federicu Mogherini að beita áhrifum sínum til að krefjast þess að bundinn sé endi á þessar pólitísku nornaveiðar og að mannréttindafrömuðir í Tyrklandi verði tafarlaust leystir úr haldi!

Sexmenningarnir sem sitja í varðhaldi og bíða réttarhalda eru: İdil Eser (Amnesty International), Günal Kurşun (Félag um mannréttindastefnu), Özlem Dalkıran (Borgarafylkingin), Veli Acu (Félag um mannréttindastefnu) Ali Gharavi (ráðgjafi um upplýsingatækni) og Peter Steudtner (fyrirlesari).

Þau sem hafa verið leyst úr haldi gegn tryggingu eru İlknur Üstün  (Kvennabandalagið) Seyhmus Özbekli (Réttindaverkefnið), Nejat Taştan (Félag um jafnrétti) og Nalan Erkem (Borgarafylkingin).