Pakistan: Horfinn mannréttindasinni í hættu á að sæta pyndingum

Hvorki hefur sést til né heyrst frá Deedar Ali Shabrani, rithöfundi, ljóðskáldi og blaðamanni síðan 16. desember 2017. Óttast er að hann sé fórnarlamb þvingaðs mannshvarfs. Deedar er þekktur fyrir að hafa gagnrýnt pakistönsku ríkisstjórnina og fyrir að hafa varpað ljósi á þvinguð mannshvörf í Sindh-héraði.

Amnesty International óttast að Deedar eigi á hættu að sæta pyndingum og illri meðferð, jafnvel dauða – eins og algengt er í tengslum við þvinguð mannshvörf í Pakistan.

Fórnarlömb þvingaðra mannshvarfa í Pakistan hafa meðal annars verið bloggarar, blaðamenn, aðgerðasinnar og aðrir mannréttindasinnar. Vinnuhópur Sameinuðu þjóðanna um mannshvörf af mannavöldum hefur um 700 mál frá Pakistan til skoðunar á meðan nefnd um þvinguð mannshvörf í Pakistan er með um tvöfalt fleiri mál til skoðunar. Mannréttindahópar á svæðinu halda því fram að þessar tölur séu bara brotabrot af heildarfjölda fólks sem hverfur.

Þvinguð mannshvörf  eru ein ómannúðlegasta refsing sem hægt er að beita, fólk er svipt frelsi sínu og  kippt frá fjölskyldum sínum af yfirvöldum. Svo er því neitað að umræddar manneskjur séu í  haldi eða neitað að gefa upp staðsetningu þeirra. Þetta hefur gríðarlega slæm áhrif á fjölskyldur sem fá enga staðfestingu um hvarfið og lifa oft og tíðum í óvissu í mörg ár.

SMS-félagar krefjast þess að hvarf Deedar verði rannsakað og fjölskylda hans upplýst. Einnig að hætt verði að beita þvinguðum mannshvörfum. SMS-félagar krefjast þess líka að tryggt verði að aðgerðasinnar, mannréttindasinnar, blaðamenn, fræðimenn og pólitískir stjórnarandstæðingar njóti tjáningarfrelsis og félagafrelsis.

Hægt er að skrá sig í sms-aðgerðarnetið hér