Rússland: Friðsæll mótmælandi í varðhaldi

Mikhail Tsakunov var handtekinn þann 5. maí í Sankti Pétursborg í Rússlandi þar sem yfir 2000 manns mótmæltu endurkjöri Vladimir Pútíns í embætti forseta. Eftir að hafa eytt nótt í fangelsi var Tsakunov sektaður um 10.000 rússneskar rúblur og honum sagt að höfðað hefði verið sakamál gegn honum vegna brots gegn 318. grein í rússneskum refsilögum. Hann er sakaður um að hafa beitt ofbeldi og ógnað lífi lögreglumanns en slíkt brot getur varðað allt að 10 ár í fangelsi.

Handtaka Tsakunovs náðist á myndbandi sem er á Youtube . Þar sést Tsakunov standa aðeins til hliðar frá öðrum mótmælendum með kærustu sinni og öðrum manni sem heldur á uppblásinni stórri önd. Hópur lögreglumanna veitist að þeim og handtekur manninn sem heldur á öndinni. Lögreglan eltir svo Tsakunov og kærustu hans og handtekur þau bæði. Henni var sleppt lausri að kvöldi 5. maí.

Við krefjumst þess að stjórnvöld sleppi Tsakunov strax og skilyrðislaust þar sem hann hefur verið handtekinn eingöngu fyrir að nýta tjáningarfrelsi sitt. Einnig köllum við eftir rannsókn á aðstæðum og verklagi lögreglu við handtökuna. Að auki köllum við eftir því að rússnesk stjórnvöld virði tjáningarfrelsi og friðsæl mótmæli í Rússlandi.

Þú getur gerst SMS-félagi hér .