Sádí-Arabía: Mannréttindasinnar í haldi

Loujain al-Hathloul, Iman al-Nafjan og Aziza al-Yousef hafa verið í einangrun síðan um miðjan maí í Sádi-Arabíu. Ekki er vitað hvar þeim er haldið. Þær hafa verið í fararbroddi í kvennabaráttu í Sádi-Arabíu en þar er mikil mismunun í garð kvenna. Konur mega til dæmis ekki keyra bíla og þær börðust meðal annars fyrir breytingum á því.

Þann 19. maí var tilkynnt í fjölmiðlum að sjö einstaklingar hefðu verið handteknir fyrir „grunsamleg samskipti við erlenda aðila, liðsöflun starfsfólks í viðkvæmum störfum hjá hinu opinbera og að veita fjárhagsaðstoð til aðila sem eru óvinir ríkisins”. Þær eru líklega hluti af þessum hópi.

Amnesty International telur að þessir aðgerðarsinnar hafi verið handsamaðir fyrir friðsæla vinnu í þágu mannréttinda. Óttast er að þeir verði ákærðir og hljóti ósanngjörn réttarhöld sem gæti leitt til mjög langrar fangelsisvistar.

SMS-félagar hvetja stjórnvöld í Sádí-Arabíu til að sleppa aðgerðarsinnunum strax og skilyrðislaust úr haldi. Einnig að staðsetning  verði gefin upp og tryggt verði að þeir fái aðgang að fjölskyldum sínum og lögfræðingum. Að auki er þess krafist að þeir sæti ekki illri meðferð.    

Skráðu þig í sms-aðgerðarnetið hér.