• Abdulkareem al-Hawaj

Sádi-Arabía: Ungur maður í hættu á að vera tekinn af lífi fyrirvaralaust

SMS-aðgerð nr. 1 október

Abdulkareem al-Hawaj var handtekinn í janúar 2014 fyrir glæpi sem yfirvöld ásökuðu hann um að hafa framið í ágúst 2012, þegar hann var sextán ára, Meðal sakarefna var að hafa „varpað tveimur Molotoff-kokteilum“, „þátttaka í óeirðum þar sem skotið var að brynvörðu ökutæki“ og notkun á samfélagsmiðlum til að deila myndum og vídeóum af mótmælum. Dómstólar virðast hafa fellt dóm eingöngu á grundvelli „játninga“ sem Abdulkareem segir að fengnar hafi verið með pyndingum þegar honum var haldið í einangrun.

Abdulkareem al-Hawaj hafði engan aðgang að lögfræðingi meðan á varðhaldsvistinni stóð. Hann sagði að honum hefði verið haldið í einangrun í GDI-fangelsi í al-Qatif fyrstu tvo mánuðina eftir að hann var handtekinn og að hann hefði verið pyndaður, fangaverðir hefðu lamið hann og hótað að fjölskylda hans yrði myrt. Dómsskjöl sýna að honum var haldið án ákæru í tvö ár. Hann neitar að hafa gert það sem hann er ákærður fyrir.

Þann 11. september staðfesti hæstiréttur Sádi-Arabíu dóm undirréttar yfir Abdulkareem al-Hawaj. Hann á ekki frekari úrkosta völ og getur verið tekinn af lífi hvenær sem er.

Sms-félagar okkar þrýsta nú á konung Sádi-Arabíu, Salman bin Abdul Aziz Al Saud, að koma í veg fyrir aftökuna og afnema dauðadóminn yfir Abdulkareem og öllum öðrum sem dæmdir hafa verið til dauða í landinu. Einnig hvetja þeir stjórnvöld til að hefja tafarlaust óháða rannsókn á ásökunum um pyndingar og aðra illa meðferð. Sádi-Arabía er aðili að Barnasáttmálanum sem bannar alfarið dauðarefsingu gagnvart einstaklingum undir átján ára aldri.

Þú getur skráð þig í SMS-aðgerðanetið hér: http://www.amnesty.is/taktu-thatt/sms-adgerdarnetid/