Ísrael: Standa frammi fyrir tilhæfulausum ákærum fyrir friðsamleg mótmæli

SMS-aðgerð nr. 2 okt 2017

Farid al-Atrash og Issa Amro vilja binda enda á landnám Ísraels, stríðsglæp sem á rætur að rekja til 50 ára hernáms Ísraels á landi Palestínu. Ísrael hefur lokað mörgum svæðum fyrir Palestínubúum á hernumdu svæði í Palestínu, og það gerir þeim ómögulegt að ferðast að vild. Hins vegar geta landnemar af gyðingaættum í Ísrael farið um eins og þeim sýnist.

Aðgerðasinnarnir tveir, sem aðhyllast friðsamleg mótmæli, sæta stöðugum hótunum og árásum af hálfu hermanna og landtökufólks. Issa hvetur ungmenni í Palestínu til að leita friðsamlegra leiða til að mótmæla hernámi Ísraels og óréttlátum lögum í Hebron. Fyrir vikið hafa öryggissveitir Ísraels handtekið hann oftar en einu sinni. Þeir hafa barið hann, bundið fyrir augu hans og yfirheyrt hann. „Hersveitir Ísraels beina spjótum sínum að okkur til að þagga niður í okkur,“ sagði hann. Farid, lögfræðingur sem hefur flett ofan af misbeitingu af hálfu palestínskra og ísraelskra stjórnvalda, sætir einnig svipaðri áreitni.

Í febrúar 2016 tóku Farid og Issa þátt í friðsamlegum mótmælum í borginni Hebron þegar 22 ár voru liðin síðan Ísrael lokaði í fyrsta sinn einni af götum borgarinnar, al-Shuhada, fyrir Palestínubúum.  Í raun er 200 þúsund Palestínubúum í Hebron haldið í gíslingu af þeim 800 landnemum sem búa í miðborginni. Mennirnir standa frammi fyrir tilhæfulausum ákærum sem greinilega er ætlað að hindra mannréttindastarf þeirra.

Krefðu stjórnvöld Ísraels um að fella niður allar ákærur gegn Farid og Issa án tafar.

Þú getur skráð þig í SMS-aðgerðanetið hér: http://www.amnesty.is/taktu-thatt/sms-adgerdarnetid/