Tyrkland: Námsmenn í haldi fyrir að móðga forsetann

Yfirlit

Fjórir námsmenn úr tækniháskóla í Tyrklandi (ODTÜ) hafa verið hnepptir í varðhald vegna borða með skopmynd af forseta landsins, Recep Tayyip Erdoğan. Námsmennirnir gætu átt von á allt að fjögurra ára fangelsisdómi fyrir að „móðga forsetann“.

Það var þann 7. júlí síðastliðinn sem þrír námsmenn út tækniháskóla í Tyrklandi voru handteknir grunaðir um að hafa „móðgað“ Tyrklandsforseta í útskriftarathöfn daginn áður. Námsmennirnir höfðu breitt út borða með skopmynd af Erdoğan forseta á meðan á hefðbundinni skrúðgöngu í tengslum við útskriftarathöfnina stóð. Samkvæmt heimildum var fjórði nemandinn, sem aðstoðaði hina þrjá við að koma borðanum á leikvanginn þar sem athöfnin fór fram, ásamt eiganda prentstofunnar sem prentaði skopmyndina á borðann færðir til yfirheyrslu daginn eftir, þann 8. júlí.

Námsmennirnir sátu í gæsluvarðhaldi án ákæru til 11. júlí eða allt þar til dómstólar í Ankara fyrirskipuðu að þeir skyldu sitja áfram í fangelsi á meðan þeir bíða réttarhalda fyrir að „móðga forsetann“ byggt á grein 299/1 í tyrkneskum hegningarlögum. Námsmennirnir mega eiga von á eins til fjögurra ára fangelsisvist ef þeir verða sóttir til saka og fundnir sekir. Fjórða námsmanninum og eiganda prentstofunnar var sleppt eftir yfirheyrslur.

Borðinn sem um ræðir sýndi skopmynd sem upphaflega var birt í skoptímaritinu Penguen árið 2006. Hún sýnir ýmis dýr með andlit Erdoğans og orðunum “Now it’s the Tayyips Kingdom” eða „Nú er þetta Konungsveldi Tayyips“ fyrir ofan myndina og er það óbein tilvísun í aukin völd forsetans í nýju forsetakerfi landsins. Tímaritinu  Penguen var stefnt af Erdoğan forseta árið 2006 fyrir ærumeiðingar en var að lokum sýknað. Tyrkneskir dómstólar töldu réttinn til tjáningafrelsis og gagnrýni á opinbera einstaklinga vega þyngra í málinu.

SMS – félagar krefjast þess að öllum námsmönnunum verði sleppt og ákærur á hendur þeim verði látnar niður falla. Við krefjumst þess að greinar 299/1 („móðgun við forsetann”) og 125 („gæpsamlegar ærumeiðingar“) verði afnumdar úr tyrkneskum hegningarlögum og að íbúar Tyrklands njóti tjáningafrelsis.

Skráðu þið í sms-aðgerðarnetið hér