Víetnam: Óttast um líf samviskufanga eftir líflátshótanir

Mannréttindabaráttukonan Trần Thị Nga tjáði eiginmanni sínum í stuttu símtali frá fangelsinu sem hún situr í að annar fangi hafi gengið í skrokk á henni og hótað henni lífláti. Samkvæmt fyrri símtölum við fjölskyldu sína lítur út fyrir að ofbeldið sé skipulagt af fangelsisyfirvöldum til að refsa henni. Trần Thị Nga hefur verið haldið í fangelsi í átján mánuði. Hún er samviskufangi sem verður að leysa tafarlaust úr haldi.

Trần Thị Nga fær aðeins eitt símtal í mánuði og tjáði hún fjölskyldu sinni í júlí að henni væri haldið í klefa ásamt öðrum fanga sem væri þekktur fyrir að aðstoða fangaverði við að ógna og beita fanga ofbeldi. Eiginmaður Trần Thị Nga hefur deilt áhyggjum sínum af þessu ástandi og óttast mjög um öryggi konu sinnar í fangelsinu í kjölfar símtals þann 17. ágúst sem lauk skyndilega eftir að hún náði að segja: „ég hef orðið fyrir ítrekuðum barsmíðum og þau hafa hótað að drepa mig.“

Trần Thị Nga var handtekin í janúar 2017 sökuð um að „viðhafa áróður gegn ríkinu“ vegna aðkomu sinnar að friðsömum mótmælum vegna sjávarmengunarstórslyssins sem átti sér stað árið 2016 í Víetnam tengt Formosa stálsmiðjunni. Slysið olli því að hundruð tonna af fiski drapst og flaut á strendur landsins í fjórum héruðum, milljónir manna misstu atvinnu sína í kjölfarið og málið allt vakti upp mikla samfélagslega umræðu í landinu. Dómstóll í Hanam-héraði í Norður-Víetnam dæmdi Trần Thị Nga til níu ára fangelsisvistar og fimm ára stofufangelsis að auki.

Það er þekkt aðferð víetnamskra stjórnvalda að færa samviskufanga langa vegu frá heimili sínu til þess að auka á refsinguna. Í febrúar á þessu ári var Trần Thị Nga flutt í fangelsi þrettán hundruð kílómetra frá heimili hennar og fjölskyldu hennar sem hefur gert henni mjög erfitt fyrir að heimsækja Trần Thị Nga. Þar að auki hafa fangelsisyfirvöld meinað henni að hitta fjölskyldu sína vegna „þrjósku“ Trần Thị Nga, þar sem hún hefur ekki enn fallist á að játa á sig glæp.

Í 18 mánuði hefur Trần Thị Nga setið í fangelsi án þess að hitta eiginmann sinn og einungis fengið að sjá börnin sín tvisvar. Hún er samviskufangi sem var handsamaður fyrir það eitt að nýta rétt sinn til frjálsrar tjáningar á friðsamri samkomu.

Sms-félagar krefjast þess að Trần Thị Nga verði tafarlaust látin laus úr haldi og ekki beitt pyndingum né öðru ofbeldi fram að lausn sinni. Krefjumst þess að Trần Thị Nga fái aðgang að lögfræðingi að eigin vali og fái að hitta fjölskyldu sína. Krefjum víetnömsk stjórnvöld að axla ábyrgð og stöðva óréttlætið.

Skráðu þig í sms-aðgerðarnetið hér