Algengar spurningar um Amnesty International

Hvað er Amnesty International?

Amnesty International er alþjóðleg hreyfing fólks sem berst fyrir því að allir fái að njóta alþjóðlegra viðurkenndra mannréttinda.

Félögum misbýður þau mannréttindabrot sem eiga sér stað um heim allan en sameinast í von um betri heim – og því berjast þeir fyrir auknum mannréttindum með mannréttindastarfi og alþjóðlegri samstöðu.

Félagar okkar og stuðningsaðilar þrýsta á ríkisstjórnir og löggjafarþing, fyrirtæki og alþjóðlegar stofnanir og samtök.

Baráttufólk okkar tekur upp mannréttindamál á vettvangi fjölmiðla og með því að virkja afl almennings á mótmælafundum, kröfugöngum, ýmsum viðburðum og með beinum þrýstingi.

Meira um Amnesty International

Mannréttindasamtökin Amnesty International er alþjóðleg hreyfing fólks sem berst fyrir því að efla virðingu fyrir þeim mannréttindum sem tilgreind eru í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. Amnesty International telur að mannréttindi séu innbyrðis háð og óskipt - allir eigi ávallt að njóta allra mannréttinda og enginn á að njóta tiltekinna réttinda á kostnað annarra réttinda. Amnesty International stuðlar að því að auka virðingu fyrir Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna með því að grípa til aðgerða þegar grundvallarréttindi fólks eru fótum troðin.

Frá upphafi hefur Amnesty International lagt áherslu á að:

 • Frelsa samviskufanga
 • Tryggja skjóta og réttláta dómsmeðferð fyrir alla pólitíska fanga.
 • Binda enda á dauðarefsingar, pyndingar og aðra grimmilega, ómannúðlega eða niðurlægjandi meðferð eða refsingar.
 • Binda enda á aftökur án dóms og laga og „mannshvörf“.
 • Vinna gegn refsileysi með því að tryggja að þeir, sem slíka glæpi fremja, séu látnir svara til saka í samræmi við alþjóðleg viðmið.

Í áranna rás hefur Amnesty International víkkað starfssvið sitt til þess að geta brugðist við mannréttindabrotum, sem hópar og einstaklingar, sem ekki eru hluti stjórnvalda, bera ábyrgð á. Samtökin berjast gegn mannréttindabrotum sem vopnaðir stjórnmálahópar fremja, þar á meðal gíslatöku, pyndingum og ólögmætum drápum. Samtökin berjast gegn mannréttindabrotum í vopnuðum átökum á hendur almennum borgurum, og öðrum sem ekki eiga beina aðild að átökunum. Amnesty International hefur einnig beint sjónum að mannréttindabrotum á heimilum og í samfélaginu, þegar stjórnvöld hafa látið þau átölulaus eða stutt þau.

Skilar starf Amnesty International árangri?

Starf samtakanna hefur skilað raunverulegum árangri.

Við vitum það vegna þess að þeir sem við höfum hjálpað hafa tjáð okkur að þrýstingur af okkar hálfu hafi haft áhrif á líf þeirra og vegna þess að ríkisstjórnir hafa látið undan þrýstingi okkar og breytt lögum og hátterni.

Alþjóðleg samstaða okkar heldur von einstaklinga og hópa lifandi. Vonin er dýrmætt tæki í höndum fanga sem berjast fyrir lífi sínu, fyrir ættingja sem reyna að ná fram réttlæti fyrir ástvini sína, og fyrir þá sem berjast fyrir mannréttindum við hættulegar aðstæður og einangrun.

Frekari upplýsingar um árangur okkar

Hvernig starfar Amnesty International?

Herferðarstarf okkar og rannsóknir grundvallast á staðreyndum. Meðal þess margvíslega starfs sem við sinnum er að við:

 • Sendum sérfræðinga til að ræða við fórnarlömb mannréttindabrota
 • Fylgjumst með réttarhöldum
 • Ræðum við embættisfólk og stjórnmálamenn
 • Eigum samskipti við baráttufólk fyrir mannréttindum
 • Fylgjumst með alþjóðafjölmiðlum og fjölmiðlum í viðkomandi landi
 • Gefum út ítarlegar skýrslur
 • Veitum upplýsingum til fjölmiðla
 • Komum athugasemdum okkar á framfæri í skýrslum, bæklingum, veggspjöldum, auglýsingum, fréttabréfum og á vefsíðum

Við vinnum að því að binda enda á mannréttindabrot með því að virkja almenning til að þrýsta á stjórnvöld, vopnaða pólitíska hópa, fyrirtæki og alþjóðleg samtök og stofnanir, með:

 • Mótmælum og viðburðum á opinberum vettvangi
 • Samkomum
 • Bréfaherferðum
 • Mannréttindafræðslu
 • Tónleikum til að vekja athygli á mannréttindabrotum
 • Beinum þrýstingi · undirskriftaherferðum
 • Tölvupóstherferðum og öðrum aðgerðum á netinu
 • Samvinnu við önnur baráttusamtök
 • Samvinnu við námsmannahreyfingar
 • Ýmsum öðrum aðgerðum

Hvernig get ég starfað með Amnesty International?

Gerstu félagi : Gakktu til liðs við Amnesty International. Taktu afstöðu til mannréttindabrota. Framlag þitt skiptir miklu máli.

Gríptu til aðgerða : Vertu virk(ur) í baráttunni gegn mannréttindabrotum. Þitt framlag vegur þungt!

Hver fjármagnar starf Amnesty International?

Langmest af fjármagni okkar kemur frá einstaklingum um heim allan. Þeir fjármunir gera AI kleift að vera óháð öllum stjórnvöldum, stjórnmálastefnum, fjárhagslegum hagsmunum og trúarbrögðum. Við leitumst hvorki eftir né tökum við fjármagni til mannréttindarannsókna okkar frá ríkisstjórnum eða stjórnmálaflokkum og við þiggjum aðeins fjármuni frá fyrirtækjum sem hafa staðist ítarlega skoðun.

Hver er sagan á bak við Amnesty International?

Í byrjun sjöunda áratugs síðustu aldar voru tveir portúgalskir stúdentar dæmdir í sjö ára fangelsi fyrir að lyfta glösum til heiðurs frelsinu. Þessi saga vakti svo mikinn hrylling hjá breska lögfræðingnum Peter Benenson að hann skrifaði til blaðsins The Observer og hvatti til alþjóðlegrar herferðar til stuðnings þeim sem hann kallaði „gleymdu fangana“.

Þann 28. maí 1961 hóf blaðið þátttöku í herferðinni „Appeal for Amnesty“ (ákall um sakaruppgjöf), þar sem fólk um heim allan var hvatt til að mótmæla því að menn og konur væru fangelsuð fyrir stjórnmála- eða trúarskoðanir.

Lestu meira um sögu Amnesty International

Hvaðan fær Amnesty International upplýsingar sínar?

Rannsóknarteymi okkar fást við einstök lönd og landsvæði, rannsaka frásagnir af mannréttindabrotum og gaumgæfa og staðfesta upplýsingar úr ýmsum áttum. Þau fá upplýsingar frá:

 • Föngum og öðrum sem mega þola mannréttindabrot og fulltrúum þeirra
 • Þeim sem hafa lifað af mannréttindabrot og fjölskyldum þeirra
 • Lögfræðingum og fjölmiðlafólki
 • Flóttafólki
 • Trúarstofnunum og samtökum í samfélaginu
 • Mannúðarsamtökum og öðrum mannréttindasamtökum
 • Baráttufólki fyrir mannréttindum

Amnesty International sendir rannsóknarnefndir til að rannsaka ástand á svæðum þegar þurfa þykir. Þær sendinefndir ræða við fanga, ættingja, lögfræðinga, vitni að mannréttindabrotum og mannréttindafrömuði á svæðinu. Þær geta líka verið viðstaddar réttarhöld og átt viðræður við embættismenn stjórnvalda. Rannsóknarfólk Amnesty International fylgist líka með fjölmiðlum, vefsíðum og öðrum fréttamiðlum í viðkomandi löndum og landsvæðum.

Hvernig tryggir Amnesty International að staðhæfingar samtakanna séu réttar?

Áður en samtökin láta nokkrar fullyrðingar eða skýrslur frá sér fara er efni þeirra yfirfarið og samþykkt innan alþjóðaskrifstofunnar. Þannig tryggir Amnesty International að allt efni samtakanna sé nákvæmt og rétt, ólitað af stjórnmálaskoðunum, og innan þess verksviðs, sem Amnesty International setur sér.

Samtökin fást oft við ásakanir í stað óhrekjanlegra sannana. Samtökin reyna ekki að draga dul á þessa staðreynd og fara að jafnaði fram á að ásakanirnar verði rannsakaðar.

Ef Amnesty International verða á mistök leiðrétta samtökin mistökin.

Vegna þessa nýtur rannsóknarvinna Amnesty International trausts um heim allan. Ríkisstjórnir, önnur alþjóðleg samtök og stofnanir, fjölmiðlafólk, fræðafólk og önnur mannréttindasamtök og baráttusamtök leita mikið til okkar um ráðgjöf og upplýsingar.

Hvernig fær Amnesty International vitneskju um „lokuð“ lönd?

Ef Amnesty International er meinaður aðgangur að landi þurfa rannsóknarhópar samtakanna að reiða sig á ýmsar upplýsingaveitur utan landsins, til dæmis fréttaflutning, frásagnir flóttafólks og stjórnarerindreka utan landsins.

Til baka