Íslandsdeild Amnesty

Íslandsdeild Amnesty International var formlega stofnuð í Norræna húsinu 15. september árið 1974. Þegar deildin var stofnuð voru samtökin fyrst og fremst fangasamtök, þ.e.a.s megin viðfangsefni samtakanna var að stuðla að frelsun samviskufanga, réttlátri dómsmeðferð fyrir pólitíska fanga, afnámi dauðarefsinga og pyntinga. Margt hefur breyst í starfi samtakanna á þeim árum sem liðið hafa frá stofnun Íslandsdeildarinnar og ýmsum áföngum verið náð sem stuðla að aukinni verndun mannréttinda.

Frá stofnun deildarinnar hefur fólk úr öllum þjóðfélagshópum tekið þátt í starfinu og unnið að framgangi markmiða Amnesty International. Starfsemi deildarinnar byggir á frjálsum framlögum og félagsgjöldum. Til að tryggja sjálfstæði og óhlutdrægni hafnar deildin opinberu fé. Frá stofnun Íslandsdeildarinnar hafa grundvallarmarkmið hennar verið óbreytt þ.e. að hvetja fólk til þátttöku í aðgerðum til að ná fram jákvæðum breytingum til handa fórnarlömbum mannréttindabrota.

Íslandsdeild Amnesty International hefur stuðlað að aukinni þekkingu á mannréttindum hér á landi og haft jákvæð áhrif á líf fjölda fórnarlamba mannréttindabrota. Deildin byggir allt sitt starf á óhlutdrægni, sjálfstæði og alþjóðlegri samstöðu. Íslandsdeildin er vettvangur fyrir hinn almenna borgara til að hafa jákvæð áhrif á mannréttindaástandið í heiminum í dag. Raunveruleiki mannréttindabrota krefst þess að samtökin bregðist við nýjum áskorunum og stuðli áfram að framgangi mannréttinda um víða veröld.