Tímalína Amnesty

Hér á eftir fylgir ágrip af þeim mörgu herferðum og aðgerðum sem við höfum gripið til og meginþróun í mannréttindamálum frá árdögum okkar.

1960-1970

1961

Breski lögfræðingurinn Peter Benenson hóf herferð um heim allan, sem bar heitið Ákall um sakaruppgjöf 1961(Appeal for Amnesty 1961) með birtingu greinarinnar Gleymdu fangarnir(The Forgotten Prisoners) í dagblaðinu Observer. Benenson skrifaði greinina eftir að hafa frétt um tvo portúgalska nemendur sem voru fangelsaðir eftir að hafa skálað fyrir frelsinu. Ákall hans var síðan birt í öðrum dagblöðum víða um heim og varð upphafið að Amnesty International.

Fyrsti alþjóðafundurinn var haldinn í júlí það ár og sóttu hann fulltrúar frá Belgíu, Bretlandi, Frakklandi, Þýskalandi, Írlandi, Sviss og Bandaríkjunum. Þeir ákváðu að koma á laggirnar „varanlegri, alþjóðlegri hreyfingu til stuðnings tjáningar- og trúfrelsi“.

Skrifstofa samtakanna og bókasafn fengu inni á skrifstofu Peter Benenson í London og sjálfboðaliðar tóku að sér reksturinn. „Þriggjanetið“ var stofnsett; það þýddi að hver hópur Amnesty International tók að sér þrjá fanga frá mismunandi landsvæðum og pólitískum áhrifasvæðum, og lagði þannig áherslu á óhlutdrægni hópsins.

Kveikt var á fyrsta Amnesty-kertinu í St. Martin in the Fields-kirkjunni í London á alþjóðlega mannréttindadaginn, 10. desember.

Landsdeildir stofnaðar í Bretlandi og Þýskalandi.

1962

Fyrsta rannsóknarferðin var farin í janúar. Farið var til Gana, síðan til Tékkóslóvakíu í febrúar (vegna samviskufanga, erkibiskupsins Josef Beran), og síðan til Portúgal og Austur-Þýskalands.

Samviskufangasjóðurinn var stofnaður til að létta undir með föngum og fjölskyldum þeirra. Fyrsta ársskýrsla AI var gefin út; í henni var sagt frá 210 föngum sem sjötíu hópar í sjö löndum höfðu tekið að sér; auk þess var sagt frá 1.200 málum.

Á ráðstefnu í Belgíu var tekin sú ákvörðun að stofna samtök til framtíðar sem bæru heitið Amnesty International.

Áheyrnarfulltrúi frá samtökunum fylgdist með réttarhöldum yfir Nelson Mandela.

Ný deild er stofnuð: Írland.

1963

Amnesty International samanstóð nú af 350 hópum – samtals hafði Amnesty International nú tekið um 770 fanga upp á arma sína og 140 fangar verið látnir lausir.

Alþjóðaskrifstofan (höfuðstöðvar Amnesty International) var stofnsett í London.

1964

Peter Benenson var kosinn framkvæmdastjóri. Nú voru starfandi 360 hópar í 14 löndum og 329 fangar verið látnir lausir. 1367 ný mál voru tekin upp.

Deilt er um þá tillögu innan samtakanna um að fangar á borð við Nelson Mandela, sem beita ofbeldi eða hvetja til ofbeldis í baráttunni gegn harðstjórnum, heyri til samviskufanga. Tillagan var felld.

Í ágúst fékk Amnesty International ráðgefandi stöðu hjá Sameinuðu þjóðunum.

Nýjar deildir eru stofnaðar: Danmörk, Ísrael, Noregur og Svíþjóð.


1965

Amnesty International gaf út fyrstu skýrslur sínar – um aðstæður fanga í Portúgal, Suður-Afríku og Rúmeníu – og studdi ályktun á vettvangi Sameinuðu þjóðanna um að fresta og síðar að afnema dauðadóma fyrir stjórnmálastörf á friðartímum.

Mánaðarlegri póstkortaherferð fyrir fanga hleypt af stokkunum.

Evrópuráðið veitir Amnesty International ráðgefandi stöðu.

Ný deild er stofnuð: Færeyjar.

1966

Í kjölfar andstöðunnar í Bandaríkjunum gegn herþjónustu í Víetnam, veitir Amnesty International þeim sem neita herþjónustu í tilteknu stríði stöðu samviskufanga. Þeir sem neita að taka þátt í hvaða stríði sem er hljóta einnig stöðu samviskufanga.

Amnesty International nær stórum áfanga þegar 1000 föngum hefur verið sleppt frá stofnun samtakanna. Mál 1500 fanga eru enn í gangi.

Ný deild er stofnuð: Bandaríkin.

1967

Eric Baker tekur við yfirstjórn samtakanna.

Af ótta við að inngrip í mál fanga í Kína gætu dregið úr möguleikum þeirra til að öðlast frelsi er ákveðið að taka ekki upp neitt mál frá Kína.

Innan vébanda Amnesty International voru nú um 550 hópar í 18 löndum og samtökin unnu fyrir nærri 2.000 fanga í 63 löndum – 293 fangar höfðu verið leystir úr haldi.

Nýjar deildir eru stofnaðar: Finnland og Nýja Sjáland.

1968

Fyrsta samviskufangavikan var haldin í nóvember.

Martin Ennals ráðinn í starf aðalframkvæmdastjóra AI. Hann var fyrstur til að gegna því embætti.

Ný deild er stofnuð: Holland.


1969

Í janúar veitti UNESCO Amnesty International ráðgefandi stöðu og samtökin náðu öðrum áfanga – 2.000 samviskufangar höfðu verið leystir úr haldi.

Alþjóðasamningur um afnám alls kynþáttamisréttis samþykktur.

 

1970-1980

1970

Nú voru 850 hópar í 27 löndum; 520 fangar voru leystir úr haldi á árinu.

1971

Amnesty International fékk mikla umfjöllun í alþjóðlegum fjölmiðlum, útvarpi og sjónvarpi á tíu ára afmæli samtakanna. Á árinu voru 700 fangar leystir úr haldi.

Nýjar deildir eru stofnaðar: Mexíkó og Suður-Kórea.

1972

Amnesty International hóf fyrstu alþjóðlegu herferð sína til að binda enda á pyndingar.

720 fangar eru látnir lausir og 1271 ný mál tekin upp.

Nýjar deildir eru stofnaðar: Frakkland og Nepal.


1973

Fyrsta skyndiaðgerðin var send út, vegna Luiz Basilio Rossi, brasilísks prófessors sem var handtekinn af pólitískum ástæðum. Luiz áleit sjálfur að aðgerðir Amnesty International hefðu skipt sköpum: „Ég vissi að mál mitt hafði hlotið athygli á opinberum vettvangi, ég vissi að þeir gátu ekki lengur drepið mig. Þá minnkaði álagið á mig og aðstæður bötnuðu.“

Hin nýju stjórnvöld í Chile samþykktu að leyfa þriggja manna sendinefnd Amnesty International að rannsaka hvort fótur væri fyrir ásökunum um stórfelld mannréttindabrot.

Sameinuðu þjóðirnar samþykktu samhljóða ályktun, sem sett var fram fyrir tilstuðlan Amnesty International, þar sem pyndingar voru fordæmdar með formlegum hætti.

820 fangar eru leystir úr haldi.

Nýjar deildir eru stofnaðar: Belgía, Kanada og Gana.

1974

Sean McBride, formaður alþjóðaráðs samtakanna, fékk friðarverðlaun Nóbels vegna lífsstarfs hans í þágu mannréttinda. Á ársafmæli valdaráns hersins í Chile birti Amnesty International skýrslu þar sem pyndingar, aftökur og stjórnmálakúgun stjórnar Augusto Pinochet voru afhjúpaðar.

Mumtaz Soysal frá Tyrklandi varð fyrsti fyrrverandi samviskufangi samtakanna sem kosinn var í alþjóðaráð Amnesty International, meginstjórnvald samtakanna.

1059 fangar eru leystir úr haldi.

Nýjar deildir eru stofnaðar: Ísland, Ástralía og Ítalía.

1975

Sameinuðu þjóðirnar samþykktu einróma yfirlýsingu gegn pyndingum í framhaldi af herferð Amnesty International gegn pyndingum.

Nú voru 1.592 hópar í 33 löndum og yfir 70.000 félagar í 65 löndum.

1403 fangar eru leystir úr haldi.

1976

Fyrsta fjáröflunarsamkoman, Secret Policeman's Ball, haldin í London. Þar komu fram John Cleese og Monty Python-hópurinn, Peter Cook og aðrir breskir skemmtikraftar. Þessi fjáröflunarsamkoma var haldin í nokkur ár og komu þar fram skemmtikraftar og tónlistarmenn eins og Peter Gabriel, Duran Duran, Mark Knopfler, Bob Geldof, Eric Clapton og Phil Collins. Þessi samkoma var undanfari viðburða eins og Live Aid-hljómleikanna.

Alþjóðasamningur um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og Alþjóðasamningur um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttinditaka gildi.

Ný deild er stofnuð: Grikkland.

1977

Amnesty International fær friðarverðlaun Nóbels fyrir að „styrkja stoðir frelsis og réttlætis, og þar með friðar í heiminum“.

Nýjar deildir: Spánn og Venesúela.

1978

Amnesty International fær mannréttindaverðlaun Sameinuðu þjóðanna fyrir „framúrskarandi framlag á vettvangi mannréttinda“.

1979

Listi birtur með nöfnum 2.665 einstaklinga sem vitað var að hefðu „horfið“ í Argentínu eftir valdarán hersins undir stjórn Jorge Rafael Videla.

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkir Samning um afnám allrar mismununar gagnvart konum.

Nýjar deildir: Ekvador og Fílabeinsströndin

 

1980-1990

1980

Thomas Hammarberg frá Svíþjóð tók við af Martin Ennals sem aðalframkvæmdastjóri Amnesty International.

Amnesty International hleypir af stokkunum fyrstu herferð sinni gegn dauðarefsingum.

2200 hópar og deildir eru starfræktar í 39 löndum.

Nýjar deildir eru stofnaðar: Senegal og Barbados.

1981

Kveikt var á kertum við athöfn til að minnast 20 ára afmælis Amnesty International.

Amnesty International hefur herferð gegn mannshvörfum.

317 skyndiaðgerðamál eru unnin í þágu þúsunda fanga í rúmlega 60 löndum.

Félagar og stuðningsaðilar samtakanna eru nú 220.000 í rúmlega 150 löndum og landsvæðum.

1982

Hinn 10. desember, á alþjóðlega mannréttindadaginn, var alþjóðlegri herferð hrint úr vör sem hafði alþjóðlega sakaruppgjöf fyrir alla samviskufanga að markmiði. Rúmlega ein milljón manna skrifaði undir undirskriftalista þess efnis sem var afhentur Sameinuðu þjóðunum ári síðar.

1983

Amnesty International gaf út sérstaka skýrslu um pólitísk morð á vegum stjórnvalda.

Nýjar deildir eru stofnaðar: Síle, Hong Kong og Púertó Ríkó.

1984

Amnesty International hóf aðra herferð sína gegn pyndingum sem innihélt 12 punkta áætlun í átt að afnámi pyndinga.

Nýjar deildir eru stofnaðar: Brasilía, Trínidad og Tóbagó.

1985

Amnesty International gaf út fyrsta kennsluefni sitt: Kennsla og nám um mannréttindi.

Heimsþingið í Helsinki í Finnlandi ákvað að víkka umboð samtakanna þannig að þau gætu unnið í þágu flóttafólks.

Nú voru félagar og stuðningsaðilar rúmlega hálf milljón.

1986

Bandaríska deildin, Amnesty International USA, hratt af stað tónleikaferðinni Samsæri vonarinnar(Conspiracy of Hope) með U2, Sting, Peter Gabriel, Bryan Adams, Lou Reed, the Neville Brothers og fleirum.

Ian Martin varð aðalframkvæmdastjóri samtakanna.

1987

AI gaf út skýrslu þar sem sagði að dauðarefsingin í Bandaríkjunum væri lituð af kynþáttahyggju og andstæð samningum eins og annarri valfrjálsu bókuninni við alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi.

Samningur gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingutekur gildi.

Nýjar deildir eru stofnaðar: Gvæjana og Tansanía.

1988

Human Rights Now!tónleikaferðin með Sting, Bruce Springsteen og fleirum fór til 19 borga í 15 löndum og milljónir fylgdust með þegar tónleikunum var sjónvarpað á alþjóðlega mannréttindadaginn.

Fjöldi félaga snarjókst í mörgum löndum í kjölfar tónleikaferðarinnar.

Ný deild er stofnuð: Túnis.

1989

Amnesty International gaf út stóra skýrslu um dauðarefsinguna: Þegar ríkið drepur(When the State Kills).

 Nýjar deildir eru stofnaðar: Bermúdaeyjar og Úrúgvæ.1990-2000

1990

Félögum fjölgaði í 700.000 í 150 löndum, og yfir 6.000 hópar sjálfboðaliða störfuðu í 70 löndum.

Nýjar deildir eru stofnaðar: Síerra Leóne og Ungverjaland.

1991

Á þrjátíu ára afmæli Amnesty International juku samtökin við starfssvið sitt til að fást við mannréttindabrot vopnaðra andspyrnuhópa, gíslatöku og fangelsun fólks á grundvelli kynhneigðar.

Nýjar deildir eru stofnaðar: Argentína, Máritíus, Filippseyjar og Paragvæ.

1992

Félagafjöldi kominn yfir eina milljón.

Pierre Sané ráðinn í starf aðalframkvæmdastjóra Amnesty International.

Ný deild er stofnuð: Algería.

1993

Baráttufólk á vegum Amnesty International hélt kröfugöngu við mannréttindaþing Sameinuðu þjóðanna í Vín og sýndi skyndiaðgerðabeiðnir víðs vegar að úr heiminum.

Ný deild er stofnuð: Kólumbía.

1994

Amnesty International hóf stórar alþjóðlegar herferðir vegna mannshvarfa, pólitískra morða og réttinda kvenna.

Ný deild er stofnuð: Benín.

1995

Amnesty International fór í herferðina Stop the Torture Trade.

Ný deild er stofnuð: Slóvenía.

1996

Amnesty International hóf herferð fyrir varanlegum alþjóðlegum sakamáladómstól.

1997

Unnið var í herferð í þágu mannréttinda flóttafólks um heim allan.

Nýjar deildir eru stofnaðar: Taívan og Kostaríka.

1998

Rómarsamþykkt alþjóðlega sakamáladómstólsins tók gildi í júlí 1998.

Amnesty International hóf herferðina Get Up, Sign Up!í tilefni af 50 ára afmæli Mannréttindayfirlýsingarinnar – 13 milljón manns skrifuðu undir til stuðnings herferðinni.

Tónleikar í París á alþjóðlega mannréttindadaginn þar sem fram komu Radiohead, Asian Dub Foundation, Bruce Springsteen, Tracey Chapman, Alanis Morissette, Youssou N'Dour og Peter Gabriel. Dalai Lama og ýmsir mannréttindafrömuðir á alþjóðavettvangi komu líka fram við þetta tækifæri.

Ný deild er stofnuð: Tógó

1999

Yfirlýsing Sameinuðu þjóðanna um baráttufólk fyrir mannréttindumvar samþykkt í mars 1999.

Heimsþing Amnesty International samþykkti að víkka starfssvið samtakanna þannig að hægt væri að fást við eftirfarandi verkefni: efnahagsleg áhrif á mannréttindi; styrkja baráttufólk fyrir mannréttindum; berjast gegn refsileysi; efla starf til verndar flóttafólki; og styrkja baráttufólk í grasrótinni.

Valfrjáls bókun við samning um afnám allrar mismununar gagnvart konumsamþykkt, sem gerir að verkum að nefnd um afnám allrar mismununar gegn konum getur tekið við og fjallað um kærur frá einstaklingum eða hópum.

 

2000–2011

2000

Amnesty International hóf þriðju alþjóðlegu herferð sína gegn pyndingum.

Ný deild er stofnuð: Marokkó.

2001

Irene Khan ráðin aðalframkvæmdastjóri Amnesty International.

Á fertugustu ártíð sinni breytti Amnesty International stofnsamþykktum sínum og færði vinnu við efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi inn í verksvið samtakanna og staðfesti þannig ásetning samtakanna að vinna í þágu þeirrar hugmyndar að mannréttindi séu algild og innbyrðis háð eins og fram kemur í Mannréttindayfirlýsingunni.

Vefsíða Stop Tortureherferðar Amnesty International hlaut Revolution-verðlaunin sem veitt eru þeim sem skara fram úr í stafrænni markaðssetningu.

2002

Valfrjáls bókun við samninginn um réttindi barnsins um þátttöku barna í vopnuðum átökumvar samþykkt (samningurinn um réttindi barnsinsvar samþykktur árið 1959)

Sextugasta ríkið staðfesti Rómarsamþykktina sem gerði alþjóðlega sakamáladómstólnum kleift að hefja störf 1. júlí 2002.

Amnesty International hóf Rússlandsherferð til þess að berjast gegn umfangsmiklum mannréttindabrotum þar í landi sem unnin eru í skjóli refsileysis.

2003

Amnesty International, Oxfam og International Action Network on Small Arms (IANSA) hófu alþjóðlega herferð til að koma taumhaldi á vopnin (Control Arms).

2004

Amnesty International hóf herferð sína Endum ofbeldi gegn konum(Stop Violence Against Women).

2005

Amnesty International hleypti Make Some Noise-herferðinni af stokkunum, þar sem tónlist og aðgerðir runnu saman í þágu mannréttindastarfs Amnesty International. Yoko Ono gaf Amnesty International útgáfuréttinn á laginu Imagine og öllum lögum úr sólóferli John Lennon.

Skýrsla Amnesty International Grimmileg. Ómannleg. Niðurlægir okkur öll – bindið enda á pyndingar og illa meðferð í „stríðinu gegn hryðjuverkum“(Cruel. Inhuman. Degrades us all – Stop torture and ill-treatment in the ‘war on terror'), andæfði þeirri hugmynd að ríki væru ekki bundin af mannréttindasamþykktum í ljósi þeirrar hættu er stafaði af hryðjuverkum.

2006

Skýrsla Amnesty International Glæpafélagar: Hlutverk Evrópu í framsali Bandaríkjanna(Partners in crime: Europe's role in US renditions), sýndi fram á þátttöku evrópskra ríkja í fangaflugi Bandaríkjanna þar sem einstaklingar grunaðir um hryðjuverk voru handteknir á laun og fangelsaðir án dóms og laga.

Milljónasti einstaklingurinn, sem skrifaði undir stuðning við herferðina vegna vopnaviðskiptasáttmála, afhenti Kofi Annan, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, skrá með nöfnum þeirra milljón einstaklinga sem studdu herferðina. Alls gengu meira en 250.000 einstaklingar til viðbótar til liðs við herferðina fyrir árslok.

Amnesty International og samstarfssamtök unnu mikilsverðan sigur þegar Sameinuðu þjóðirnar samþykktu með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða að hefja vinnu við gerð sáttmálans.

SÞ samþykktu samningum vernd allra einstaklinga gegn þvinguðu mannshvarfi.

2007

Amnesty International hóf alþjóðlega undirskriftaherferð þar sem þess var farið á leit við stjórnvöld í Súdan að þau vernduðu óbreytta borgara í Darfúr. Samtökin gáfu út geisladisk þar sem þrjátíu heimsþekktir tónlistarmenn komu fram til að efla stuðning við herferðina. Herferðin fékk nafnið: Látum rödd okkar heyrast: Herferð til að bjarga Darfúr(Make Some Noise: The Campaign to Save Darfur).

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti Frumbyggjayfirlýsinguna(Declaration on the Rights of Indigenous Peoples).

Á 62. fundi þriðju nefndar allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna var samþykkt ályktun L29 í kjölfar mikils þrýstings af hálfu  Amnesty International og samstarfssamtaka AI í  Alþjóðabandalaginu gegn dauðarefsingunni(World Coalition Against the Death Penalty). Ályktunin hvetur til þess að aftökur verði stöðvaðar um heim allan.

Amnesty International hefur yfir 2,2 milljónir félaga í rúmlega 150 löndum og landsvæðum í öllum heimshornum.

2008

Amnesty International hóf alþjóðleg herferð í tengslum við Ólympíuleikana í Peking sem gaf samtökunum tækifæri til að fara yfir stöðu mannréttinda í Kína.

Samtökin veita söngvaranum Peter Gabriel sérleg verðlaun samviskusendiherra fyrir framlag hans í þágu mannréttinda.

Amnesty International fagna 60 ára afmæli Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna með kertaviðburðum um allan heim.

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkir viðauka við samning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi.

2009

Amnesty International hleypir af stokkunum herferð sem kallast Krefjumst virðingar (Demand Dignity) þar sem áherslan er á tengsl mannréttindabrota og fátækar.

Samtökin veita Aung San Suu Kyi verðlaun samviskusendiherra. Hún hefur setið í fangelsi í 13 af síðustu 20 árum. Hún er ein af yfir 2.100 pólitískum föngum í Mjanmar.

2010

Salil Shetty er kosinn framkvæmdastjóri Amnesty International

Amnesty International berst, ásamt frumbyggjasamfélagi í Orissa-ríki á Indandi, gegn áformum breska námafyrirtækisins Vedanta, um að þvinga íbúana á brott til að geta stækkað álvinnslu sína. Í kjölfar þeirrar baráttu hafna indversk stjórnvöld fyrirhuguðum áætlunum námafyrirtækisins.

2011

Amnesty International nær nýjum áfanga þegar tala félagar og stuðningsmanna samtakanna nær þremur milljónum, í rúmlega 150 löndum og landssvæðum um allan heim.

Amnesty International fagnar 50 ára afmæli sínu þann 28. maí með viðburðum um allan heim.