Bíósýning á flóttamannadaginn

20.6.2017

Warehoused_Banner

Í tilefni alþjóðlega Flóttamannadagsins, sem er haldinn um heim allan 20. júní, mun Íslandsdeild Amnesty International efna til kvikmyndasýningar í Bíó Paradís til að vekja athygli á þeim veruleika sem blasir við flóttafólki í Kenía. Eins og staðan er í dag eru um 65 milljónir manna í heiminum á flótta undan stríðsátökum, ofsóknum og annarri vá. Það er fólk sem oft hefur glatað öllu, nema lífinu sjálfu. Þau leita til annarra landa eftir vernd, öryggi og skjóli.

 Íslandsdeildin býður gestum og gangandi frítt í bíó meðan húsrúm leyfir en þar ætlum við að sýna myndina Warehoused. 

Myndin segir frá átakanlegri sögu flóttamanna í Dadaab flóttamannabúðunum í Kenía. Myndin hefst stundvíslega klukkan 20:00 í Bíó Paradís á Hverfisgötunni. Athugið að takmörkuð sæti eru í salnum og hvetjum við því alla til að koma tímanlega. 

Með viðburðinum langar okkur gefa fólki tækifæri til að líta út fyrir landamæri Evrópuríkjanna og sjá veröld flóttamanna í stærra ljósi. 

Í maí 2016 tilkynnti ríkisstjórn Kenía ákvörðun sína um að loka Dadaab, stærstu flóttamannabúðum heims, sem hýsa 280.000 manns.

  • Hvers konar fólk er þetta?
  • Hvaðan kemur það?
  • Hvað bíður þess á flóttanum?
  • Hvaða leiðir eru þeim færar?
  • Hvaða hugmyndir hefur það um lífið og tilveruna?
  • Hvert stefnir það?

Screen-Shot-2017-02-03-at-1.25.54-PM

Þann 16. nóvember síðastliðin tilkynntu stjórnvöld í Kenía hins vegar að þau myndu fresta fyrirhugaðri lokun búðanna um sex mánuði eða þangað til maí 2017. Forseti Kenía hefur heitið því að loka Dadaab-búðunum.

Ákveðinn vendipunktur varð í málinu þann 9. febrúar á þessu ári þegar dómstóll í Kenía komst að þeirri niðurstöðu að lokun á Dadaab-flóttamannabúðunum og það að endursenda flóttafólk aftur til Sómalíu bryti í bága við alþjóðaskuldbindingar, stjórnarskrá landsins og regluna um ,,non-refoulment" sem felur í sér bann við að vísa fólki aftur þangað sem líf þess eða frelsi kann að vera í hættu. Dómstóllinn benti enn fremur á bannið við mismunun á grundvelli kynþáttar eða þjóðernis, og réttinn til sanngjarnrar stjórnsýslumeðferðar.

Þrátt fyrir úrskurð dómstólsins hafa stjórnvöld í Kenía þvingað flóttafólk til að snúa aftur til stríðshrjáðrar Sómalíu auk þess sem ríkisstjórnin hefur ekki virkjað að fullu innlendar stofnanir um flóttamannamál. Því búa sómalískir flóttamenn við enn meiri hættu um að verða sendir aftur Sómalíu auk þess að fá ekki viðhlítandi mannúðaraðstoð.

Eftir myndina munu ungliðar Íslandsdeildarinnar bjóða gestum og gangandi að skrifa undir undirskriftarlista. Höldum áfram að þrýsta á stjórnvöld í Kenía. Skrifum undir og skorum á forseta Kenía, Uhuru Kenyatta, að tryggja að flóttafólk sé ekki þvingað til að snúa aftur til Sómalíu og varanlegra lausna sé leitað í málum þeirra.

Til baka